Fara í efni

Tvöföldun umsókna í Háskólabrú milli ára

Daði Rúnar Jónsson fékk viðurkenningu sem fimmtánhundruðasti nemandi Háskólabrúar við útskrift skóla…
Daði Rúnar Jónsson fékk viðurkenningu sem fimmtánhundruðasti nemandi Háskólabrúar við útskrift skólans 9. júní 2017
Mikill áhugi fyrir frumgreinanámi og eru yfir tvöfalt fleiri umsóknir í Háskólabrú Keilis nú en á sama tíma í fyrra og er þetta mesti fjöldi umsókna sem hefur borist á sambærilegum tíma síðan árið 2009.
 
Vegna mikils áhuga og fyrirspurna um námið undanfarna daga hefur skólinn ákveðið að framlengja umsóknarfrest um nám á komandi haustönn og verður unnið úr þeim eins og þær berast fram að sumarleyfum starfsfólks Keilis í júlí. Námsráðgjafar Keilis og forstöðumaður Háskólabrúar vinna þessa dagana úr umsóknum og eru allir umsækjendur sem uppfylla skilyrði boðaðir í persónuleg inntökuviðtöl. Vegna fjölda umsókna biður skólinn umsækjendur um að sýna biðlund en haft verður samband við þá sem allra fyrst.
 
Á þeim tíu árum sem boðið hefur verið upp á aðfaranám til háskóla í Keili, hafa á bilinu 150 til 200 nemendur útskrifast árlega úr stað- og fjarnámi Háskólabrúar. Samtals hafa þannig yfir 1.500 einstaklingar lokið náminu og hefur mikill meirihluti þeirra - eða um 85% - haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis við góðan orðstír. 
 
Nýtt námsfyrirkomulag og lækkuð skólagjöld
 
Keilir hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla - frumgreinanám fyrir einstaklinga sem hafa ekki lokið stúdentsprófi - frá árinu 2007. Miklar framfarir hafa orðið á þessum tíma í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda, og hefur Keilir brugðist við með því að innleiða nýjungar í kennsluháttum og fjölbreyttari fyrirkomulag námsins. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Allt miðast þetta við að nemandinn geti tekið námið á sínum forsendum. 
 
Það er því ljóst að fólk er ánægt með nýtt fyrirkomulag og lægri skólagjöld, en Í haust er í fyrsta skipti hægt að hefja nám í Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi með og án vinnu. Við þessar breytingar á fyrirkomulagi námsins ákvað Keilir einnig að lækka skólagjöld í Háskólabrú um 40% frá og með skólaárinu 2017 - 2018.  
 
Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Kannanir í Háskóla Íslands á gengi nýnema hafa sýnt að nemendur sem koma úr Háskólabrú Keilis eru meðal þeirra efstu yfir þá sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám.