Það er okkur sönn ánægja að tilkynna þér að umsókn þín í Háskólabrú Keilis hefur verið samþykkt.
Nú eru spennandi tímar framundan og hlökkum við til að taka á móti þér á nýnemadeginum. Við sendum þér nánari upplýsingar um daginn þegar nær dregur. En ekki hika við að hafa samband við okkur áður ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi námið.
Nokkrar gagnlegar upplýsingar um námið þitt
Til að hjálpa þér að undirbúa námið bendum við þér á að skoða gagnlegar upplýsingar fyrir nýnema, auk þess sem þú getur haft samband við okkur varðandi næstu skref. Berglind Kristjánsdóttir forstöðukona Háskólabrúar og námsráðgjafar Keilis, geta svarað spurningum þínum varðandi fyrstu skref þín í náminu. Þú mátt líka gjarnan líta við hjá okkur í kaffibolla þannig að við getum kynnst þér ennþá betur áður en þú hefur nám við Keili.
Starfsfólk Keilis
Velkomin(n) í skólann
Kæri nýnemi. Námið þitt hefst með skólasetningu og nýnemadegi. Þar er farið yfir ýmis hagnýt atriði sem tengjast náminu og skólanum, þú hittir þá starfsmenn sem koma að náminu og einhverja af kennurunum. Námsráðgjafar verða á staðnum og kynna sitt hlutverk og tölvuþjónustan okkar tryggir að öll tæknileg atriði séu á hreinu áður en lagt er af stað í það skemmtilega ferðalag sem námið á Háskólabrú sannarlega er.
Við erum full tilhlökkunar að hefja viðburðaríkt skólaár.
Ertu að byrja í staðnámi Háskólabrúar?
Boðið er upp á fjórar deildir á Háskólabrú: Félagsvísinda- og lagadeild, hugvísindadeild, viðskipta- og hagfræðideild og verk- og raunvísindadeild. Lengd námsins fer eftir því hvaða deild er valin. Þannig tekur námið tvær annir fyrir þá nemendur sem ætla sér að stunda nám á öllum deildum nema verk- og raunvísindadeild en námið er þrjár annir fyrir þá nemendur sem ætla sér að stunda nám í verk- eða raunvísindum.
Boðið er upp á staðnám í Háskólabrú hjá Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ. Kennsla fer fram í dagskóla og kennslufyrirkomulag er í formi fyrirlestra, verkefna- og dæmatíma ásamt verklegum tímum í raungreinum.
Þú getur fundið gagnlegar upplýsingar um fyrstu skrefin í staðnámi Háskólabrúar á heimasíðunni
Ertu að byrja í fjarnámi Háskólabrúar?
Boðið er upp á fjórar deildir á Háskólabrú: Félagsvísinda- og lagadeild, hugvísindadeild, viðskipta- og hagfræðideild og verk- og raunvísindadeild. Lengd námsins fer eftir því hvaða deild er valin.
Í hverjum áfanga eru tvær vinnulotur sem við hvetjum nemendur eindregið til að taka þátt í. Snemma í áfanganum er oftast heill vinnudagur, annaðhvort föstudagur eða laugardagur. Þá geta nemendur komið í skólann og kynnst bæði kennaranum og samnemendum, en ef fólk hefur ekki tækifæri á að koma á staðinn er líka mögulegt að taka þátt í gegnum Microsoft Teams.
Hin vinnulotan er hálfur dagur, annaðhvort föstudag eða laugardag og annaðhvort fyrir hádegi eða eftir hádegi. Sú lota fer eingöngu fram rafrænt.
Einstaka undantekningar eru á þessu skipulagi. Það má sjá á dagskrá annarinnar sem birt er á heimasíðunni einhverjum vikum áður en önnin hefst.
Þú getur fundið gagnlegar upplýsingar um fyrstu skrefin í fjarnámi Háskólabrúar á heimasíðunni
Ertu að byrja í fjarnámi Háskólabrúar með vinnu?
Fjarnám í Háskólabrú með vinnu er tekið á tveimur árum og er skipulagt eins og fjarnám Háskólabrúar.
Sama fyrirkomulag er á vinnulotum (sjá hér fyrir ofan), en eini munurinn er sá að í þessari námsleið eru teknir færri áfangar á hverri önn
Við vendum náminu í Keili
Keilir leggur áherslu á svokallað vendinám (flipped learning). Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við þar sem fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu. Nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Þá geta nemendur sent spurningar um efnið til kennara (eða annarra nemenda í hópnum) og fá svör á netinu sem öllum eru opin. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt kennsluefni.
Kennslustundir og vinnulotur í skólanum verða fyrir vikið öðruvísi en margir eiga að venjast. Þar vinna nemendur verkefnin, oftast saman í hóp, og kennarar aðstoða eftir þörfum við úrlausnir. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Nám er alltaf á ábyrgð nemenda og undirbúningur fyrir verkefnatímana í skólanum er nauðsynlegur til þess að vinnan í skólanum nýtist á virkan hátt.
Viltu vita meira um vendinámið? Við erum með stórskemmtileg og fræðandi myndbönd á youtube.
Hvenær þarf ég síðan að borga?
Námsgjöld fyrir nám á Háskólabrú Keilis fer eftir fjölda þeirra áfanga sem teknir eru í tengslum við námið. Upplýsingar um námsgjöld.
Nám á Háskólabrú er sett upp samkvæmt reglum Menntasjóðs námsmanna sem lánar sérstaklega fyrir námsgjöldum. Námið veitir einnig þeim sem uppfylla skilyrði sjóðsins rétt til framfærsluláns. Nánari upplýsingar má finna á Menntasjóðs námsmanna.
Ganga þarf frá greiðslu skólagjalda áður en önnin hefst.
Hvernig kemst ég til ykkar?
Strætó fer frá höfuðborgarsvæðinu og stoppar beint fyrir utan Keili svo það er mjög hentugt. Þú getur skoðað það nánar á heimasíðu Strætó
Fyrir nemendur Keilis sem nýta sér áætlunarferðir Strætó
Það eru örar og reglulegar samgöngur með strætó til og frá Ásbrú, en leið 55 keyrir milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar. Hér má nálgast tímatöflur Strætó fyrir leið 55.
Ef þú getur ekki beðið eftir því að byrja
Til að hita þig upp fyrir námið getur þú fylgt okkur á samfélagsmiðlunum og heimsótt heimasíðuna okkar. Við setjum reglulega inn fréttir af skólastarfinu þar sem þú getur fengið smá innsýn í hvernig daglegt líf er í Keili.
- Heimasíða Háskólabrúar Keilis. Heimasíða Keilis endar á .net en .is er golfklúbbur. Þeir eru ekki með nám :)
- Keilir er með yfir 7000 fylgjendur á Facebook. Ert þú einn af þeim?
- Instagramsíðan okkar. Þú getur líka notað myllumerkið #Keilir eða #Keilir2018.
- Ef þú nennir ekki að lesa meira erum við líka á Youtube.