Fara í efni

Þróun og innleiðing fagháskólanáms í leikskólafræðum á landsvísu

Útskriftarhópur úr fagháskólanámi í leikskólafræðum í júní '22
Útskriftarhópur úr fagháskólanámi í leikskólafræðum í júní '22

Á dögunum var undirrituð viljayfirlýsingu um þróun og innleiðingu fagháskólanáms í leikskólakennarafræðum á landsvísu af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis auk rektors Háskóla Íslands, rektors Háskólans á Akureyri og formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Markmiðið með viljayfirlýsingunni er fjölgun leikskólakennara og að komið verði á fót fagháskólanámi í leikskólafræðum og það fest í sessi í öllum landshlutum. Árið 2025 er markmiðið að 50 brautskráist úr fagháskólanámi, að lágmarki, og að meirihluti nemenda haldi áfram í B.Ed. námi í leikskólafræðum.

Frá hausti 2020 hefur Háskólabrú Keilis verið í samstarfi við Háskóla Íslands tengt þróunarverkefni í fagháskólanámi í leikskólafræðum og lauk fyrsti hópurinn námsleiðinni í júní síðastliðinn. Í þeim hópi voru nemendur af Suðurnesjum og Suðurlandi.

“Samstarf við Háskóla Íslands síðustu tvö ár hefur verið mjög ánægjulegt og lærdómsríkt. Helsti ávinningurinn er þó reynslan og menntun þeirra nemenda sem að stunduðu námið sem skilar sér í faglegt starf leikskólanna. Keilir fagnar því áframhaldandi áherslum í leikskólafræðum á landsvísu og mun leggja sitt af mörkum til verkefnisins ef leitað verður eftir áframhaldandi samstarfi.“ Sagði Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar.

Stefnt er að því að endurnýja samning við Keili hvað varðar skipulag og framkvæmd námsins á suðvesturhorni landsins og verður jafnframt leitað samstarfs við sveitarfélög og símenntunarmiðstöðvar landsins. Unnið verður að því að haustið 2023 verði hægt að hefja námið í flestum landshlutum og fer það meðal annars eftir því hversu vel undirbúningur og fjármögnun gengur.

Fagháskólanám í leikskólafræðum er 60 ECTS eininga diplómanám og hentar starfsmönnum leikskóla sem ekki hafa lokið háskólanámi í fræðunum en vilja styrkja sig í starfi. Námið einblínir á að efla sjálfstraust nemendanna til náms og kynna fyrir þeim fræðin sem skilar sér beint inn í starf leikskólanna. Námið er sett upp með það í huga að nemendur geti stundað það samhliða vinnu og fái svigrúm og stuðning hjá sínum vinnuveitanda. Þegar diplómanáminu er lokið geta nemendur sótt um og fengið námið metið að fullu sem fyrsta ár af þremur í B.Ed. námi. Við hvetjum alla þá sem hafa áhuga á námsleiðinni að senda okkur fyrirspurn varðandi inntökuskilyrði eða fyrirkomulagið á faghaskolanam@keilir.net