Fara í efni

Umsóknir í Menntastoðir á vorönn 2012

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Menntastoðir á vorönn 2012. Menntastoðir er tilvalin námsleið fyrir þá sem vilja hefja nám á ný og ná sér í grunnfögin í framhaldsskóla og er boðið uppá þrjár mismunandi leiðir, staðnám, dreifinám og fjarnám.

Helsti munurinn er sá að staðnám tekur um 6 mánuði og er kennt alla virka daga en dreifi- og fjarnám tekur 10 mánuði og er kvöld/helgarskóli með fjarnámssniði. Athugið að ekki verður farið af stað með dreifinámshóp í janúar nema næg þátttaka fáist.

Menntastoðir er nám unnið í samstarfi Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Fræðslumiðstöðvar Atvinnulífsins og Keilis. Í náminu er lögð áhersla á að nemendur læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Markmið Menntastoða er að stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til áframhaldandi náms og auðvelda þeim að takast á við ný verkefni. Nemendur stunda þá námið að miklu leyti í gegnum netið en koma í staðlotur með vissu millibili.

Námið er hugsað sem undirbúningur til áframhaldandi náms, meðal annars í Háskólabrú Keilis. Nú þegar hafa 122 nemendur lokið fullu námi í Menntastoðum og um 80% þeirra hafið nám í Háskólabrú hjá Keili. Helstu námsgreinar eru íslenska, stærðfræði, enska, danska, bókfærsla og tölvu- og upplýsingatækni. Nám í Menntastoðum kostar 110.000 kr. Hægt er að sækja um styrki hjá stéttarfélögum fyrir skólagjöldum eða gera námssamning við Vinnumálastofnun.

Nánari upplýsingar og umsókn um nám má nálgast hér.

Frekari upplýsingar veitir Særún Rósa Ástþórsdóttir hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum í síma 412 5952 eða í gegnum netfangið: saerunrosa@mss.is.