Fara í efni

„Það er fátt betra en að sjá nemendur uppskera“

Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs hélt hátíðlega athöfn í Hljómahöll í síðustu viku í tilefni útskriftar frá Háskólabrú og Heilsuakademíu Keilis. Háskólabrú útskrifaði 58 nemendur og Heilsuakademía útskrifaði 11 nemendur úr fótaaðgerðafræði. Frá upphafi hafa nú samtals 4.221 einstaklingur útskrifast úr námi frá skólum Keilis. Af sóttvarnarástæðum var athöfnin aðeins opin fyrir útskriftarnemendur sem allir þurftu að framvísa vottorði um neikvætt hraðpróf eða nýlega covid-19 sýkingu (eldri en 14 daga og yngri en 180 daga).

Í upphafi athafnar var tónlistaratriði flutt af gítarsveitinni C-sveit í stjórn Arnars Freys Valssonar frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Nanna Kristjana Traustadóttir framkvæmdastjóri Keilis flutti ræðu og leiddi athöfnina. ,,Það er alltaf mjög hátíðlegt að útskrifa nemendur úr sínu námi og er þetta ávallt mikil gleðistund. Allir eiga sína sögu og margir hverjir að vinna gríðarlega stóra sigra eftir að hafa sýnt mikla þrautseigju. Það er fátt betra en að sjá nemendur uppskera“ hafði Nanna Kristjana að segja eftir athöfnina.

Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti einnig ávarp og afhenti útskriftarskírteini og viðurkenningarskjöl ásamt Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar. Dúx Háskólabrúar var Sóley Kristín Harðardóttir með 9,75 í meðaleinkunn og fékk hún peningagjöf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Hafliði Breki Waldorf hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar.

Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.

Elvar Smári Sævarsson forstöðumaður Heilsuakademíunnar ávarpaði gesti og afhenti útskriftarskírteini og viðurkenningar ásamt Haddý Önnu Hafsteinsdóttur, verkefnastjóra Heilsuakademíunnar. Sandra Friðriksdóttir hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í fótaaðgerðafræði. Sandra var með meðaleinkunn upp á 9,65 sem er hæsta meðaleinkunn frá upphafi fótaaðgerðafræðináms hjá Keili og hlaut hún gjafir frá heildsölunum Áræði og EM heildverslun. Allir útskriftarnemendur úr fótaaðgerðafræði fengu rós frá félagi íslenskra fótaaðgerðafræðinga. Sigrún Áslaug Guðmundsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Heilsuakademíunnar.

Keilir bauð í fyrsta skipti upp á nám í fótaaðgerðafræði vorið 2017 og hafa síðan þá útskrifast samtals 40 fótaaðgerðafræðingar. Nám í fótaaðgerðafræði er viðurkennt starfsnám á þriðja hæfniþrepi samkvæmt reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Fótaðgerðafræðingur er lögverndað starfsheiti og veitir Embætti landlæknis útskrifuðum nemendum starfsleyfi. Fótaaðgerðafræðingar meta ástand fóta, greina og meðhöndla þau fótamein sem ekki krefjast sérhæfðari læknisfræðilegrar meðferðar. Námið býður upp á góða atvinnumöguleika um allt land og hafa útskrifaðir nemendur gjarnan hafið störf á fótaaðgerðastofum eða stofnað sínar eigin stofur.