Fara í efni

Þrír nemendur Háskólabrúar hljóta styrk úr Afreks- og hvatningasjóði HÍ

Þann 29. ágúst tóku fjörtíu framúrskarandi námsmenn við styrkjum úr Afreks- og hvatningasjóði stúdenta Háskóla Íslands við athöfn í Hátíðasal skólans. Afreks- og hvatningarsjóðurinn hefur frá árinu 2008 veitt styrki til nýnema sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs eða aðfaranámi að háskólanámi og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig vel í námi.

Þrír styrkþegar koma af Háskólabrú og eru það þær Sóley Kristín Harðardóttir, Elma Karen Sigþórsdóttir og Catarina Martins Sousa Lima.

Sóley Kristín Harðardóttir útskrifaðist af Háskólabrú Keilis í janúar síðastliðnum þar sem hún dúxaði með næsthæstu einkunn í sögu brúarinnar. Hún fékk viðurkenningu Háskólabrúar fyrir framúrskarandi námsárangur og er nú mætt í Háskóla Íslands þar sem hún nemur lífefna- og sameindalíffræði.

Elma Karen Sigþórsdóttir útskrifaðist af Háskólabrú Keilis í vor með glæsilegum árangri. Elma hefur mikinn áhuga á heimspeki og nemur nú heimspeki í Háskóla Íslands og stefnir ótrauð á doktorsnám á því sviði í framtíðinni.

Catarina Martins Sousa Lima lauk námi frá Háskólabrú á verk- og raunvísindadeild nú í vor með mjög góðum árangri en þess má geta að hún lauk námi á félagsvísinda- og lagadeild í janúar 2021. Hún flutti til Íslands frá Bandaríjunum fyrir sex árum og hefur nú lokið námi á þriðja hæfniþrepi á bæði bandarískum og íslenskum vettvangi. Catarina hefur æft fótbolta með Haukum, Fylki og ÍR ásamt því að leiðbeina ungum iðkendum. Hún hefur hafið nám í iðnaðarverkfræði.

Styrkupphæð hvers og eins nemur 375 þúsund krónum og eru styrkirnir veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands.

Við óskum Sóleyju, Elmu og Catarinu innilega til hamingju með vel verðskuldaða viðurkenningu.