- 9 stk.
- 08.06.2018
Háskólabrú Keilis brautskráði 87 nemendur úr þremur deildum skólans. Eftir útskriftina hafa yfir 150 nemendur Háskólabrúar lokið námi það sem af er ársins, en í ágúst bætist auk þess við útskritarhópur úr Verk- og raunvísindadeild skólans. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og þakkaði sérstaklega Gísla Hólmari Jóhannssyni fyrir framlag hans til kennslu á Háskólabrú, en Gísli hlaut á dögunum viðurkenningu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands sem framúrskrarandi kennari ársins 2018.
Dúx Háskólabrúar var Sigríður María Sigurðardóttir með 9,29 í meðaleinkunn. Fékk hún bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá fékk Halldór Sævar Grímsson menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þátttöku í félagsstörfum. Jón Bjarni Ísaksson flutti ræðu útskriftarnema.
Með útskriftinni hafa samtals 1.685 nemendur lokið Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Metfjöldi umsókna er í Háskólabrú Keilis fyrir haustönn 2018 og fjölgar þeim annað árið í röð. Nú geta nemendur valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu, auk þess sem boðið er upp á alþjóðlega Háskólabrú á ensku.