Þann 29. ágúst tóku 34 framúrskarandi námsmenn við styrkjum úr Afreks- og hvatningasjóði stúdenta Háskóla Íslands við athöfn í Hátíðasal skólans. Afreks- og hvatningarsjóðurinn hefur frá árinu 2008 veitt styrki til nýnema sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs eða aðfaranámi að háskólanámi og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig vel í námi.
Auglýst var eftir umsóknum um styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði í vor og voru nemendur Háskolabrúar hvattir til að sækja um.
Því var ánægjulegt að fá fréttir af tveimur nemendum Háskólabrúar Keilis sem hlutu styrk að þessu sinni en það eru þær María Hafdís Breiðfjörð og Ylfa Flosadóttir sem útskrifuðust vor 2023.
María Hafdís Breiðfjörð brautskráðist af Háskólabrú Keilis í vor með afar góðum árangri. Hana dreymir um að vinna sem félagsráðgjafi hjá Barnaverndarnefnd og nýta þar eigin reynslu og hún hefur því innritast í félagsráðgjöf.
Ylfa Flosadóttir lauk aðfaranám frá Háskólabrú Keilis í vor. Hún hefur m.a. látið til sín taka á vegum samtakanna Einstök börn og hefur mikinn áhuga á að vinna meðbörnum. Ylfa hefur því hafið nám í grunnskólakennslu en hún stefnir jafnframt á það að verða sérkennari að loknu námi.
Styrkupphæð hvers og eins nemur 375 þúsund krónum og eru styrkirnir veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands.
Við óskum Maríu Hafdísi og Ylfu innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.