Fara í efni

Útskrift Háskólabrúar Keilis

Keilir brautskráði 89 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ, föstudaginn 17. janúar 2020. Við athöfnina voru brautskráðir 57 nemendur af Háskólabrú, 25 atvinnuflugmenn og sjö nemendur úr fótaaðgerðafræði. Var þetta í fyrsta sinn sem útskrift Keilis fer fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ, en fjölmennar útskriftir skólans voru búnar að sprengja utan af sér Andrews Theater á Ásbrú þar sem þær höfðu farið fram undanfarin ár.
 
Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp og stýrði athöfninni, auk þess sem Magnús Scheving flutti hátíðarræðu.
 
Samtals hafa nú 3.648 nemendur lokið námi við deildir skólans sem var stofnaður á Ásbrú í Reykjanesbæ í maí 2007. Í lok ársins 2019 voru yfir eitt þúsund nemendur skráðir í nám og námskeið á vegum Keilis og hafa aldrei fleiri aðilar lagt stund á nám við skólann en nú. 
 
Útskrift Háskólabrúar Keilis
 
Háskólabrú Keilis brautskráði samtals 56 nemendur úr öllum deildum. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar stýrði útskrift og afhenti viðurkennignarskjöl ásamt Margréti Hanna, verkefnastjóra. Dúx Háskólabrúar var Eva Lind Weywadt Oliversdóttir, með 9,56 í meðaleinkunn. Hún fékk gjafir frá Íslandsbanka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Valdimar Anton Eiríksson flutti ræðu útskriftarnema.
 
Með útskriftinni hafa samtals 1.911 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keili frá fyrstu útskrift skólans árið 2008 og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Aldrei jafn margir nemendur stundað frumgreinanám í Keili og á þessu námsári, en á annað hundrað umsóknir bárust í fjarnám Háskólabrúar sem hófst í byrjun janúar. Þeir bætast við fjölmennasta hóp nýnema í Háskólabrú sem hófu nám síðastliðið haust og stunda þar með núna hátt í þrjú hundruð nemendur frumgreinanám í Keili.
 
Myndir frá útskrift Keilis 17. janúar 2020 (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson)