Fara í efni

Beint úr Háskólabrú í nám til löggildingar fasteignasala

Í síðustu viku fór fram útskrift Keilis þar sem 177 nemendur útskrifuðust við hátíðlega athöfn sem haldin var í Hljómahöll í Reykjanesbæ. Eftir útskriftina hafa nú 4517 einstaklingar útskrifast úr námi við skóla miðstöðvarinnar frá upphafi.

Birna Rós Gísladóttir, 27 ára Reykvíkingur og starfsmaður fasteignasölu, hlotnaðist þann heiður að vera með hæstu einkunn Háskólabrúar með 9,73 í meðaleinkunn. Fékk hún gjafabréf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur.

Birna fór í menntaskóla eftir grunnskóla en hætti á sínum tíma til að fara á vinnumarkaðinn. „Ég vissi ekki hvað mig langaði til að gera og læra svo ég valdi að fara að vinna. Ég fékk vinnu á fasteignasölu og fann mig algjörlega. Draumurinn hefur verið að fara í nám til löggildingu fasteignasala en krafan í það nám er að hafa lokið stúdentsprófi. Námið við Háskólabrú Keilis var hluti af því markmiði.“

Birna hefur því verið í náminu á Háskólabrú samhliða fullri vinnu á fasteignasölu. „Ég hef starfað á fasteignasölu síðastliðin 3 ár og kann ofsa vel við mig þar. Yfirmenn mínir og samstarfsfólk hvöttu mig til að mennta mig og stóðu þau þétt við bakið á mér þennan tíma. Ég var í fullri vinnu með náminu og var álagið mikið enda námið krefjandi. Ég er afar þakklát samstarfsfólki mínu og yfirmönnum fyrir sveigjanleikann og skilninginn."

Aðspurð hvort hún hafi búist við þessum árangri segist hún ekki svo vera en viðurkennir að hafa lagt mikla vinnu í námið. „Ég lagði mig alla fram við að skila vel frá mér og setti mikla vinnu í alla áfanga, bæði þá sem mér fannst erfiðir og þá sem ég átti auðveldara með. Ég hafði mikinn metnað í byrjun árs og hann hélst vel út skólaárið, ekki síst vegna þess hve kennarar skólans styðja vel við nemendur. Ég upplifði mjög gott utanumhald í Keili og það hafði mikil og jákvæð áhrif á úthaldið hjá mér."

Fjölskyldan og unnustinn kletturinn

„Fjölskyldan mín og unnusti voru kletturinn minn í gegnum þetta ár, en þau sýndu mér endalausan skilning og þolinmæði þegar ég varð að afboða mig í matarboð og endurskipuleggja hittinga til að geta sinnt námi og vinnu eins vel og ég vildi. Þar að auki var ég að upplifa í fyrsta skipti að ég var í náminu á mínum forsendum og ég held að það hafi haft mestu áhrifin á það hvað þetta gekk vel hjá mér.“

Þakklæti og frekara nám

Í haust tekur við nám til löggildingar fasteignasala hjá Endurmenntun HÍ. „Ég hlakka mikið til komandi tíma, og aldrei að vita nema að ég haldi áfram að mennta mig að því loknu.“

Það sem stendur mest upp úr eftir námið að mati Birnu er allt góða fólkið sem hún kynntist, samnemendur og kennarar og þá sérstaklega stelpurnar sem hún kynntist strax í byrjun skólaársins síðasta haust. „Ég var í fjarnámi og sat aldrei tíma í skólanum, en vegna þess hvernig námið er uppsett kynntist ég hópi af frábærum stelpum í hópverkefni í fyrsta fjartímanum á Teams. Það var alveg ómetanlegur vinskapur að eiga í gegnum þennan tíma, að standa ekki ein í þessu öllu saman, ég á þeim svo margt að þakka.“

„Ég er einnig mjög þakklát að þessi leið sé í boði en hún opnar möguleika á að komast í nám þegar maður finnur köllunina til þess að setjast aftur á skólabekk. Ég mæli eindregið með námi við Háskólabrú Keilis og held að langflestir sem eru á þeim stað að þeim langi að fara í háskólanám geti fundið sig á Háskólabrúnni, þetta er gríðarlega góður grunnur í áframhaldandi nám. Við erum mörg sem eigum eftir að njóta góðs af Háskólabrúnni og ég vona að sem flestir nýti sér hana. Keilir er frábær skóli sem skilaði svo miklu jákvæðu og óvæntu í mitt líf.“

Nám hefst næst á Háskólabrú haust 2022

Háskólabrú hefst næst haustið 2022. Miðað er við að nemendur séu orðnir 23 ára og hafi lokið 70 einingum (117 framhaldsskólaeiningum samkvæmt nýja einingakerfinu) á framhaldsskólastigi. Þar af þurfa umsækjendur að hafa lokið að minnsta kosti 6 einingum (10 feiningum) í hverju af grunnfögunum þremur, þ.e. í stærðfræði, íslensku og ensku. Umsækjendur eiga möguleika á að fá starfsreynslu sína metna til eininga að hluta upp í þær lágmarkseiningar sem krafist er.

Við hvetjum þau sem eru óviss um hvort þau uppfylli inntökukröfur að hafa samband og við förum yfir þetta saman.