13.03.2014
Háskólabrú Keilis er eins árs nám sem miðar að því að undirbúa nemendur sem eiga ólokið stúdentsprófi undir kröfuhart háskólanám. Á Háskólabrú Keilis er boðið upp á aðfararnám í félagsvísinda- og lagadeild, hugvísindadeild, viðskipta- og hagfræðideild og verk- og raunvísindadeild. Háskólabrú hefur undanfarin ár markað sér sérstöðu í einstaklingsmiðaðri þjónustu og stuðningi við nemendur og á Ásbrú hefur myndast skemmtilegt námsmannasamfélag í nánu sambýli við öflugt og ört vaxandi frumkvöðla- og atvinnulíf á svæðinu.
Eina aðfaranám á Íslandi í samstarfi við Háskóla Íslands
Keilir er eini skólinn á Íslandi sem býður upp á aðfararnám í samstarfi við Háskóla Íslands, sem þýðir að námið veitir útskrifuðum nemendum réttindi til að sækja um nám við HÍ, sem og alla aðra háskóla á Íslandi, auk fjölda erlendra háskóla. Þetta samstarf við HÍ gerir það að verkum að nemendur hafa að námi loknu aðgang að mesta námsframboði landsins.
Kennsluhættir sem gagnast fullorðnum nemendum
Kennsluaðferðir á Háskólabrú eru fjölbreyttar og hefur skólinn tileinkað sér speglaða kennslu þar sem áhersla er á virkni nemenda í kennslutímum. Námið hefur gefið fjölda fólks nýtt tækifæri til náms og hafa flestir útskrifaðir nemendur hafið háskólanám að náminu loknu. Kennt er bæði í staðnámi og fjarnámi, auk þess sem boðið er uppá staðnám í Háskólabrú á Akureyri í samstarfi við SÍMEY.
Rúmlega þúsund einstaklingar hafa útskrifast úr Háskólabrú Keilis síðan skólinn hóf starfsemi og hafa langflestir haldið áfram í námi. Metnaður nemenda okkar til áframhaldandi náms er því skýr og reynsla þeirra af námi í Háskólabrú Keilis reynst mikilvægt veganesti til að takast á við fjölbreytt nám á háskólastigi.
Umsóknarfrestur um nám á haustönn 2014, er til 10. júní næstkomandi. Nánari upplýsingar um námið má nálgast á: www.haskolabru.is