Fara í efni

,,Það er aldrei of seint að mennta sig“

Margrét Andrea Larsdóttir er 35 ára þriggja barna móðir sem býr á Fáskrúðsfirði með fjölskyldu sinni. Margrét er slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar sem staðsett er á Reyðarfirði. Einnig er hún í slökkviliðinu og sjúkraflutningum á Fáskrúðsfirði í hlutastarfi samhliða vinnu sinni á Reyðarfirði. Hún hóf nám hjá Keili í janúar 2022 og útskrifaðist núna í janúar 2023 ári síðar en ákvörðunin að fara í nám var ekki svo einföld að hennar sögn.

Ákvörðun

Margrét hafði upplifað mikla eftirsjá frá því að hún flosnaði upp úr menntaskóla sem unglingur og óskaði þess að hún hefði nýtt tímann sinn betur. Eftir sem árin liðu langaði henni sífellt meira að klára nám á framhaldsskólastigi en reglulega komu upp aðstæður sem komu í veg fyrir að hún tók skrefið. „Auðvitað týndi maður til allar þær afsakanir sem til eru til þess eins að sannfæra sjálfan sig um að þetta væri ógerlegt“ segir Margrét um þetta tímabil. Hún hafði sótt um hjá Háskólabrú fyrir nokkrum árum, en lét ekki til leiðast á þeim tíma.

Eftir að fjölskyldan stækkaði og börn hennar fóru að nálgast unglingsaldurinn fannst henni kaldhæðnislegt að predika um mikilvægi menntunar þegar hún var sjálf ekki búin að mennta sig. Margrét telur þó að eftir að hún lauk menntun sem neyðarflutningamaður fékk hún sjálfstraustið sem hún þurfti til að taka ákvörðun um frekara nám. Það var krefjandi en hún náði að púsla saman fjölskyldu, vinnu og námi.

Margrét hafði heyrt um skipulagið og uppbyggingu fjarnámsins hjá Háskólabrú Keilis og fannst henni þess vegna námið henta sér. Þar sem hún vildi ljúka þessu sem fyrst heillaði það hana að námið myndi aðeins taka eitt ár í fullu fjarnámi.

Námið

Margrét segir námið hafa verið mjög krefjandi og stundum var erfitt að finna hið fullkomna jafnvægi milli vinnu, skóla og fjölskyldulífsins. Hún segist eiga gott bakland, þar sem móðir og maki hennar sýndu þessu skilning og hjálpuðu með börnin á meðan náminu stóð. „Maður verður að líta á þetta sem tímabil sem gengur yfir og að mennta sig er eitthvað sem er alltaf þess virði ef horft er til framtíðar“, segir hún. Námið gekk mjög vel og kom hún sjálfri sér á óvart með árangurinn. „Það kom mér sjálfri ótrúlega á óvart en virtist ekki koma neinum á óvart í kringum mig, þau virtust hafa miklu meiri trú á mér en ég nokkurn tímann gerði sjálf“, segir Margrét.

Eftir námslok horfði Margrét yfir farin veg og segir Háskólabrú Keilis vera frábæran skóla. Hún minnist sérstaklega á stuðning starfsfólks og kennara skólans, og taldi þau leggja mikinn metnað í að miðla námsefninu til nemenda sinna á skilvirkan hátt. Eftir að áfall kom upp vegna veikinda í fjölskyldu Margrétar segist hún hafa verið á barmi þess að gefast upp. „Ég hafði samband við starfsfólk skólans sem veitti mér þann stuðning sem þurfti til að halda áfram. Þú finnur fyrir samkennd og umhyggju og þau vilja í alvöru að þér gangi vel“, segir Margrét um upplifun sína af skólagöngunni.

Næstu skref

Margrét segir að núna geti hún einblínt á fjölskylduna og ætli að taka hlé frá frekara námi og telur mikilvægt á þessum tímapunti í hennar lífi að rækta líkama og sál. „En mér líður eins og ég geti allt sem ég ætla mér“ segir Margrét bjartsýn og bætir við; ,,Það er aldrei of seint að mennta sig og vera með stóra drauma“. Þá segir hún að ekkert sé sjálfgefið í þessum heimi og til þess að uppskera verður maður að leggja á sig vinnuna.

„Ég mæli klárlega með þessu námi. Kennararnir hafa áhuga á því sem þeir eru að kenna og skín það í gegn sem ég tel skipta gríðarlegu máli. Uppbygging hvers áfanga gerir manni kleift að skipuleggja sig vel. Þú færð að vita hvenær öll verkefnaskil og próf eru strax í byrjun áfanga og þá er hægt að vinna vel út frá því. Kennarar og annað starfsfólk er alltaf tilbúið að aðstoða við hið minnsta sem kemur uppá“ segir Margrét um sína reynslu af náminu á Háskólabrú.

Margrét vill þá koma eftirfarandi skilaboðum áleiðis til allra þeirra sem eru að íhuga að taka skrefið og skella sér í nám; ,,Ef ég gat þetta þá getur þú þetta líka“!

Háskólabrú Keilis þakkar Margréti fyrir hlýleg orð og óskar henni velfarnaðar í framtíðar verkefnum.