Halldóra Ingibjörg Jensdóttir er 48 ára fjögurra barna móðir sem er búsett í Reykjanesbæ ásamt eiginmanni sínum, börnum og tveimur hundum. Hún byrjaði ung að eignast börn og alltaf verið í fullu starfi með stóru heimili og ekki gafst tími til að mennta sig fyrr en á fullorðinsárum. Hún sér þó ekki eftir neinu því hún öðlaðist góða reynslu af vinnumakaði og í lífinu almennt sem hún er þakklát fyrir.
Í heimsfaraldrinum var Halldóra ekki í föstu starfi og var það vinkona hennar sem hvatti hana áfram til að skoða nám í Menntastoðum hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum en það er námsleið sem er undanfari Háskólabrúar ef fólk hefur ekki lokið við nægar einingar á framhaldsskólastigi til að hefja nám á Háskólabrú. Þegar Halldóra hafði lokið námi í Menntstoðum gat hún ekki hugsað sér að hætta í námi. Í gegnum tíðina hafði hún heyrt margt gott af Keili og var ekki lengi að hugsa sig um næsta skref eftir Menntastoðir og skráði sig í nám á viðskipta- og hagfræðideild Háskólabrúar í janúar 2022, byrjaði í fullu fjarnámi en breytti því í fjarnám með vinnu þegar hún fór aftur á vinnumarkaðinn.
Ástæðan fyrir því að Halldóra valdi Háskólabrú var aðallega af afspurn en hún þekkti þónokkra sem höfðu stundað þar nám og báru skólanum vel söguna. Einnig fannst henni viðmót Skúla námsráðgjafa virkilega skemmtilegt þegar hann kynnti námið fyrir nemendum í Menntastoðum. Þá hafði hún líka fylgst með dóttur sinni og systur stunda námið á Háskólabrú og sá að þetta var eitthvað sem henni langaði sjálfri að stefna á. Þá er skemmtilegt að segja frá því að Halldóra útskrifaðist sama mánaðardag og dóttir hennar fyrir 5 árum síðan.
Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur
Halldóra segist ekki hafa getað ímyndað sér að hún ætti eftir að fá viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur en það hafi verið afar ánægjulegt og komið skemmtilega á óvart. Hún var bara með eitt markmið og það var að gera alltaf sitt besta og sætta sig ekki við neitt minna. Eftir á að hyggja þá var þessi þrotlausa vinna að skila sér og hún er afar stolt af sjálfri sér fyrir metnaðinn og að hafa náð þessum góða árangri.
Lykillinn að velgengni Halldóru í náminu segir hún vera margþættan. Fyrst og fremst var skipulagningin aðalatriðið og að fara eftir því. Þá fannst henni mjög mikilvægt að vinna sér alltaf í haginn, ekki geyma neitt fram á síðustu stundu og gefa sér góðan tíma í að klára verkefnin. Jafnframt fannst henni ótrúlega mikilvægt að hafa möguleika á að leita til kennaranna þrátt fyrir um fjarnám hafi verið að ræða, þar mætti hún ávallt jákvæðu viðmót og var hjálpsemin allsráðandi. ,,Svo er auðvitað mikilvægt að eiga góða að,“ segir Halldóra og minnist sérstaklega á þolinmæðina sem eiginmaðurinn og börnin sýndu henni á meðan á þessu stóð og bætir við: ,,Þeirra hjálp verður seint metin til fulls“.
Námsumhverfi til fyrirmyndar
Halldóra segir Háskólabrú Keilis vera frábæran skóla, kennararnir og starfsfólkið sé alltaf til staðar og gera nemendum auðvelt að leita til þeirra. Það að geta valið staðnám eða fjarnám gerir öllum kleift að stunda nám við skólann og einfaldar þeim sem eru í vinnu og með heimili að klára að mennta sig. ,,Lotubundna námið hentaði mér mjög vel og tel ég að námsfyrirkomulagið sem er í boði á Háskólabrú sé hluti af góðum námsárangri,“ segir Halldóra. Halldóra mælir því eindregið með Háskólabrú Keilis fyrir alla sem hafa áhuga á að mennta sig. ,,Námið er sett upp á þann hátt að nemendur geta unnið verkefnin á sínum hraða og auðvelt er að vinna þau fyrir fram,“ segir Halldóra og bætir við: ,,Þá er allt efni og fyrirlestrar aðgengilegir á hvaða tíma sem er sólarhringsins sem hentar nemendum í fjarnámi afar vel og einnig hægt að skoða eins oft og þarf.“
Næstu skref
Halldóra tók ákvörðun um að taka hlé frá námi í eitt ár eftir útskrift af Háskólabrú en stefnir á að halda áfram námi á næsta ári. Hún er með margar hugmyndir um hvað hana langar að læra en veit samt ekki enn hvað hana langar að verða þegar hún verður “stór”. Hún er staðráðin að halda áfram sinni menntavegferð því nú sér hún og veit að hún getur lært og finnst það gefandi og skemmtilegt. Viðskiptafræðin heillar hana mest svo það er líklegt næsta skref í námi.
Aldrei of seint að byrja
Halldóra segir að það sem stendur upp úr eftir námið er klárlega uppskeran að ljúka náminu og fá viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. ,,Ég er enn að átta mig á árangrinum og stundum líður mér eins og uppskeran sé hreinlega of góð til að vera sönn,“ segir Halldóra. En hún sannaði fyrir sjálfri sér og öðrum að hún gat þetta og sýndi að það er aldrei of seint að hefja nám.
Halldóra hvetur alla sem hafa verið lengi að hugsa um að hefja nám að gera það ekki seinna en strax. Þótt námið sé áskorun og þrautlaus vinna, þá sé það verulega skemmtilegt og auðgandi. Eftir hennar námsvegferð er hún sannfærð um að allir geti klárað nám á sínum forsendum. Ef fólk er í vafa með næstu skref þá getur það haft samband við námsráðgjafa því þeir séu alltaf boðnir og búnir til að ræða næstu skref og aðstoða af alhug.