Ari Gauti Arinbjarnarson er giftur þriggja barna faðir sem lauk námi á Háskólabrú vor 2023. Hann stundaði fjarnám á verk- og raunvísindadeild samhliða fullri vinnu sem tók tvö ár. Áður en Ari Gauti hóf nám á Háskólabrú þurfti hann að bæta við sig nokkrum einingum til að uppfylla inntökuviðmið Háskólabrúar. Þær einingar tók hann á fjarnámshlaðborði Keilis þar sem boðið er upp á opna framhaldsskólaáfanga í 100% fjarnámi.
Draumurinn að starfa sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður
Samhliða námi á Háskólabrú starfaði Ari Gauti sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Brunavörnum Suðurnesja og gerir enn í dag. Ástæðan fyrir því að hann valdi fjarnám samhliða vinnu var vegna uppsetningar á náminu tengt lotum og það hafi hentað einstaklega vel að geta tekið einn áfanga í einu. Ari Gauti segir helstu ástæðu þess að hann fór af stað í nám var löngun hans í að halda áfram störfum sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og eiga möguleika á fastráðningu en þar sé krafa um námslok á framhaldsskólastigi þ.e. stúdentspróf eða sambærilegt.
Oft reynt að ljúka námi áður en aldrei klárað
Ari Gauti segir að námið hafi vissulega verið krefjandi á köflum en aðallega hafi námstíminn verið skemmtilegur og spennandi. Að hans mati sé Háskólabrú Keilis framúrskarandi skóli með góðu starfsfólki sem vill aðstoða nemendur sína við að komast gegnum hindranir og vera innan handar þegar á þarf að halda. Ari Gauti er greindur með lestrarörðugleika sem og ADHD og segist margoft hafa reynt að stunda nám áður en aldrei klárað. Nú sé það loks orðið að veruleika og draumurinn hafi ræst. Þegar Ari Gauti er spurður út í framhaldið segir hann það ekki útilokað að hann muni haldi áfram námi síðar en framtíðin muni leiða það í ljós.
Það geta allir lokið námi sem hafa áhuga
Að lokum vill Ari Gauti hvetja alla þá sem eiga þann draum að ljúka námi á framhaldsskólastigi að skrá sig í nám hjá Háskólabrú. Fyrst hann gat klárað þetta þá geti aðrir það líka, aðalatriðið sé áhugi og vilji og þá séu allir vegir færir. Ari Gauti ítrekar að viðmót og færni allra starfsmann sé til fyrirmyndar og hann sé virkilega þakklátur fyrir tækifærið sem hann fékk til að stunda nám hjá Háskólabrú Keilis.
Háskólabrú í fjarnámi og staðnámi hefst næst 15.ágúst 2024. Hægt er að stunda fjarnám til eins eða tveggja ára eða skipuleggja námið eftir því sem hentar hverjum og einum í samráði við námsráðgjafa. Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Keilis https://www.keilir.net/haskolabru/