Fara í efni

Mikilvægasta lexían að læra að vanmeta sig ekki

Kristinn Frans
Kristinn Frans

Kristinn Frans Stefánsson, 33 ára Keflvíkingur, útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn í sögu Háskólabrúar í janúar síðastliðnum. Áður hafði hann tekið tvær annir í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og lagt stund á forritunarnám við NTV en var farinn að huga að háskólanámi og fannst það halda aftur af sér að hafa aldrei lokið stúdentsprófi.

„Ég hef alltaf átt erfitt með að einbeita mér að námi svo að skólaganga mín fram að náminu í  Keili hefur verið mjög upp og niður. Forritunar námið gekk örlítið betur heldur en Fjölbraut þar sem ég hafi mikinn áhuga á tölvum og forritun.“ segir Kristinn. „Námsfyrirkomulagið var fullkomið fyrir mig, ég tók allt námið í fjarnámi og það að geta unnið þetta á mínum hraða, hvort sem það var hægar eða hraðar eftir áföngum, var algjör draumur. Lotu skipulagið hjálpaði mér líka mjög mikið, það munaði öllu að þurfa bara að einbeita sér að tveimur áföngum í einu.“

Kristinn segir það hafa gengið vel að samræma nám, starf og lífið almennt. Þar hafi heimsfaraldurinn spilað stórt hlutverk en það hafi verið auðvelt að vera bara heima að læra þegar öllum var ráðlagt að halda sig heima og hitta sem fæsta hvort eð er. Hann segir Háskólabrú bjóða einstakt tækifæri fyrir þau sem hafa slæma reynslu af hefðbundnu skólakerfi og bætir við að „það skiptir ekki máli hvar viðkomandi er staddur því kennararnir og ráðgjafarnir eru alltaf tilbúnir að hjálpa og námið er sett upp á mjög þægilegan hátt“.

Stærsta lexían úr náminu að sögn Kristins var að það sé aldrei of seint að byrja í skóla og að maður eigi aldrei að vanmeta sjálfan sig. Næst stefnir hann á háskólanám en er enn að melta með sér hvaða nám verði fyrir valinu. Að lokum segir Kristinn „ Ég vill hvetja fólk sem kláraði aldrei framhaldsskóla á sínum tíma eða vill prófa nýja hluti að kynna sér Keili. Námsráðgjafarnir eru ótrúlega hjálpsamir og það geta allir fundið eitthvað fyrir sig þarna.“

Metið slegið hvað eftir annað

Kristinn Frans útskrifaðist, eins og áður segir, með hæstu meðaleinkunn í sögu Háskólabrúar upp á 9,82. En metið lá áður í höndum Péturs Arnars Úlfarssonar sem útskrifaðist með meðaleinkunnina 9.74 aðeins fáeinum mánuðum á undan Kristni, í ágúst 2020. Útskrift af Háskólabrú verður næst haldin hátíðleg komandi föstudag, 11. júní í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ og forvitnilegt verður að sjá hvort met Kristins haldi eða sagan endurtaki sig og nýtt met hafi verið slegið í þeim útskriftarhóp.

Frekari upplýsingar um nám á Háskólabrú