Fara í efni

Fjölgun umsókna í fjarnám Háskólabrúar

Frá útskrift fjarnámsnemenda í janúar 2015
Frá útskrift fjarnámsnemenda í janúar 2015
Umsóknum í fjarnám Háskólabrúar Keilis hefur fjölgað milli ára og eru þær fjórðungi fleiri núna en á sama tíma í fyrra. Nú stunda rúmlega tvö hundruð einstaklingar aðfaranám að háskólanámi í Keili, þar af um helmingurinn í fjarnámi. Þá hófu um þrjátíu einstaklingar fjarnám í Háskólabrú með vinnu í lok nóvember, en það nám er kennt á tveimur árum og hentar vel þeim aðilum sem vilja taka lengri tíma eða vilja stunda námið með vinnu. 
 
Við næstu útskrift í janúar 2016 má reikna með að heildarfjöldi útskrifaðra nemanda úr Háskólabrú verði samtals hátt í 1.400. Keilir býður upp á aðfararnám í samstarfi við Háskóla Íslands og hafa langflestir nemendur haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Námið hefur á undanförnum árum markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur, ásamt því að miða kennsluhætti við þarfir fullorðinna nemenda.
 
Fjarnám Háskólabrúar Keilis hefst næst 4. janúar 2016 og er umsóknarfrestur til 14. desember næstkomandi. Að loknu námi uppfylla nemendur inntökuskilyrði í háskóla og telst námið sambærilegt stúdentsprófi samkvæmt samningi Keilis og Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðunni.