Fara í efni

Ræða útskriftarnema Háskólabrúar

Svanur Þór sýnir okkur hversu stór gulrótin er
Svanur Þór sýnir okkur hversu stór gulrótin er

Svanur Þór Smárason flutti frábæra ræðu fyrir hönd nemenda á Háskólabrú við útskrift Keilis þann 16. janúar síðastliðinn. Við fengum leyfi til að birta ræðuna í heild sinni. Þess má geta að í kjölfarið á fréttinni fór Svanur Þór í viðtal í þættinum ?Í bítið? á Bylgjunni 21. janúar. Hægt er að hlusta á viðtalið hér.

Kæru skólastjórnendur, kennarar, starfsmenn skólans, samnemendur og aðrir gestir.

Okkur tókst það!!

Gulrótin sem við erum búin að eltast við síðastliðið ár er í höfn.

Mig langaði aðeins tala um þá vegferð sem ég og aðrir nemendur Keilis höfum tekist á við síðastliðið ár. Flest erum við svokölluð drop-out sem þýðir að við hættum í framhaldsskóla án þess að ljúka honum. Ég hafði sjálfur prófað marga skóla og var búinn að byrja á mjög mörgu en hafði ekki klárað neitt. Löngunin til að fara í Háskóla var farin að segja til sín og ég þurfti að klára stúdentinn sem fyrst. Ég hafði frétt af Háskólabrú Keilis og fannst það sniðug lausn fyrir mann eins og mig. Stúdentspróf á einu ári, takk fyrir það!

Ég gæti meira að segja klárað háskóla fyrir fertugt, alveg frábært.

Það voru líkast til allri með fiðrildi í maganum og ég var með nettan kvíða þegar ég gekk inn í Keili að morgni 3. Janúar í fyrra. Fyrsti skóladagurinn var að hefjast og ég að byrja aftur í skóla eftir 15 ára fjarveru. Þegar við komum inn benti Sirrý, móttökustjóri mér, að ganga inn í stofu B6 sem rúmaði alla fjarnámsnemana, sem voru ótrúlega margir, 120 minnir mig að hafi verið sagt. Ég hugsaði með mér þegar ég fékk mér sæti í stofunni, ég þekki ekki neinn hérna, hvernig á ég að geta klárað þetta nám á næstu 12 mánuðum? Ég sem kann ekki einu sinni að læra lengur, hvað þá að glósa.

Þegar heim var komið að loknum fyrsta skóladeginum var bara ein tilfinning sem skyggði allar aðrar, þvílík gleði, rosalega hafði verið gaman í dag. Mikið hlakkaði mig til mæta á morgun. Það var greinilega markmið skólans að þjappa nemendunum saman og að árið yrði ánægjulegt.

Byrjun annar að vori hófst á stærðfræði og upplýsinga- og tölvutækni, en nú voru góð ráð dýr því ég hafi nú ekki beinlínis verið afburðanámsmaður hérna á árum áður, yfirleitt lét maður bara fimmuna duga, það var bónus að fá hærra. En þar sem Keilir hefur frábæra kennara sem allir eru áhugasamir, einbeittir og tilbúnir í að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að rétta manni hjálparhönd. Voru haldnir auka stoðtímar þegar manni fannst maður ekki vera að ná efninu nógu vel. Þeir svöruðu tölvupósti á miðnætti þegar maður hafði loksins tíma til að læra og virkilega héldu utan um mannskapinn. Áhugi kennarana á efninu smitaðist fljótt og nú breyttist í andinn í manni. Keppnisskapið um háa einkunn fór af stað.

Nú fór sú hugsun í gang, að kannski get ég þetta alveg. Vorönnin leið og það var að koma sumar. Við sem vorum á verk- og raunvísindadeild vorum svo heppin að fá sumarönn líka, sem mér fannst hún sú erfiðasta. Þetta var mjög mikið efni á skömmum tíma og var vinnuhelgin í júlí. Það var 20° stiga hiti og glampandi sól. Það virtust allir vera í útilegum eða að hafa það kósý á meðan við börðumst við að halda athyglinni einbeittri. En við fengum kærkomið 3 vikna sumarfrí og svakalega var skrítið að þurfa ekki að læra öll kvöld og geta slakað á með sínum nánustu í sumarfríinu. Þegar haustönnin hófst að fullum þunga í ágúst var maður farinn að sjá glitta í gulrótina, fyrir alvöru, í fyrsta skiptið.

Ég get alveg viðurkennt það að það var komin svolítil þreyta í mannskapinn, þegar haustönnin var hálfuð, en vinnusemi kennaranna og áhugi þeirra á náminu var ennþá að smita mann, og maður fór að sjá gleðina í því að læra, spáið í því! Lokametrarnir voru langir og desember var lengi að líða, það var bara eitt próf eftir og spennan mikil, því sú leið, sem við höfuðum farið var senn á enda.

Eftir námið situr breyttur maður, þetta ár er búið að vera mjög strembið en um leið skemmtilegt. Þau vinabönd sem hafa skapast eiga eftir að lifa lengi. Sú þjöppun sem varð í hópnum og samheldnin þar sem nemendur voru að hjálpast að, við að leysa verkefni. Við vorum ekki bara hópur af fólki sem var hver í sínu horni að troða marvaðann heldur voru allir að hjálpast að. Ég, þessi breytti maður sem nú les bækur mér til gamans, hefur nýja sýn á lífið og það er eitthvað sem ég verð Keili að eilífu þakklátur. Kennarar sem hafa fært mér lykilinn til að opna næstu dyr í mínu lífi og ég er fullur eftirvæntingar að geta hafið nám í háskóla. Heyrðu þið það?

Ég er að fara í háskóla.

Mig langar til að þakka kennurunum og nemendunum fyrir samveruna síðastliðið ár. Þetta hefði aldrei tekist án stuðnings fjölskyldunnar, Red Bull og kaffi drykkju.

Takk fyrir mig.