Fara í efni

Útskrift nemenda í Háskólabrú Keilis

Útskriftarhópur Háskólabrúar Keilis 10. júní 2016
Útskriftarhópur Háskólabrúar Keilis 10. júní 2016
Keilir útskrifaði 163 nemendur við hátíðlega athöfn á Ásbrú föstudaginn 10. júní. Við athöfnina brautskráðust nemendur úr Háskólabrú, Íþróttaakademíu og Flugakademíu, auk nemenda í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku á vegum Thompson Rivers University og Keilis. Með útskriftinni hafa 267 nemendur lokið námi frá skólum Keilis á árinu og stefnir í að þeir verði orðnir rúmlega 300 talsins í sumar, þar sem enn á eftir að brautskrá nemendur af verk- og raungreinadeild Háskólabrúar Keilis, auk nemenda í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis. Aldrei hafa jafn margir einstaklingar lokið námi í Keili á einu ári síðan skólinn hóf starfsemi sína árið 2007.
 
Háskólabrú Keilis útskrifaði í allt 60 nemendur úr þremur deildum, þar af sjö fjarnámsnemendur, úr þremur deildum: Félagsvísinda- og lagadeild, Hugvísindadeild, Viðskipta- og hagfræðideild. Samtals hafa 125 einstaklingar lokið námi í Háskólabrú það sem af er árinu. Enn mun bætast við þann hóp þar sem nemendur úr verk- og raungreinadeild Háskólabrúar ústkrifast í ágúst.
 
Soffía Waag Árnadóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp. Dúx var Erna Björt Árnadóttir með 9,5 í meðaleinkunn. Fékk hún bók frá Íslandsbanka og lesbretti frá Keili sem viðurkenningu fyrir námsárangur. Rósa Björk Ágústsdóttir nemandi á félagsvísinda- og lagadeild flutti ræðu útskriftarnema. Með útskriftinni hafa samtals 1.403 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis.