Fara í efni

Útskrift af Verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar

Frá útskriftinni 18. ágúst
Frá útskriftinni 18. ágúst
Keilir útskrifaði ellefu nemendur af Verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar við hátíðlega athöfn á Ásbrú föstudaginn 18. ágúst. Með útskriftinni hefur Háskólabrú Keilis útskrifað alls 113 nemendur á þessu ári og samtals 1.534 nemendur á þeim tíu árum sem boðið hefur verið upp á námið.
 
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, flutti hátíðarræðu og Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp. Í ræðu sinni lagði Hjálmar áherslu á gagnkvæma virðingu okkar fyrir ólíkri menningu, trúarbrögðum og þjóðfélagshópum, en án hennar væri menntun lítils virði. Þá flutti Thelma Rán Gylfadóttir ræðu útskriftarnema. Dúx var Anton Þór Ólafsson með 9,59 í meðaleinkunn. Fékk hann bók og lesbretti frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur.
 
Flestar umsóknir í Háskólabrú Keilis frá upphafi
 
Aldrei hafa borist jafn margar umsóknir um nám í Háskólabrú Keilis á haustönn og fjölgar þeim mikið milli ára. Mun árgangurinn sem hefur nám á haustönn 2017 því verða með þeim fjölmennustu frá upphafi. 
 
Keilir hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Þá mun Keilir bjóða upp á Háskólabrú á ensku frá og með haustinu. Námið er hugsað fyrir einstaklinga með annað móðurmál en íslensku sem hyggja á nám í Háskóla Íslands en hafa ekki lokið stúdentsprófi. Námið hefst í október og er umsóknarfrestur til 11. september næstkomandi.
 
Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Kannanir í Háskóla Íslands á gengi nýnema hafa sýnt að nemendur sem koma úr Háskólabrú Keilis eru meðal þeirra efstu yfir þá sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám.