Útskrift Keilis fór fram þann 31.maí síðastliðinn. Guðmundur I. Halldórsson útskrifaðist af verk – og raunvísindadeild og fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur með meðaleinkunn upp á 9,78. Þess má geta að Guðmundur fékk einkunnina 10 í öllum stærðfræðiáföngum sem hann lauk á Háskólabrú. Guðmundur telur þann árangur ekki vera vegna sérgáfu heldur vegna hans áhuga og vinnusemi. Sá áhugi hafi verið drifinn áfram af draumi um áframhaldandi nám á háskólastigi í tölvunarfræði.
Yngri systirin fyrirmyndin
Guðmundur stundaði nám í MH fyrstu árin í framhaldsskóla, byrjaði á náttúrufræðibraut en færði sig yfir á félagsvísindabraut. En hann var óviss með framtíðina og hvað hann vildi verða og flosnaði því upp úr náminu. Fljótlega fékk hann vinnu sem tæknimaður í sjónvarpi og hefur verið þar nánast síðan. Honum fannst því vera kominn tími til að skrá sig í nám. Draumurinn var að geta skráð sig í háskólanám í tölvunarfræði og fór að leita leiða til þess. Yngri systir hans útskrifaðist frá Háskólabrú fyrir nokkrum árum og mælti eindregið með náminu sem leiddi hann áfram í að senda inn umsókn í miðju fjölskyldufríi jólin 2022. Guðmundur lítur upp til yngri systur sinnar en eins og fram hefur komið lauk hún námi á Háskólabrú fyrir nokkrum árum og hvatti Guðmund áfram í að skrá sig nám og láta drauminn rætast. Systirin útskrifaðist sem kennari síðastliðinn febrúar og er Guðmundur afar stoltur af henni. Nú er hans tími kominn um að ljúka við draumanámið.
Námið stóðst væntingar, starfsfólkið hjálplegt og samnemendur toppurinn
Þegar Guðmundur er spurður hvort námið hafi staðist væntingar þá svarar hann því játandi og í raun gott betur en væntingarnar gerðu ráð fyrir. Fjarnámið sé sett þannig upp að aðgengi að fyrirlestrum, námsefni og kennurum sé einfalt. Hann hafi jafnframt fundið að starfsfólkið, hvort sem það voru kennarar, námsráðgjafar eða aðrir starfsmenn hafi viðmótið verið framúrskarandi og tilfinning hans var að allir væru að stefna að sama markmiði sem væri að nemandi fengi þjónustu við hæfi og gæðanám til að byggja ofan á. Þegar Guðmundur er spurður hvað stendur upp úr segir hann: ,,Ætli það sé ekki fólkið sem maður kynntist í gegnum námið. Var fátt sem að gladdi mann meira en að lenda í hópavinnu með skemmtilegu fólki, hitti meira að segja á konu sem ég hafði verið með í grunnskóla.“
Tölvunarfræði handan við hornið
Næstu skref hjá Guðmundi er háskólanám í tölvunarfræði í Háskóla Reykjavíkur
en hann hefur fengið umsókn sína samþykkta. Það eru því spennandi tímar fram undan og hlakkar hann til að takast á við komandi áskoranir í krefjandi tölvunarfræðinámi.
Að gefa sér tíma skilar árangri
Guðmundur vill koma á framfæri að þrátt fyrir að hafa fengið verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur að þá telur hann sig ekki vera neitt sérstakan. Árangurinn hafi aðallega náðst með metnaði og að gefa sér tímann í að læra fyrir hvern áfanga. Hann trúir því staðfastlega að hver sem er geti lært hvað sem er. ,,Ég held að það kristallist hvað mest í því að ég fékk 5 í stærðfræði á samræmdu prófunum á sínum tíma en er að útskrifast núna með 10 í meðaleinkunn í stærðfræði á Háskólabrú,“ segir Guðmundur. ,,Þannig að ef einhver er að lesa þetta og hefur talið sér trú um að geta ekki lært eitthvað tiltekið, vil ég endilega hvetja fólk til að segja frekar sjálfum sér að það geti lært hvað sem er. Trúin flytur fjöll eins og skáldið sagði,“ eru lokaorð Guðmundar.
Við óskum Guðmundi innilega til hamingju með árangurinn á Háskólabrú sem og velfarnaðar í komandi námi og verkefnum.
Nám á Háskólabrú er hægt að stunda í fjarnámi og staðnámi og hefst næst í ágúst. Kynntu þér málið á www.keilir.net eða hafðu samband á haskolabru@keilir.net