Fara í efni

Nýnemadagur í Háskólabrú Keilis

Frá hópefli Háskólabrúarnemenda 15. ágúst 2019
Frá hópefli Háskólabrúarnemenda 15. ágúst 2019

Skólasetning og nýnemadagur Háskólabrúar Keilis fór fram í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ fimmtudaginn 15. ágúst, en samtals munu um 150 nemendur hefja námið á haustönn 2019.

Háskólabrú Keilis hefur á undanförnum árum markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur, ásamt því að miða kennsluhætti við þarfir fullorðinna nemenda. Að jafnaði leggja rúmlega tvö hundruð einstaklingar stund á aðfaranám að háskólanámi í Keili, þar af rúmlega helmingurinn í fjarnámi.

Fyrsti árgangur Háskólabrúar hóf nám í Keili árið 2007 en síðan þá hafa tæplega tvö þúsundur einstaklingar lokið náminu. Af þeim hafa langflestir haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis og gildir námið meðal annars til inngöngu í allar deildir Háskóla Íslands. 

Boðið er upp á að taka Háskólabrú á einu ári í fullu námi annaðhvort í fjarnámi eða staðnámi, eða á tveimur árum í fjarnámi, en það fyrirkomulag hentar vel þeim aðilum sem vilja taka lengri tíma eða vilja stunda námið með vinnu.