Fara í efni

Hlaut hæstu einkunn frá upphafi á verk- og raunvísindadeild

Á föstudaginn 12. ágúst síðastliðinn fór fram hátíðleg athöfn í sal Keilis á Ásbrú í tilefni útskriftar nemenda af verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar. Hafa nú 4543 einstaklingar útskrifast úr námi við skóla miðstöðvarinnar og er heildarfjöldi útskrifaðra af Háskólabrú frá upphafi nú 2371 einstaklingur.

Unnar Geir Ægisson útskrifaðist með hæstu einkunn og fékk hann peningagjöf frá HS orku sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Unnar var með 9,79 í meðaleinkunn sem er næsthæsta einkunn í sögu Háskólabrúar og sú hæsta í sögunni af verk- og raunvísindadeild.

Aðspurður um lykilinn að velgengni sinni í náminu segir Unnar það að ganga samviskusamlega að náminu hafi skipt öllu máli. „Að horfa á alla fyrirlestra, reikna öll dæmin á dæmalistunum og spyrja kennara þegar ég var ekki viss með hluti. Þetta hljómar frekar einfalt en mér fannst eins og það væri mjög auðvelt að falla í þá gryfju að sleppa dæmum og fyrirlestrum bara útaf því að ég taldi mig kunna efnið. Ég tók frekar alltaf bara einn dag í einu og einbeitti mér að því að klára það sem næst var á dagskrá.“

Unnar er 33 ára, búsettur í Gravarvogi með konu sinni og stjúpdóttur, og eiga þau það öll sameiginlegt að vera mikið hestafólk. „Við erum mikið hestafólk og erum við konan mín það heppin að vinnan okkar snýst einmitt líka um hesta“. En Unnar hefur unnið sem sölufulltrúi hjá Íshestum síðustu ár og tók hann námið á Háskólabrú í fjarnámi samhliða vinnu.

Fékk innblástur frá systur sinni

Það hafði blundað lengi í Unnari að drífa sig í nám og var það í útskrift systur hans af Háskólabrú árið 2021 þegar hann ákvað að nú væri komið að honum. „Ég hafði lengi velt því fyrir mér hvenær ég myndi loksins klára stúdentinn og fara í háskóla en lífið varð bara alltaf einhvern veginn fyrir. Systir mín kláraði félags- og lagadeild hjá Háskólabrú Keilis á seinasta ári og þegar ég mætti í útskriftarveisluna hennar þá ákvað ég að núna væri kominn tími á að ég byrjaði aftur í námi og skráði ég mig í nám á Háskólabrú stuttu eftir það. “ Systir Unnars útskrifaðist einnig með glæsibrag en Unnar tók því sem enn annari áskoruninni og vildi gera enn betur. „Hún var mjög ánægð í sínu námi sem dróg mig að Keili. Henni gekk mjög vel þannig ég varð náttúrulega að toppa það“. Sagði Unnar léttur í bragði.

Bjóst aldrei við hæstu einkunn í sögunni

Unnar segist alltaf hafa átt auðvelt með að læra en með aldrinum hafi hann byrjað að þekkja betur inn á sjálfan sig. „Ég kann betur að vinna með mína kosti núna, já og galla. Ég vissi strax að mér myndi ganga vel en bjóst ekki við því að dúxa. Þegar ég fékk einkunnirnar eftir fystu önninna þá sá ég að ef ég myndi halda þessu áfram þá ætti ég möguleika á að dúxa og það hvatti mig vel áfram. Ég bjóst samt aldrei við því að ég myndi útskrifast með hæstu einkunn í sögunni af verk- og raunvísindadeild og kom það mér vel á óvart.“

Aðspurður um tímann sinn hjá Keili stendur eitt og annað upp úr eftir krefjandi en gefandi ár. „Keilir er mjög þægilegur og skemmtilegur skóli og mér fannst ég alltaf hafa gott aðgengi að kennurum og námsráðgjöfum sem var mjög stór plús. Það sem stendur þó helst upp úr frá tímanum mínum hjá Keili voru öll spjöllin við Gísla stærðfræðikennara, þegar við vorum að kafa djúpt í tölurnar, ásamt hópaverkefnunum. Þetta var krefjandi ár en mjög gefandi“.

Stefnir á hugbúnaðarverkfræði

Stefnan hjá Unnari er næst sett á hugbúnaðarverkfræði í HR í framhaldinu og vill hann hvetja sem flesta til þess að taka af skarið og skrá sig á Háskólabrú. „Ef einhver er í vangaveltum með að skrá sig í námið mæli ég með að taka af skarið og skrá sig. Þó svo að maður sé stressaður að byrja að þá dettur maður fljótt inn í skólarútínuna. Þetta verður að öllum líkindum krefjandi en gefandi á sama tíma“ segir Unnar að lokum.