Fara í efni

Fjarnám í Háskólabrú Keilis

Umsóknarfrestur um fjarnám í Háskólabrú Keilis sem hefst í janúar 2014 er til 15. desember næstkomandi. Í janúar mun þúsundasti nemandinn útskrifast úr Háskólabrú Keilis. Lang flestir þeirra sem hafa útskrifast hafa haldið áfram í háskólanám. Margir hverjir hafa komið í Háskólabrú eftir langa fjarveru frá námi, meðal annars í gegnum símenntunarmiðstöðvarnar.

Háskólabrú Keilis er eini skólinn á Íslandi sem býður upp á aðfaranám í samstarfi við Háskóla Íslands. Námið tekur eitt ár og veitir útskrifuðum nemendum réttindi til að sækja um nám í öllum háskólum á Íslandi, auk fjölda erlendra háskóla.

Háskólabrú hefur undanfarin ár markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Við veitum nemendum okkar persónulega þjónustu og reynum að efla sjálfstraust þeirra og sjálfstæði. Bæði er hægt að stunda fjarnám og staðnám í Háskólabrú Keilis og byrjar fjarnámið í janúar og staðnámið í ágúst ár hvert.

Fjarnám Háskólabrúar er ekki svo fjarlægt. Staðlotur eru haldnar á Ásbrú á ca. fimm vikna fresti þar sem nemendur hitta kennara, samnemendur og hefja nýjan áfanga. Í fjarnámi Háskólabrúar eru áfangar kenndir í lotum, þannig taka nemendur einn áfanga í einu utan stærðfræði sem er kennd á hálfum hraða allan tímann.

Spegluð kennsla á Háskólabrú

Á Háskólabrú er lögð megin áhersla á svokallaða speglaða kennsluhætti (flipped classroom). Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu. Nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Kennslustundir í skólanum verða fyrir vikið öðruvísi, þar sem nemendur vinna verkefnin oftast saman í hóp og kennarar aðstoða eftir þörfum við úrlausnir. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt.

Tekið er við nemendum í fjarnám Háskólabrúar sem hefst í janúar 2014. Nánari upplýsingar hér.