Fara í efni

Útskrift fjarnámsnemenda Háskólabrúar Keilis

Útskriftarhópur Háskólabrúar Keilis - Janúar 2018
Útskriftarhópur Háskólabrúar Keilis - Janúar 2018

Háskólabrú Keilis brautskráði samtals 64 nemendur úr öllum deildum. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti viðurkennignarskjöl ásamt Skúla Frey Brynjólfssyni, náms- og starfsráðgjafa. Dúx Háskólabrúar var Ragnheiður Pálsdóttir með 9,38 í meðaleinkunn, og fékk hún bók frá Íslandsbanka ásamt spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá fékk Jón Fannar Smárason viðurkenningu frá HS orku fyrir góðan námsárangur af Verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar. Sigurjón Jóhannesson flutti ræðu útskriftarnema.

Með útskriftinni hafa samtals 1.598 nemendur lokið náminu frá árinu 2008 og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Aldrei hafa jafn margir nemendur stundað frumgreinanám í Keili og á þessu ári, en á annað hundrað umsóknir bárust í fjarnám Háskólabrúar sem hófst í byrjun janúar. Þeir bætast við fjölmennasta hóp nýnema í Háskólabrú sem hófu nám síðastliðið haust og stunda þar með núna hátt í þrjú hundruð nemendur frumgreinanám í Keili.