Frá og með hausti 2022 geta nemendur sem hafa lokið stúdentsprófi en vilja styrkja sig í raunvísindum stundað viðbótarnám hjá Háskólabrú Keilis í fjarnámi eða staðnámi. Þá getur námsleiðin einnig hentað nemendum sem hafa lokið aðfaranámi á Háskólabrú af félagsvísinda-, hugvísinda- eða viðskipta- og hagfræðideild.
Undanfarin ár hefur Keilir fundið fyrir aukinni eftirspurn og þörf á námsframboði í raunvísindum fyrir nemendur sem hafa lokið stúdentsprófi í félags- og hugvísindum en vilja breyta um stefnu og fara í háskólanám á raunvísindasviði. ,,Síðustu annir hafa komið til okkar nemendur á Háskólabrú en tekið aðeins valda áfanga af verk- og raunvísindadeild því þeir vilja styrkja sig enn frekar fyrir háskólanám. Því viljum við koma til móts við aukna eftirspurn og höfum sett upp sérstaka námsleið í takt við þarfir samfélagsins“, segir Berglind Kristjánsdóttir forstöðukona Háskólabrúar.
Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands fagnar tilkomu þessa viðbótarnáms. Með því að ljúka þessu námi uppfylla nemendur viðmið um nauðsynlegan lágmarkseiningafjölda í raungreinum sem gerð er krafa um til að hefja nám á sviðinu.
Námið er skipulagt í 6-9 vikna lotum þar sem kenndar eru námsgreinar í raunvísindum n.t.t. stærðfræði, efnafræði, eðlisfræði og líffræði sem eru kenndar á verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar. Námið er skipulagt til eins árs og ljúka nemendur viðbótarnámi við stúdentpróf sem miðar sérstaklega að undirbúningi fyrir kröfuhart háskólanám í raunvísindum. Nemendur taka jafnframt undirbúningsnámskeið í námstækni og fá kynningu á vendinámi, hópavinnuaðferðum og kennsluforritum.
Nánari upplýsingar um námið er að finna hér og er einnig hægt að hafa samband við starfsfólk Háskólabrúar á netfangið haskolabru@keilir.net
Umsóknarfrestur fyrir námsleiðina er 13.júní og námið hefst 11.ágúst.