Fara í efni

Útskrift Háskólabrúar í júní 2022

Á föstudaginn 10. júní síðastliðinn útskrifuðust 177 nemendur úr skólum Keilis við hátíðlega athöfn sem haldin var í Hljómahöll í Reykjanesbæ. Hafa nú 4517 einstaklingar útskrifast úr námi við skóla miðstöðvarinnar.

Háskólabrú brautskráði samtals 76 nemendur, 63 nemendur af Háskólabrú í fjarnámi og 13 af Háskólabrú í staðnámi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti útskriftarskírteini og viðurkenningarskjöl ásamt Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar. Dúx Háskólabrúar var Birna Rós Gísladóttir með 9,73 í meðaleinkunn og fékk hún gjafabréf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá hlaut Kristjana Vilborg Þorvaldsdóttir Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan námsárangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þrautseigju. Ásgerður Ósk Hilmarsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar.

Fríða Dís Guðmundsdóttir og Soffía Björg Óðinsdóttir hófu athafnir með frábæru tónlistaratriði þar sem þær spiluðu á gítar og sungu fyrir viðstadda. Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp og leiddi báðar athafnir. Þá hélt Haddý Anna Hafsteinsdóttir verkefnastjóri Heilsuakademíu hvatningarræðu til útskriftarnemenda fyrir hönd starfsfólks Keilis.

Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu sem og viðbótarnám við stúdentspróf á verk- og raunvísindadeild. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.

11 nemendur útskrifuðust úr fagháskólanámi í leikskólafræðum. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar afhenti útskriftarskírteini og viðurkenningaskjöl ásamt Heiðrúnu Scheving, verkefnastjóra fagháskólanámsins. Dúx fagháskólanáms var Guðríður Sæmundsdóttir og fékk hún gjöf frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá hélt Linda Hlín Heiðarsdóttir ræðu fyrir hönd útskriftarnema úr fagháskólanámi.

Háskólabrú hefst næst haustið 2022. Miðað er við að nemendur séu orðnir 23 ára og hafi lokið 70 einingum (117 framhaldsskólaeiningum samkvæmt nýja einingakerfinu) á framhaldsskólastigi. Þar af þurfa umsækjendur að hafa lokið að minnsta kosti 6 einingum (10 feiningum) í hverju af grunnfögunum þremur, þ.e. í stærðfræði, íslensku og ensku. Umsækjendur eiga möguleika á að fá starfsreynslu sína metna til eininga að hluta upp í þær lágmarkseiningar sem krafist er.

Við hvetjum þau sem eru óviss um hvort þau uppfylli inntökukröfur að hafa samband og við förum yfir þetta saman.