Fara í efni

Útskrift af Háskólabrú Keilis

Háskólabrú Keilis útskrifaði 22 nemendur úr Verk- og raunvísindadeild skólans við hátíðlega athöfn í Andrews Theater á Ásbrú föstudaginn 14. ágúst. Með útskriftinni hafa 134 nemendur lokið námi í Háskólabrú Keilis á þessu ári, 72 úr fjarnámi og 62 úr staðnámi. Samtals hafa 1.278 nemendur útskrifast úr Háskólabrú frá upphafi og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. 

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis og Soffía Waag Árnadóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, fluttu ávarp. Dúx var Ásbjörn Hall Sigurpálsson með 9,16 í meðaleinkunn. Fékk hann spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Sigurpáll Hólmar Jóhannesson flutti ræðu útskriftarnema.
 
Í allt hafa 2.365 nemendur útskrifast frá Keili síðan skólinn hóf starfsemi árið 2007. Fjöldi umsókna hefur borist um nám fyrir haustið 2015 og er mikil aukning meðal nemenda í atvinnuflugmannsnám í Flugakademíu Keilis auk þess sem fjöldi umsókna hafa borist í leiðsögunám í ævintýraferðamennsku og einkaþjálfaranám Íþróttaakademíu Keilis. Sem fyrr eru flestir umsækjendur um nám í Háskólabrú Keilis, en að jafnaði stunda hátt í tvö hundruð einstaklingar staðnám og fjarnám í Háskólabrú á ári hverju.