15.06.2019
Háskólabrú Keilis brautskráði 93 nemendur úr þremur deildum skólans föstudaginn 14. júní síðastliðinn. Eftir útskriftina hafa yfir 138 nemendur Háskólabrúar lokið námi það sem af er ársins, en í ágúst bætist auk þess við útskritarhópur úr Verk- og raunvísindadeild skólans.
Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp. Dúx Háskólabrúar var Guðrún Edda Haraldsdóttir með 9,64 í meðaleinkunn. Fékk hún bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá fékk Ögn Þórarinsdóttir menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þrautsegju. Ásta Dorsett flutti ræðu útskriftarnema.
Með útskriftinni hafa samtals 1.839 nemendur lokið Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Keilir er eini skólinn sem býður upp á aðfaranám í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir HÍ. Mikill fjöldi umsókna er í Háskólabrú Keilis fyrir haustönn 2019 og hefur verið stöðug aukning í námið á undanförnum árum. Nú geta nemendur valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu, en námið veitir aðgang að flest öllu námi í háskólum hérlendis auk háskóla erlendis.
Háskólabrú í staðnámi og fjarnámi hefst næst í ágúst 2019 og verður hægt að taka námið bæði með og án vinnu.
Myndir frá útskrift Keilis 14. júní 2019 (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson)