Skólanámskrá Keilis

Skv. 22. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla er hverjum skóla skylt að gefa út skólanámskrá og uppfæra hana reglulega. Skólanámskrá Keilis er að finna á heimasíðu Keilis. Námskráin skiptist í tvo hluta: Almennan hluta sem hér fer á eftir um stefnu og starfshætti Keilis. Hinn hlutinn snýst um brautarskipulag og áfangalýsingar. Hann er birtur á heimasíðu Keilis undir námskeiðs- og brautarlýsingar í hverri deild fyrir sig. Uppfært í ágúst 2020.

Einnig er hægt að sjá  innihaldslýsingar á samþykktum brautum ásamt lykilhæfni á vef Menntamálastofnunar:

 • Foreldrafélag 2020-2021

  Hér má sjá  hverjir sitja í foreldrafélagi MÁ veturinn 2020 - 2021

   

 • Nemendafélag

  Í Aðalnámskrá framhaldsskóla er kveðið á um að í hverjum framhaldsskóla skuli starfa nemendafélag sem vinnur meðal annars að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það setur sér lög um starfssvið og starfshætti og starfar á ábyrgð skóla sem sér því fyrir starfsaðstöðu. Skólum er heimilt að styrkja félögin fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu reglum og bókhald skólanna. Nemendur kjósa fulltrúa í skólaráð og tilnefna fulltrúa á skólafund og áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.

   

 • Skóladagatal 2020 - 2021

 • Um námið

 • Um Keili

  Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, var stofnaður vorið 2007. Hlutverk Keilis er að byggja upp menntasamfélag í gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli og leiða saman fyrirtæki, skóla, þekkingu og fjármagn, hvoru tveggja til nýsköpunar og útrásar í íslenskum menntamálum. 

  Keilir er hlutafélag í eigu ýmissa stofnana og fyrirtækja. Helstu hluthafar Keilis eru Háskóli Íslands, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, HS orka, Orkuveita Reykjavíkur og Bláa lónið ásamt fjölda annarra minni hluthafa. 

  Keilir býður upp á nám á framhaldsskólastigi, háskólastigi og styttri námskeið

  Nám á framhaldsskólastigi er stúdentsbraut í tölvuleikjagerð, Háskólabrú sem er aðfaranám að háskóla, einkaþjálfun, styrktarþjálfun, flugnám og fótaaðgerðafræði. Stúdenstbrautin er kennd í staðnámi, Háskólabrú er kennd bæði í staðnámi og í fjarnámi með reglulegum staðlotum, ÍAK einka- og styrktarþjálfun er eingöngu kennd í fjarnámi með reglulegum staðlotum. Einnig hefur Íþróttaakademían nýlega farið af stað með námsbraut í einkaþjálfun á enskri tungu sem ber heitið Nordic Personal Trainer Certificate (NPTC). Um er að ræða nám sem er kennt alfarið í fjarnámi. ÍAK einkaþjálfunar námið hefur hlotið evrópska gæðavottun frá stofnunni Europe Active(EA) en slík vottun er mikils virði og ein besta viðurkenning sem einkaþjálfaranám getur hlotið í Evrópu. Á háskólastigi er kennd námsbraut ævintýraleiðsagnar á vegum Thompson River University. Í námskeiðsformi rekur Keilir námskeiðið Inntökupróf.is, sem er námskeið fyrir nemendur sem stefna á inntökupróf í læknisfræði eða sjúkraþjálfun. Einnig er Vinnuverndarskóli Íslands á vegum Keilis og þar eru kennd hin ýmsu námskeið tengd vinnuvernd.

  Aðaðl Kennsluhúsnæði Keilis er í 5.500 fermetra byggingu er áður hýsti menntaskóla Varnarliðsins. Er þar kappkostað að hafa aðbúnað sem bestan. Kennslustofur eru þannig ólíkar að stærð, gerð og búnaði. Félagsleg aðstaða og þjónusta öll á að vera til fyrirmyndar – bæði fyrir kennara og nemendur. Þá er flugakademía Keilis einnig með aðstöðu á flugverndarsvæði Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurflugvallar ásamt  kennslu- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. 

 • Kennsluhættir

  Keilir hefur á síðustu árum umbreytt kennsluháttum sínum frá hefðbundnum kennsluháttum yfir í vendinám (e. flipped learning). Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistaðar á netinu. Nemendur geta horft/hlustað á kynningarnar eins oft og þeir vilja og þurfa. Umræðusvæði nemenda og kennara eru aðgengileg á kennslusvæði hvers hóps þar sem allir í hópnum geta fylgst með umræðum og eða tekið þátt í þeim. Þá eru nemendur hvattir til að viða að sér þekkingu og upplýsinga á netinu.

  Kennslustundir eru tími til vinnu og samstarfs. Þar vinna nemendur verkefnin, oft saman í hóp, og kennarar aðstoða við úrlausnir eftir þörfum. Lærdómurinn verður lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Keilir er með sína reynslu og þekkingu í fararbroddi íslenskra menntastofnana á sviðið vendinám. Mikil áhersla er lögð á tölvunotkun og upplýsingatækni í skólanum og nota nemendur eigin fartölvur og hafa aðgang að þráðlausu neti skólans. Í öllum áföngum er notast við kennslukerfið Moodle.

 • Grunngildi

  Grunngildi Keilis eru samstarf, virðing, framsækni og þjónusta.

  • Samstarf
   Keilir nýtir þekkingu einstaklingsins. Við komumst að sameiginlegri niðurstöðu, við erum samheldin og komum fram við aðra af heilindum. Keilir hefur bjartsýni, gleði og jákvæðni að leiðarljósi í öllum samskiptum sínum innan sem utan fyrirtækisins.

  • Virðing
   Allt starf Keilis einkennist af gagnkvæmri virðingu, umhyggju, umburðarlyndi og jafnrétti. Hverjum og einum er mætt þar sem hann er staddur.

  • Framsækni
   Með framsæknum huga og athöfnum mótum við framtíðina og sækjum alltaf áfram. Keilir er framsækinn skóli sem er fljótur til nýjunga, leitar tækifæra og býður nemendum nýjar lausnir.

  • Þjónusta
   Keilir leggur alltaf upp með að veita góða og persónubundna þjónustu og hefur frá stofnun haft hátt þjónustustig að leiðarljósi.
 • Framtíðarsýn

  Keilir býður upp á fjölbreytt nám í hæsta gæðaflokki fyrir breiðan hóp nemenda og hefur skýr gæðaviðmið. Skólinn er í góðum tengslum við nærsamfélagið, aðliggjandi skólastig og atvinnulífið og sinnir með þeim hætti breytilegum þörfum margra. Eitt af gildum Keilis er framsækni og framtíðarsýn skólans er að sækja ávallt fram, fylgjast vel með nýjum kennsluháttum, tækninýjungum og bjóða upp á besta búnað sem völ er á hverju sinni með það að markmiði að skila vel menntuðu fólki út í atvinnulíf og framhaldsnám. Jafnframt skal lögð áhersla á skólaþróun og fagmennsku kennara.

 • Meginmarkmið

  Meginmarkmið Keilis eru:

  • Að veita ávallt framúrskarandi þjónustu
  • Að skila vel menntuðu fólki út í atvinnulífið og í framhaldsnám
  • Að styrkja menntun á Suðurnesjum
  • Að skapa eldri nemendum tækifæri til háskólanáms með aðfaranámi
  • Að byggja upp öfluga skóla og menntasamfélag á Ásbrú
 • Skipurit

 • Stjórn og stefna

  Í stjórn Keilis sitja sjö manns, tilnefndir af hluthöfum, og sjö til vara. Keili er skipt í nokkra deildir eða skóla. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra. Hann ræður forstöðumenn yfir einstökum deildum/skólum. Forstöðumenn skóla hafa umsjón með skipulagi, starfi og faglegu starfi innan hvers skóla, þ.m.t. mannaráðningum. Forstöðumenn eru yfir Háskólabrú, Flugakademíu, Íþróttaakademíu, Menntasviði, Þróunar- og markaðssviði sem og Rekstrarsviði en undir það fellur fjármálastjórn og skrifstofustjórn.

  Framkvæmdastjóri og forstöðumenn deilda sitja vikulega fundi framkvæmdastjórnar.

  Stjórn Keilis 2020 - 2021 er skipuð eftirfarandi einstaklingum:

  • Stjórnarformaður: Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæar
  • Varaformaður: Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs Háskóla Íslands
  • Sæunn Stefánsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu rektors Háskóla Íslands
  • Sigurbjörg Róbertsdóttir, fyrir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar
  • Jóhann S. Sigurbergsson, Forstöðumaður viðskiptaþróunar HS Orku
  • Einar Jón Pálsson, fulltrúi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum
  • Elín Smáradóttir, fyrir Orkuveitu Reykjavíkur

  Varamenn:

  • Guðbjörg Kristmundsdóttir
  • Sigrún Halldórsdóttir
  • Stefán Benjamín Ólafsson
  • Hjálmtýr Hafsteinsson
  • Eysteinn Eyjólfsson
  • Kolbrún Jóna Pétursdóttir
  • Brynhildur Davíðsdóttir

  Framkvæmdastjóri og forstöðumenn eru eftirfarandi

  • Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri
  • Anna María Sigurðardóttir, forstöðukona Menntasviðs
  • Arnbjörn Ólafsson, forstöðumaður Markað- og þróunarsviðs
  • Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu
  • Brynjólfur Ægir Sævarsson, forstöðumaður Rekstrarsviðs
  • Berglind Kristjánsdóttir, forstöðukona Háskólabrúar
  • Kári Kárason, forstöðumaður Flugakademíu 
  • Nanna Kristjana Traustadóttir forstöðukona/skólameistari Menntaskólans á Ásbrú
 • Starfsmannastefna

  Stefna Keilis er að:

  1. Vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem starfsfólki líður vel og því eru búin góð skilyrði til að sinna störfum sínum.
  2. Bjóða upp á ákveðinn sveigjanleika til þess að auðvelda starfsmönnum að samræma fjölskylduábyrgð og starf.
  3. Leggja áherslu á að starfsmenn eigi kost á fræðslu og endurmenntun sem eykur þekkingu þeirra í starfi.
  4. Leitast við að styðja starfsfólk sitt til að ástunda heilbrigðan lífsstíl.
  5. Leggja áherslu á góðan starfsanda á vinnustað og að starfsmenn sýni hvert öðru vinsemd, umburðalyndi og tillitssemi.
  6. Leggja áherslu á að öll boðskipti innan fyrirtækisins séu jákvæð, greið og góð.
  7. Vænta þess að starfsmenn vinni verk sín af fagmennsku, kostgæfni, heilindum og fylgi landslögum.
  8. Leggja áherslu á að taka vel á móti nýjum starfsmönnum með formlegum hætti.
  9. Veita starfsfólki vettvang fyrir samskipti á milli yfirmanna og starfsmanna.
 • Siðareglur

  Keilir er samfélag nemenda, kennara og annars starfsfólks. Í slíku samfélagi ber öllum skylda til að taka siðferðislega ábyrgð á störfum sínum. Hverjum og einum ber að sýna virðingu, heiðarleika, sanngirni og jafnrétti í hegðan sinni, námi og störfum. 

  Siðareglur Keilis eru:

  • Við stöndum vörð um heiður Keilis og aðhöfumst ekkert sem gæti rýrt álit samfélagsins á skólanum.
  • Við gætum þess að fara vel með fjármuni og aðrar eignir skólans.
  • Við sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum og komum fram við hvert annað af tillitssemi.  Hvort sem um er að ræða rafræn samskipti eða hefðbundin samskipti.
  • Við komum í veg fyrir að í Keili viðgangist hvers konar óréttlæti svo sem einelti, kynferðisleg áreitni eða mismunun byggð á óviðkomandi þáttum s.s. kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana.
  • Við vinnum saman af heilindum og látum ekki persónuleg tengsl eða hagsmuni hafa áhrif á samvinnu.
  • Við erum virkir þátttakendur í starfi og þróun skólans og lítum á það sem skyldu okkar að miðla upplýsingum sem geta orðið til þess að bæta starf skólans.
  • Við gætum að persónuvernd og virðum friðhelgi einkalífs.

  Framkvæmdastjóri Keilis skipar einn nemanda og tvo starfsmenn í siðanefnd og ber okkur öllum að vera vakandi fyrir því að halda siðareglur skólans. Ef við verðum vör við að reglurnar hafi verið brotnar látum við námsráðgjafa vita sem kallar saman siðanefnd.

 • Eineltisáætlun

  Fram kemur í siðareglum Keilis að nemendur og starfsfólk skuli koma fram hvert við annað af kurteisi og virðingu í öllum samskiptum. Einelti er ekki liðið við skólann. Ef upp kemur grunur um einelti innan skólans er tekið á þeim málum og þau sett í ákveðið ferli.

  • Markmið eineltisáætlunar

   • Að til sé ákveðið ferli sem allir geta gengið að ef grunur leikur á einelti í skólanum.
   • Að stuðla að jákvæðum samskiptum milli nemenda og starfsfólks.
  • Skilgreining á einelti

   Einelti er neikvætt og illgirnislegt atferli sem felur í sér endurtekið áreiti og/eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt. Eineltinu er stýrt af einstaklingi eða hópi, beinist að öðrum og stendur yfir í nokkurn tíma. Slík samskipti einkennast af ákveðnu ójafnvægi aflsmuna eða annars valds. Einelti getur birst á mismunandi hátt, m.a.:

   • sem stríðni,
   • sem hótanir,
   • sem útilokun,
   • í formi líkamlegs ofbeldis, 

   eða sem annað niðurlægjandi áreiti s.s.:

   • Niðurlæging eða auðmýking, t.d. vegna aldurs, kynferðis, kynhneigðar eða þjóðernis.
   • Niðurlægjandi eða lítilsvirðandi texti eða myndir í tölvupósti, sms eða öðrum samfélagsmiðli.
   • Fjandskap eða þögn þegar spurt er eða fitjað upp á samtali.
   • Óþægileg stríðni eða tilraun til fyndni á kostnað annarra.
   • Rógi eða meiðandi sögusögnum er komið af stað.
   • Útilokun frá félagslegum samskiptum.
   • Særandi athugasemdir. 

   Ekki er um tæmandi yfirlit að ræða!

  • Að þekkja einelti

   Sá einstaklingur sem verður fyrir einelti eða ofbeldi segir oft ekki frá því heldur skammast sín og kennir sjálfum sér jafnvel um. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis, en þau geta m.a verið þannig að einstaklingur:

   • Lýsir andúð á skólanum.
   • Hættir að sinna náminu, einkunnir lækka.
   • Missir sjálfstraustið.
   • Einangrast félagslega.
   • Virðist óhamingjusamur, niðurdreginn, þunglyndur eða í andlegu ójafnvægi.
   • Þjáist af svefntruflunum.
   • Hefur þreytutilfinningu eða sýnir sljóleika.
   • Neitar að segja frá hvað amar að.
   • Sýnir miklar skapsveiflur, verður árásargjarn og erfiður viðureignar.
   • Kvartar undan vanlíðan á morgnana. 

   Ef upp kemur einelti eða annað ofbeldi í skólanum ber að tilkynna það til siðanefndar skólans, sem vinnur að lausn málsins með viðbragðsáætlun til hliðsjónar. Í siðanefnd eru Skúli Freyr Brynjólfsson náms- og starfsráðgjafi og Fjóla Þórdís Jónsdóttir, verkefnastjóri á kennslusviði og fulltrúi nemenda í Keili.

  • Viðbragðsáætlun

   1. Siðanefnd kölluð saman.
   2. Málið er kannað, m.a. með viðtölum við þá aðila sem eiga hlut að máli.
   3. Siðanefnd kemur með tillögur að lausn málsins innan viku frá því að það kemst upp. Leggi nefndin til að viðurlögum verði beitt kemur það þeim skilaboðum áleiðis til deildarstjóra eða næsta yfirmanns ef deildarstjóri er viðriðinn málið.
   4. Kannað verður eftir mánuð hvort málið sé leyst og eineltinu hefur linnt. Ef svo er ekki ber teyminu að leita aðstoðar aðila utan skólans við lausn málsins.

 • Jafnréttisáætlun

  Við Keili skal ríkja jafnrétti og gagnkvæm virðing meðal starfsfólks og nemenda og skulu allir njóta sanngirni og jafnra tækifæra. Í jafnréttisáætlun þessari skal tryggt að starfsmönnun sé ekki mismunað vegna kyns, aldurs, þjóðernis, kynþáttar, fötlunar eða kynhneigðar og koma í veg fyrir mismunun eða áreiti á grundvelli þessa eða annarra óviðkomandi þátta. Áætlunin á að stuðla að því að allir innan Keilis séu virtir og metnir að verðleikum og á eigin forsendum og að hæfileikar og mannauður verði sem best nýttur. 

  Ábyrgð og framkvæmd

  Allir stjórnendur skólans eru ábyrgir fyrir framgangi jafnréttismála og framkvæmd og eftirfylgni jafnréttisáætlunar. Sérstök jafnréttisnefnd fylgist með framgangi jafnréttisáætlunar og skal í febrúar ár hvert taka út og birta skýrslu um stöðu jafnréttismála innan skólans og áætlaðar aðgerðir. Jafnréttisnefnd er kjörin af framkvæmdastjórn og skulu þar sitja þrír aðilar, tveir fulltrúar starfsfólks og einn fulltrúi nemenda. Nemandinn kemur að þeim þáttum er varða nemendur.

  Áætlun um aðgerðir til að framfylgja jafnréttisstefnu

  • 1. Launajafnrétti

   Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu og jafn verðmæt störf.

   Markmið

   Að konur og karlar fái sömu laun fyrir sambærileg störf. 

   Aðgerðir

   Launaviðtöl og greining á launum í kjölfarið með það að markmiði að greina hvort um kynbundinn launamun sé að ræða. Sé um kynbundinn launamun að ræða sem ekki verður skýrður með öðru en kynferði eða öðrum óviðkomandi þáttum, skal leiðrétta þann mun svo fljótt sem auðið er.

  • 2. Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun

   Hvetja skal konur jafnt sem karla til að sækja um laus störf og tryggt skal að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar.

   Markmið

   Að stuðla að jafnrétti við mannaráðningar og að öll starfsþjálfun, sí- og endurmenntun verði aðgengileg báðum kynjum.

   Aðgerðir

   Á hverju ári skal tekin saman og birt tölfræði yfir kynjasamsetningu starfsfólks. Ef um ójafnt hlutfall er að ræða skal taka tillit til þess við ráðningar. Skrá skal og safna með skipulegum hætti upplýsingum um endurmenntun starfsfólks með það að leiðarljósi að hvetja til jafnréttis og tryggja að mismunun eigi sér ekki stað.

  • 3. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

   Keilir leggur áherslu á að vera fjölskylduvænn vinnustaður. Í starfsmannastefnu Keilis segir að fyrirtækið leitist við að skapa jákvæða fjölskyldustefnu með því að hlúa vel að fjölskyldunni og skapa henni þroskavænleg skilyrði. Að jafnvægi ríki milli fjölskyldulífs og atvinnu og bæði kyn eru hvött til þess að axla fjölskylduábyrgð. 

   Markmið

   Að starfsfólk finni fyrir jafnvægi milli vinnu og einkalífs. 

   Aðgerðir

   Að bjóða tímabundið upp á sveigjanlegan vinnutíma eða aðra hagræðingu til að mæta þörfum starfsfólks. Þessu er framfylgt með því að upplýsa starfsfólk um fjölskylduvæna stefnu Keilis og skyldur þeirra gagnvart fyrirtækinu í því samhengi. Ennfremur skulu þættir er varða jafnvægi ræddir í árlegu starfsmannasamtali og spurt er um jafnvægi á milli vinnu og einkalífs í ánægjukönnun starfsfólks sem gæðaráð sendir út í október annað hvert ár. Jafnréttisnefnd fær upplýsingar um niðurstöður og setur þær í árlega skýrslu sem hún skilar og kemur jafnframt með tillögur að úrbótum ef þörf er á í skýrslu.

   Tengill að fjölskyldustefnu Keilis: http://www.keilir.net/is/keilir/um-keili/starsfmannastefna 

  • 4. Kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

   Starfsmenn og nemendur skulu koma fram hver við annan af virðingu og í samræmi við siðareglur Keilis. Hvers konar einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin við Keili.

   Markmið

   Að einelti og kynbundin og kynferðisleg áreitni nái ekki að skjóta rótum hjá nemendum og starfsfólki Keilis. 

   Aðgerðir

   Láta starfsmenn og nemendur vita að kynferðisleg áreitni og kynbundin áreitni sé ekki liðin í skólanum og láta jafnframt vita af eineltisáætlun í siðareglum. Starfsmenn verða látnir vita í árlegu starfsmannasamtali og nemendur í inntökuviðtali. Í árlegu starfsmannaviðtali skulu starfsmenn spurðir hvort þeir hafi orðið fyrir, eða orðið vitni að, einelti eða áreitni. Öllum kvörtunum og ábendingum frá starfsfólki og nemendum skal brugðist við samkvæmt áætlun. Í október annað hvert ár sendir gæðaráð út ánægjukönnun til starfsfólks og í mars ár hvert er send út könnun um líðan nemenda. Jafnréttisráð hefur aðgang að niðurstöðum og kemur með tillögur að úrbótum í skýrslu ef þörf er á.

   Tengill að eineltisáætlun Keilis: http://www.keilir.net/is/keilir/um-keili/sidareglur-keilis

  • 5. Nemendur

   Keilir leggur áherslu á að höfða til allra einstaklinga óháð kyni og að ekki séu til staðar kerfisbundnir þættir sem letja eða hindra einstaklinga af öðru hvoru kyninu í að sækja nám við ákveðnar brautir. Kynningarstarf miðast við það að laða að fólk af báðum kynjum. Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. 

   Markmið

   Að nám við Keili höfði til allra einstaklinga óháð kyni og að kynningarstarf beri þess merki. Tryggja að kennslu- og námsgögn mismuni ekki kynjum.

   Aðgerðir

   Unnið skal markvisst að því að kynna nám, sem hallar á annað kynið, með því að hafa auglýsingar ekki kynbundnar. Jafnréttisnefnd taki saman og skili skýrslu árlega um það hvernig kynjaskipting er í hverri deild og komi með tillögur að úrbótum og fylgir því eftir að þeim sé komið í framkvæmd. Hver deildarstjóri ber ábyrgð á því að kennslu- og námsgögn mismuni ekki kynjum með því að yfirfara allt efni áður en nám hefst að hausti. Í mars ár hvert er send út könnun um líðan nemenda og hefur jafnréttisráð aðgang að niðurstöðum og kemur með tillögur að úrbótum í skýrslu ef þörf er á.

 • Umhverfisstefna

  Keilir hefur umhverfismál á stefnuskrá sinni, með sjálfbæra þróun og vernd umhverfisins að leiðarljósi. Þannig mætir Keilir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða. Í skólanum starfar umhverfisnefnd og lögð er áhersla á að skólinn setji sér skýr markmið í umhverfismálum. Umhverfisstefnan og framkvæmd hennar er liður í daglegu starfi Keilis til að draga úr álagi á umhverfið, auka gæði og vekja áhuga á innra umhverfisstarfi. Stefnan tekur til allrar starfsemi Keilis þar með talið mötuneytis og ræstinga og á einnig við um innkaup, vinnuumhverfi, notkun auðlinda og meðferð efna og úrgangs. 

  • Keilir leggur áherslu á heilnæmt og snyrtilegt umhverfi skólans.
  • Keppa skal markvisst að því að starfsemi og rekstur skólans sé svo umhverfisvænn sem kostur er.
  • Sett skulu upp markmið sem vinna skal að til að ytra og innra umhverfi skólans sé ávallt til fyrirmyndar hvað umhverfismál og umhverfisfræðslu varðar.
  • Skólinn skal ávallt fylgjast með nýjungum á sviði umhverfismála og miðla þekkingu til nemenda og starfsfólks á markvissan hátt.
  • Umhverfisstefna skólans skal vera einföld og skýr og skal birt á vef skólans.

  Markmið

  • Að fylgja settum lögum og reglugerðum um umhverfisvernd og setja markmið til að ná þeim.
  • Að skapa Keili gott orðspor á sviði umhverfismála og vera fyrirmynd í þeim efnum.
  • Að bjóða upp á fræðslu um umhverfismál og útskrifa nemendur sem eru meðvitaðri um umhverfismál.
  • Að virkja nemendur og starfslið skólans til þátttöku í umhverfismálum.
  • Að taka fyrir ákveðin verkefni sem snerta umhverfismál á degi umhverfisins ár hvert.
  • Að taka fyrir ákveðna efnisþætti og gera nemendum og starfsfólki grein fyrir þeim.
  • Að taka þátt í sameiginlegum umhverfisverkefnum með öðrum skólum.
  • Að meta árangur í umhverfismálum í skólanum, að gera sýnilegt það sem vel er gert og leita leiða til úrbóta á því sem betur má fara.
  • Að vera í farabroddi í umhverfismálum og fylgjast með framförum Reykjanesbæjar í þeim málaflokki.

  Staðan í umhverfismálum Keilis

  • Við skólann vinnur áhugasamt fólk um umhverfismál.
  • Umhverfisnefnd Keilis,kölluð HULK, var stofnuð árið 2012 og hefur verið mjög virk.
  • Frá stofnun Keilis hefur Græna tunnan verið notuð af starfsfólki og nemendum.
  • Sorp er flokkað og sérmerktum ruslatunnum hefur verið komið fyrir víðs vegar um skólann.
  • Kassar fyrir skrifstofupappír eru við hvert skrifborð.
  • Ruslafötur hafa verið fjarlægðar frá skrifborðum.
  • Flöskum og dósum er komið í endurvinnslu.
  • Umhverfisstefna Keilis er byggð á tillögum um umhverfisstefnu í ríkisrekstri sem Umhverfisráðuneytið gaf út 1997 og samþykktar voru í ríkisstjórn sama ár.
  • Öll spilliefni eru flokkuð frá öðru sorpi, svo sem prentvökvi, rafhlöður, flúorperur, málning og leysiefni og þeim komið í spilliefnamóttöku.

  Helstu verkefni

  • Að hafa allan húsbúnað og búnað til vinnu og starfsaðstöðu í fullkomnu lagi svo öryggi og hreinlæti sé hvergi ábótavant.
  • Að fylgjast með orkunotkun, stilla ofnkrana og loftræsta svo orkunotkun til upphitunar verði sem hagkvæmust. Stuðla skal að sem hagkvæmastri lýsingu í húsnæði skólans utan sem innan.
  • Að gera umhverfisvæn innkaup eftir því sem mögulegt er hverju sinni. Taka skal tillit til kostnaðar og gæða vegna förgunar umbúða og mengunar við framleiðslu vörunnar eftir því sem við verður komið.
  • Að nýta umhverfisvæn hreingerningarefni eftir því sem hægt er.
  • Að flokka úrgang og stefna að því að aðeins 5-10% alls úrgangs fari sem almennt sorp til förgunar, öðru sé skilað sem hráefni til endurnýtingar og endurvinnslu.
  • Að stefna að söfnun lífræns úrgangs til moltugerðar um leið og nemendur í tæknifræði sjá sér fært að taka við honum og athugaðir verði möguleikar á metangerð á vegum skólans.
  • Að allur óskilafatnaður og skór fari til líknarfélaga svo sem Rauða krossins, Hjálpræðishersins og mæðrastyrksnefndar.
  • Drykkjarumbúðir, pappír, fernur, gler, málmar og timbur fari í endurvinnslu og lögð sé áhersla á að tyggigúmmí sé úrgangur sem eigi að fara í almennt sorp.
  • Að skýrar merkingar og leiðbeiningar um umferð og umgengni innan húss og utan séu sýnilegar, þar á meðal merkingar um að óæskilegt sé að láta bifreiðir ganga í lausagangi. Gönguleiðir séu greiðar og hjólastæði næg fyrir hjólandi vegfarendur.
 • Gæðastefna

  Gæðastefna Keilis er sett undir forystu framkvæmdastjóra Keilis. Hann ber ábyrgð á því að gæðastefnan sé í samræmi við markmið og starf Keilis.Framkvæmdastjóri skal sjá til þess að gæðastefnunni sé viðhaldið.

  Gæðastefna Keilis er birt á heimasíðu Keilis og er einnig aðgengileg á gæðavef Keilis.

  Hlutverk Keilis er að veita nemendum sínum og viðskiptavinum sem besta þjónustu. Lögð er áhersla á að skapa sem heilbrigðast umhverfi fyrir nemendur og starfsfólk þannig að allir geti sinnt hlutverki sínu innan fyrirtækisins – hvort heldur er í námi eða vinnu.

  Sérstakt gæðaráð skal leitast við að starfsemin taki sem mest mið af markmiðum Keilis. Í því skyni stuðlar gæðaráð að innra eftirliti, ytri úttektum sem og tillögum til úrbóta eftir því sem kostur er. Skal stöðugt leitað eftir samstarfi nemenda og starfsfólks í þessu skyni. Unnið er á grundvelli laga um framhaldsskóla 92/2008 með síðari breytingum sem og samningi Keilis við Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

  Gæðaráð er skipað einum aðila úr hverri deild ef þess er kostur og er valið af framkvæmdastjóra. Einnig er fulltrúi foreldra, kennara og nemenda kallaðir á gæðaráðsfundi þegar við á.  

  Samkvæmt gæðastefnu Keilis skal stöðugt leitast við að: 

  • Halda uppi skýru og reglulegu innra eftirliti með úttektum sem hluti af gæðakerfi Keilis. Leita jafnframt eftir ytra eftirliti sem þjóna megi markmiðum gæðastefnu þegar þess telst þörf. 
  • Safna sem gleggstum upplýsingum um árangur af skólastarfi, þ.m.t. árangur í námsmati, umsögnum um kennara og starfsfólk, árangur nemenda að námi loknu, líðan nemenda og starfsfólks í skólanum og annað það sem kann að þjóna gæðamarkmiðum.  
  • Endurskoða reglulega gæðamarkmið.  
  • Taka út reglulega styrkleika og veikleika í starfinu.  
  • Sjá til þess að öllum markmiðum, s.s. um fjölskyldustefnu, samfélagsábyrgð, umhverfisstefnu og fjárhagslegri ábyrgð sé fylgt. 
  • Tryggja að starf Keilis sé í samræmi við lög, reglugerðir og samninga er snerta starfið á einhvern hátt og sjá til þess að réttindi allra séu virt.  

  Gæðaráð Keilis heyrir undir framkvæmdastjórn Keilis og sinnir gæðamálum. Gæðaráð setur fram markmið um innri úttektir og sér til þess að þær séu framkvæmdar og niðurstöðum sé skilað til gæðaráðs, sem heldur til haga öllu sem við kemur gæðamálum hjá Keili. Um miðja hverja önn metur gæðaráð hvort markmiðum sé fylgt eftir og frávikum sé lokað. 

  • Gæðamarkmið 2020 - 2021

   Markmið með neðangreindri áætlun um innri úttektir er að ná fram stöðugum umbótum á starfsemi Keilis þ.e. að notast við gæðakerfi sem vinnur með stöðugar umbætur og tryggir faglegt skólastarf á sem flestum sviðum í starfsemi skólans. Markmið með hverri úttekt fyrir sig má sjá neðar. 

  • Innri úttektir

   Árlega framkvæmir skólinn innri úttektir með það að markmiði að sannreyna að unnið sé faglega, í samræmi við verklagsreglur og til að hafa yfirsýn yfir hinar ýmsu tölulegar upplýsingar svo hægt sé að bregðast við ef neikvæð þróun á sér stað. Niðurstöður eru hafðar til hliðsjónar í ársskýrslum. 

   Áætlun um innri úttektir fyrir árið 2020 til 2021

     Haust 2020 Vor 2021 Úttektaraðili
   Kennsla og kennsluhættir (matsfundir, kennslukannanir) x x Menntasvið
   Tölulegar upplýsingar (skráningarbrottfall, aldur, kyn og búseta nemenda, nemendafjöldi, fjöldi útskrifaðra og brottfall eftir að nemendur byrja í námi) x x Menntasvið/
   forstöðumenn
   Starfsmannasamtöl og vinnustaðakönnun starfsfólks   x Menntasvið/
   forstöðumenn
   Líðan nemenda og þjónusta skólans   x Menntasvið 
   Prófanir í tölvudeild x x Tölvudeild 
   Náms- og starfsgengi nemenda sem útskrifaðir eru   x Forstöðumenn
   Úttekt á stöðu eigna  x   Fjármálasvið 
   Ánægjukönnun foreldra ólögráða nemenda  
  • Megin verkefni gæðaráðs Keilis

   • Hefur umsjón með framkvæmd á innri úttektum og úrvinnslu á niðurstöðum. 
   • Setur gæðamarkmið Keilis í samráði við framkvæmdastjórn.  
   • Innra eftirlit með daglegum rekstri Keilis.  
   • Yfirfara stefnur Keilis, gera breytingatillögur ef þarf og leggja til nýjar stefnur eftir þörfum. 
   • Uppfærsla á gæðahandbók.
   • Leggja til tillögur til úrbóta við framkvæmdastjórn. Tryggja gæði náms. Litið er á gæðastjórnun skólans sem lið í daglegum rekstri hans. 
  • 1. Kennsla- og kennsluhættir

   Markmið með úttekt er að: 

   Viðhalda stefnu Keilis í nútímalegum kennsluaðferðum, með sérstaka áherslu á vendinám. Að tryggja að staðið sé að námsmati á sanngjarnan, fjölbreyttan og faglegan máta. Að nemendur séu sáttir við kennara sína og að staðið sé á allan hátt faglega að þeim námskeiðum/áföngum sem kenndir eru hverju sinni. 

   Framkvæmd:

   Kennsla og kennsluhættir eru metnar á tvenna vegu, annars vegar með kennslukönnun sem send er út á nemendur og svarað rafrænt. Hins vegar með matsfundum sem haldnir eru með úrtaki úr hverri deild, þar sem aðrir starfsmenn enn kennarar innan Keilis fara einn hring með nemendum þar sem þeir segja hvað deildin er að gera vel og annan hring þar sem nemendur segja frá hvað hægt er að bæta, í kjölfarið eru almennar umræður.  

   Menntasvið sendir nemendum kennslukannanir í lok hvers áfanga þar sem sérstök áhersla er á upplifun nemenda varðandi eftirfarandi þætti:

   • Unnið sé eftir stefnu Keilis í vendinámi samkvæmt skólanámskrá 
   • Kanna hvort viðmót kennara til nemenda sé gott 
   • Kanna hvort unnið sé faglega að námskeiðinu  
   • Kanna hvort námsmat í áfanganum sé fjölbreytt 

   Matsfundir eru óformlegt samtal í litlum hópi nemenda þar sem athugasemdir eru skráðar nafnlaust og tækifæri gefst til samtals meðal úrtakshópsins. Áhersla er lögð á frjálst flæði ábendinga en umræðan í kjölfarið styðst við mat á eftirfarandi þáttum: 

   • Hvort námið í heild hafi staðist væntingar.  
   • Hvort nemandinn telji sig hafa lært eitthvað nýtt.  
   • Hvort nemandanum finnist námsefnið skemmtilegt.  
   • Hversu auðvelt/erfitt nemandanum finnst námsefnið.  
   • Hvort áhugi nemandans hafi vaxið á náminu síðan það hófst.  
   • Hvort nemandinn sé ánægður með kennsluna í heild sinni.  
   • Hvort nemandinn fái aðstoð í náminu þegar á þarf að halda.  
   • Hvort nemandinn sé ánægður með aðstöðuna hjá Keili.  

   Forstöðumaður/yfirkennari fer yfir niðurstöður kennslukönnunar með kennara og ef úrbóta er þörf eru sett markmið um úrbætur. Viðmiðið er að hver þáttur í markmiði fari ekki undir 3,5 að meðaltali. Farið er yfir niðurstöðu matsfunda með viðkomandi forstöðumanni og úrbótaáætlun útbúin ef þess er þörf og reynt að bregðast strax við eins og hægt er. 

  • 2. Tölulegar upplýsingar

   Tölulegar upplýsingar (skráningarbrottfall, aldur, kyn og búseta nemenda, nemendafjöldi, fjöldi útskrifaðra og brottfall nemenda eftir að þeir byrja í námi). 

   Markmið með úttekt er að: 

   • Hafa yfirsýn yfir tölulegar upplýsingar til að geta gripið inn í þegar t.d. neikvæð þróun á sér stað og gripið til úrbóta ef þarf. 

   Framkvæmd: 

   Menntasvið tekur út lista af umsóknarvef í Innu og tekur saman, rýnir í gögn miðað við fyrri ár og skilar af sér skýrslu um þær breytingar sem hafa átt sér stað. 

   • Úrbótaáætlun unnin út frá niðurstöðum.  
   • Úttektir framkvæmd í febrúar og október. 
  • 3. Líðan nemenda og þjónusta skólans

   Markmið með úttekt er að: 

   • Efla faglega og persónulega þjónustu Keilis við nemendur. Koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda. Efla stoðþjónustu Keilis til að takast á við þarfir nemenda.  

   Framkvæmd: 

   Menntasvið sendir út könnun á alla nemendur skólans þar sem lagt er mat á: 

   • Ánægju og líðan nemenda Keilis 
   • Hlutfall nemenda Keilis sem er að glíma við andlega erfiðleika 
   • Hve stór hópur glímir við sértæka námsörðuleika  
   • Hvort nemendur eru almennt að nýta sér þjónustu skólans og hvernig þeim líkar hún. 

   Niðurstöður eru rýndar og m.a. skoðaðar breytingar á milli ára og skoðað út frá niðurstöðum kannana hvort auka þurfi þjónustu við nemendur. Viðbrögð og aðgerðir skráðar í úrbótaáætlun. 

   • Úttekt framkvæmd í febrúar.   
  • 4. Ánægjukönnun foreldra ólögráða nemenda

   Markmið með úttekt er að: 

   • Efla persónulega þjónustu Keilis við ólögráða nemendur við MÁ og aðstandendur þeirra. 
   • Koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda. 
   • Tryggja gæði kennslu. 
   • Efla jákvæðan og uppbyggilegan skólabrag við MÁ.   

   Framkvæmd: 

   Fenginn er utanaðkomandi verktaki til þess að hringja í foreldra allra ólögráða nemenda sem stunda nám við MÁ á haustönn. Verktakinn framkvæmir verkefnið samkvæmt fyrirmælum frá stjórnendum. Foreldri / forráðamanni nemandans er gefið tækifæri til þess að koma með frjálsar athugasemdir auk þess sem lagðar eru fram spurningar þar sem lagt er mat á út frá upplifun foreldris: 

   • Ánægju og líðan nemandans  
   • Hvort kröfur áfanga við MÁ séu hæfilegar fyrir nemandann  
   • Hvort nemandinn eigi jákvæð samskipti við samnemendur sína  
   • Hvort upplýsingaflæði til heimilisins sé fullnægjandi 

   Niðurstöður eru rýndar og m.a. skoðaðar breytingar á milli ára og skoðað út frá niðurstöðum kannana hvort auka þurfi þjónustu við nemendur. Viðbrögð og aðgerðir skráðar í úrbótaáætlun. 

   • Úttekt framkvæmd í desember. 
  • 5. Starfsmannasamtöl og ánægjukönnun starfsfólks

   Markmið með úttekt er að: 

   • Efla starfsmenn og hvetja til starfsþróunar, efla samskiptin, stuðla að aukinni starfsfánægju, bæta vinnuaðstæður og ræða framtíðaráform og setja sér markmið. 

   Framkvæmd starfsmannasamtala:

   Árlega boðar næsti yfirmaður til starfsmannasamtals við starfsfólk innan sinnar deildar þar sem m.a. er rætt: 

   • Líðan starfsmanns 
   • Verkefna- og ábyrgðasvið 
   • Starfsánægju 
   • Frammistöðu 
   • Stjórnun 
   • Samskipti o.fl. 

   Framkvæmd ánægjukönnunar starfsfólks: 

   Árlega sendir Menntasvið út ánægjukönnun á allt starfsfólk skólans  þar sem m.a. er lagt mat á: 

   • Ánægju með vinnuaðstöðu 
   • Starfsanda 
   • Upplýsingaflæði 
   • Stjórnun 
   • Vinnuálag 
   • Samskipti o.fl. 

   Helstu niðurstöður  úr starfsmannasamtölum teknar saman af forstöðumanni og þau mál sem þarfnast úrlausnar sett í ferli og sex mánuðum síðar er skoðað hvort því ferli sé lokið. 

   Niðurstöður úr ánægjukönnun starfsfólks eru rýndar og m.a. skoðaðar breytingar á milli ára. Viðbrögð og aðgerðir skráðar í úrbótaáætlun. 

   • Úttektir framkvæmdar í febrúar og apríl.
  • 6. Prófanir í tölvudeild

   Markmið með úttekt er að:

   • Sjá til þess að farið sé eftir reglum og tilmælum sem gilda um upplýsingaöryggi og meðferð tölvugagna í Keili. 

   Framkvæmd: 

   Tölvudeild gerir úttekt þrisvar á ári þar sem þar til gerðir gátlistar eru fylltir út og sendir til Menntasviðs. Ef unnið er eftir þessu ferli á að vera öruggt að unnið sé eftir upplýsingaöryggisstefnu Keilis. Ef frávik verða er strax gripið til aðgerða. 

   • Úttektir framkvæmdar í maí, júní, ágúst og október.
  • 7. Náms- og starfsgengi nemenda sem útskrifaðir eru

   Markmið með úttekt er að: 

   • Hafa yfirsýn yfir hvernig fyrrverandi nemendum Keilis vegnar í áframhaldandi námi og störfum  
   • Hafa yfirsýn yfir hvernig nemendur voru undirbúnir fyrir áframhaldandi nám og störf 
   • Hafa yfirsýn yfir hve margir halda áfram í námi eftir útskrift hjá Keili. 

   Framkvæmd:

   Forstöðumenn senda könnun á þá nemendur sem útskrifuðust árinu áður. Ef fáir nemendur eru í bekk er hringt í nemendur. Rýnt er í niðurstöður og þær notaðar m.a. til að bæta námið, í skýrslugerð og í áframhaldandi vinnu við mótun á námsleiðinni. 

   • Úttekt framkvæmd í mars.
  • 8. Úttekt á stöðu eigna

   Markmið með úttekt er að: 

   • Hafa yfirsýn yfir eigni félagsins 
   • Leiðrétta afskriftarlista 

   Framkvæmd: 

   Fjármálasvið prentar út eignalista úr bókhaldi og afskriftarlista. Talning fer fram til staðfestingar. Rýnt er í niðurstöður og tekin afstaða til frávika. 

   • Úttekt framkvæmd í nóvember.
 • Öryggisnefnd

  Öryggisnefnd Keilis leitast við að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi fyrir starfsfólk og nemendur og fylgir aðgerðaáætlunum vegna slysa og skyndilegra veikinda. Í öryggisnefnd sitja fjórir starfmenn sem framkvæma árlegar úttektir á öryggi skólans, þar af eru tveir öryggistrúnaðarmenn og tveir öryggisverðir.

 • Forvarnastefna

  Keilir vill stuðla að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri lífssýn nemenda sinna. Með þetta að markmiði er starfandi forvarnarteymi í skólanum sem er boðberi forvarna innan skólans og heldur utan um fræðslu í forvörnum.

 • Heilbrigði og velferð

  Keilir lítur svo á að ástundun heilbrigðs lífsstíls og lífshátta sé sjálfsagður og eðlilegur þáttur í starfseminni. Í kjarna námsbrauta skólanna eru áfangar þar sem nemendur vinna ítarlega með málefni sem tengjast heilbrigði og velferð á fjölbreyttan máta. Í matsölu skólans er í boðið upp á að kaupa heilnæmt fæði sem samræmist opinberum ráðleggingum Embætti landlæknis.

 • Heilsugæsla

  Eins og er býður Keilir ekki upp á þjónustu hjúkrunarfræðings, en námsráðgjafar skólans þekkja vel til heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og komi upp einhver vandamál er tengjast heilsu, svo sem átröskun, megrun, offitu, vímuefni, einelti, sjálfsvígshugsanir eða annað, er hægt að leita til námsráðgjafa sem koma nemendum í samband við viðeigandi fagaðila.

 • Áfallaáætlun

  Áætlun þessi er leiðarvísir fyrir starfsmenn Keilis þegar upp koma áföll eða aðrar viðlíka aðstæður sem þarf að bregðast við á skjótan og fumlausan hátt. Aðstæður og atvik sem leiða til þess að áfallaáætlun sé sett í gang geta t.d. verið:

  • Alvarleg veikindi
  • Slys
  • Dauðsfall
  • Ógnvekjandi aðstæður
  • Aðrar aðstæður sem leitt geta til ótta, streitu eða annarra slíkra viðbragða.

  Gildir einu hvort hér er um að ræða nemendur, starfsmenn eða aðstandendur.

  Mjög mikilvægt er að tryggja frá upphafi að allar upplýsingar séu réttar og þeim komið rétt til skila til þeirra sem við á. Með því skal fyrirbyggt að rangar og villandi upplýsingar komist í umferð sem geta magnað upp viðbrögð fólks. Á hverjum tíma skal vera starfandi áfallateymi sem þekkir þessa áætlun og er tilbúið að vinna samkvæmt henni þegar þörf er á.

  Í áfallateymi Keilis sitja:

  • Framkvæmdastjóri
  • Forstöðukona Menntasviðs
  • Námsráðgjafi
  • Þjónustufulltrúi

  Teymið kallar auk þess til deildarstjóra þeirrar deildar sem um er að ræða, svo og sérfræðinga s.s. sálfræðing, prest eða aðra eftir aðstæðum.

  Aðili sem fær upplýsingar um alvarleg veikindi, slys, eða dauðsfall skal koma þeim til einhvers meðlima áfallateymis sem kallar teymið strax saman.

  • Fyrstu viðbrögð teymisins

   1. Teymið hittist stuttlega, fer yfir fyrirliggjandi staðreyndir málsins og aflar sér strax áreiðanlegra viðbótarupplýsinga sé eitthvað óljóst.
   2. Teymið gerir áætlun um næstu skref og skiptir með sér verkum.
   3. Eftirtalin atriði þarf að hafa í huga þegar næstu skref eru ákveðin:

    Hverjir standa næst viðkomandi sem þarf að sinna sérstaklega?
    Hvernig verður samskiptum við aðstandendur háttað?
    Hvernig verður upplýsingagjöf innan starfsmannahópsins háttað?
    Hvernig verður upplýsingagjöf til nemenda háttað?
    Hvernig verður upplýsingagjöf háttað á opinberum vettvangi?
    Þarf að kalla til prest, sálfræðing eða aðra sérfræðinga?

   4. Teymið hittist aftur í lok dags, fer yfir það hvernig dagurinn hefur gengið og hvernig vinnsla málsins verður í framhaldinu.
  • Alvarleg veikindi eða slys í skólanum

   1. Sá starfsmaður sem fyrstur kemur að atviki veitir fyrstu hjálp, hringir í 112 og kallar eftir aðstoð innanhúss.
   2. Þegar fleiri starfsmenn eru komnir að atviki tekur einn starfsmaður að sér stjórn á vettvangi með afgerandi hætti.
   3. Meðlimir áfallateymis leita staðfestingar á því að hringt hafi verið í 112.
   4.  Haft er samband við aðstandendur viðkomandi einstaklings til að tilkynna um atburðinn.
   5. Skrá skal niður hvaða nemendur og starfsmenn urðu vitni að því sem gerðist til að tryggja að þeir fái viðeigandi aðstoð í kjölfarið, en ekki síður til að vita hverjir geta vitnað um atburðinn.
   6. Einn starfsmaður fylgir þeim veika/slasaða í sjúkrabíl og er með viðkomandi a.m.k. þangað til aðstandendur koma á staðinn.
   7. Starfsmönnum og nemendum er tilkynnt um atburðinn eins fljótt og nokkur kostur er.
   8. Frekari vinnsla er ákveðin í samráði við hinn veika og/eða aðstandendur hans.
  • Dauðsfall í skólanum

   1. Sá starfsmaður sem fyrstur kemur að atviki veitir fyrstu hjálp, hringir í 112 og kallar eftir aðstoð innanhúss.
   2. Þegar fleiri starfsmenn eru komnir að atviki tekur einn starfsmaður að sér stjórn á vettvangi með afgerandi hætti.
   3. Meðlimir áfallateymis leita staðfestingar á því að hringt hafi verið í 112.
   4. Samráð er haft við lögreglu um það hvernig tilkynningu til aðstandenda verður háttað.
   5. Kallað er eftir tafarlausri aðstoð prests, sálfræðings eða annarra sérfræðinga sem talin er þörf á.
   6. Skrá skal niður hvaða nemendur og starfsmenn urðu vitni að því sem gerðist til að tryggja að þeir fái viðeigandi aðstoð í kjölfarið, en ekki síður til að vita hverjir geta vitnað um atburðinn.
   7. Tryggja skal að enginn sem varð vitni að atvikinu fari úr húsi án þess að hafa fengið viðeigandi aðstoð og upplýsingar um það hvaða aðstoð muni bjóðast í framhaldinu. Huga skal sérstaklega að því í hvaða aðstæður viðkomandi fer þegar hann yfirgefur húsið, þ.e. hvort hann muni keyra einn eða vera einn næstu klukkustundirnar.
   8. Öðrum starfsmönnum og nemendum er tilkynnt um atburðinn eins fljótt og nokkur kostur er.
   9. Þegar allir aðilar hafa verið upplýstir er fáni dreginn í hálfa stöng.
   10. Áfallateymi sér til þess að aðstandendum sé send samúðarkveðja og blómvöndur. Jafnframt er boðin aðstoð skólans við útfararundirbúning og útför eftir því sem við á.
  • Dauðsfall starfsmanns eða nemanda utan skólans

   1. Fengin er staðfesting á andláti og upplýsinga leitað um aðdraganda þess.
   2. Fulltrúi áfallateymis hefur samband við aðstandendur varðandi framhaldsvinnslu málsins.
   3. Starfsmönnum, og eftir atvikum nemendum, er tilkynnt strax um andlátið.
   4. Kallað er eftir aðstoð prests, sálfræðings eða annarra sérfræðinga sem talin er þörf á.
   5. Þegar allir aðilar hafa verið upplýstir er fáni dreginn í hálfa stöng.
   6. Áfallateymi sér til þess að aðstandendum sé send samúðarkveðja og blómvöndur. Jafnframt er boðin aðstoð skólans við útfararundirbúning og útför eftir því sem við á.
  • Stuðningur eftir áfall

   1. Venjubundið skólastarf sefar óttann og kvíðann sem fylgir áföllum. Mikilvægt er að starfsmenn skólans séu eins eðlilegir og hlýlegir og þeim er unnt. Tillitssemi og virðing felst m.a. í því að staldra ekki of lengi við áföllin heldur halda áfram lífsgöngunni þó sorgin sé til staðar.
   2. Hlúð að nemendum. Nemendum gefinn kostur á að vinna með tilfinningar sínar. Boðið upp á einstaklingsviðtöl. Nauðsynlegt getur reynst að fá utanaðkomandi aðstoð til að álag verði ekki of mikið á starfsfólk skólans, t.d. sálfræðing, prest, áfallateymi við heilsugæslustöðvar o.s.frv.
   3. Hafi nemandi eða starfsmaður látist er hins látna minnst með sameiginlegri athöfn í umsjá prests. Ritari sér um að minningabók liggi frammi sem og mynd af viðkomandi. Húsvörður flaggar á jarðarfarardag.
   4. Votta samúð. Hafa samband við fjölskyldur sem hafa orðið fyrir missi og votta samúð. Minningargreinar, kransar og blóm frá bekknum/skólanum.
   5. Haldið áfram næstu vikur og mánuði að hlúa að nemendum og starfsfólki skólans. Gefa skal gaum að áfallastreitu meðal nemenda og starfsmanna skólans. Boðið verður upp á hópviðtöl eða einstaklingsviðtöl ef þörf er á undir stjórn til þess hæfra einstaklinga. Áfallaráð metur hvort þörf sé á viðtölum.

 • Viðbragðsáætlun

  • Viðbragðsáætlun starfsfólks vegna COVID-19

   Hér má líta viðbragðsáætlun Keilis og Menntaskólans á Ásbrú vegna COVID-19 smits eða gruns um smit starfsfólks. Skýringarmynd [JPG].
   Uppfært 24. ágúst 2020

   Ef veikindi starfsmanns kemur upp

   1. Almennt um veikindi: Mikilvægt er að starfsfólk haldi sig heima og mæti ekki til vinnu ef það byrjar að finna fyrir einkennum. Helstu einkenni COVID-19 minna á venjulega flensu: Hiti, hósti, bein- og vöðvaverkir, ásamt þreytu. Melgingareinkenni svo sem kviðverkir, ógleði, uppköst og niðurgangur eru ekki mjög áberandi, en eru þó þekkt.

    Ef fyrrnefnd einkenni koma upp hjá þér eða fjölskyldu þinni hvetjum við þig eindregið til að hafa samband við heilsugæslu, netsjpall Heilsuverndar eða vaktsíma 1700 með ofangreindar upplýsingar. 

   2. Starfsmaður veikist af COVID-19: Ef starfsmaður verður veikur, fer í sýnatöku og reynist smitaður af COVID-19, fer eftirfarandi ferli í gang.

   3. Almennt um rakningu: Smitrakningateymi hefur samband við þann sem hefur smitast og eftir atvikum við framkvæmdastjóra eða forstöðumann viðkomandi sviðs. Starfsmaður upplýsir um aðstæður í skólanum og samskipti sín við aðra á tilgreindu sóttvarnarsvæði/hólfi. Starfsmaður hefur samband við framkvæmdastjóra og upplýsir um stöðu mála.

   4. Tímabil sóttkvíar: Smitrakningarteymi gefur upp það tímabil sem miða á við og er þá gengið út frá reglunni: Innan 48 klst og innan 2 metra í meira en 15 mínútur með þeim smitaða. Sóttkví er 14 dagar frá því að viðkomandi var útsettur fyrir smiti. Miðað er við 24 klst. áður en fyrstu einkenna varð vart. Ef um engin einkenni er að ræða, er miðað við 48 klst. frá sýnatöku.

    Dæmi: A fær einkenni 2. ágúst en greinist með COVID-19 þann 4. ágúst. Viðkomandi hitti B þann 1. ágúst og þeir unnu saman. B fer þá í 14 daga sóttkví frá 1. ágúst.

   5. Úrvinnslusóttkví: Ef það koma upp vafamál um umgengni eða samneyti starfsfólks, er engin áhætta tekin heldur er svæði lokað tímabundið. Svokölluð úrvinnslusóttkví stendur yfirleitt þangað til búið er að rekja smit eða niðurstöður sýnatöku liggja fyrir.

   Einstaklingur fer í sóttkví ef hann:

   • Hefur umgengist fólk sem svo greinist með COVID-19.
   • Hefur verið á ferðalagi á skilgreindum áhættusvæðum.

   Nánari upplýsingar

  • Viðbragðsáætlun nemenda vegna COVID-19

   Hér má líta viðbragðsáætlun Keilis og Menntaskólans á Ásbrú vegna COVID-19 smits eða gruns um smit nemenda. Skýringarmynd [JPG].
   Uppfært 24. ágúst 2020

   Ef veikindi nemenda kemur upp

   1. Almennt um veikindi: Mikilvægt er að nemandi haldi sig heima og mæti ekki í skólann ef hann finnur fyrir einkennum. Helstu einkenni COVID-19 minna á venjulega flensu: Hiti, hósti, bein- og vöðvaverkir, ásamt þreytu. Melgingareinkenni svo sem kviðverkir, ógleði, uppköst og niðurgangur eru ekki mjög áberandi, en eru þó þekkt.

    Ef fyrrnefnd einkenni koma upp hjáhjá nemanda er hann hvattur eindregið til að hafa samband við heilsugæslu, netsjpall Heilsuverndar eða vaktsíma 1700 með ofangreindar upplýsingar. 

   2. Nemandi veikist af COVID-19: Ef nemandi verður veikur, fer í sýnatöku og reynist smitaður af COVID-19, fer eftirfarandi ferli í gang.

   3. Almennt um rakningu: Smitrakningateymi hefur samband við nemanda eða forráðarmann sem hefur smitast og eftir atvikum við framkvæmdastjóra eða forstöðumann viðkomandi sviðs. Nemandinn upplýsir um aðstæður í skólanum og samskipti sín við aðra á tilgreindu sóttvarnarsvæði/hólfi. Nemandi hefur samband við forstöðumann deildar eða skólastjóra og upplýsir um stöðu mála.

   4. Tímabil sóttkvíar: Smitrakningarteymi gefur upp það tímabil sem miða á við og er þá gengið út frá reglunni: Innan 48 klst og innan 2 metra í meira en 15 mínútur með þeim smitaða. Sóttkví er 14 dagar frá því að viðkomandi var útsettur fyrir smiti. Miðað er við 24 klst. áður en fyrstu einkenna varð vart. Ef um engin einkenni er að ræða, er miðað við 48 klst. frá sýnatöku.

    Dæmi: A fær einkenni 2. ágúst en greinist með COVID-19 þann 4. ágúst. Viðkomandi hitti B þann 1. ágúst og þeir unnu saman. B fer þá í 14 daga sóttkví frá 1. ágúst.

   5. Úrvinnslusóttkví: Ef það koma upp vafamál um umgengni eða samneyti nemenda við samnemendur eða starfsfólk, er engin áhætta tekin heldur er svæði lokað tímabundið. Svokölluð úrvinnslusóttkví stendur yfirleitt þangað til búið er að rekja smit eða niðurstöður sýnatöku liggja fyrir.

   Einstaklingur fer í sóttkví ef hann

   • Hefur umgengist fólk sem svo greinist með COVID-19.
   • Hefur verið á ferðalagi á skilgreindum áhættusvæðum.

   Nánari upplýsingar

  • Aðbúnaður

   • Byggingin er vöktuð með brunaviðvörunarkerfi sem er tengt við Öryggismiðstöð Íslands.
   • Brunasamstæður byggingarinnar eru þrjár og er hver samstæða með mörgum brunahólfum.
   • Út úr hverri samstæðu eru flóttaleiðir auk flóttaleiða og björgunaropa úr sumum brunahólfum.
   • Neyðarlýsing og útljós eru á öllum flóttaleiðum svo og brunaslöngur og handslökkvitæki.
   • Uppdráttur er sýnir útgönguleiðir og flóttaleiðir er í hverju kennslurými, anddyri og skrifstofuálmu.
  • Viðbrögð við eldsvoða - Hlutverk yfirmanna

   • Skólastjórnendur fari að stjórntöflu brunaviðvörunarkerfis og kanni hvaðan brunaboðið kemur. Ef ekki er slökkt á brunaboðanum innan tveggja mínútna eiga allir að yfirgefa bygginguna. Rýming er alltaf undirbúin um leið og heyrist í brunaboðanum.
   • Skólastjórnendur hafa samband við 112, tilkynna um eld eða gefur skýringar á brunaboðinu. Ef um falsboð er að ræða er slökkt á brunavælum sem gefur til kynna að hættuástand sé liðið hjá.
   • Skólastjórnendur gefa til kynna hvar best er að koma að skólabyggingunni.
  • Viðbrögð við eldsvoða - Hlutverk allra starfsmanna

   • Að virða brunaboðin og aðstoða við rýmingu.
   • Kennarar/starfsmenn undirbúa rýmingu kennslustofu/rýmis síns, nemendur yfirgefa ekki kennslustofuna/rýmið fyrr en kennari/starfsmaður hefur kannað hvort útgönguleiðin er greið. Hver kennari/starfsmaður er ábyrgur fyrir þeim bekk/hóp sem hann er að kenna þegar hættuástand skapast. Ætíð skal velja þann neyðarútgang sem næstur er samkvæmt leiðbeiningum eða sem er greiðastur.
  • Rýmingaráætlun

   Í skólanum eru nokkrir útgangar: Aðalinngangur á suðurhlið, starfsmannainngangur á suðurhlið, útgangur í enda B-gangs á norðurhlið, tveir útgangar úr sal fyrir enda A-gangs (annar í norðurátt og hinn í austurátt), tveir útgangar úr matsal (við hlið sviðsins í suðurátt og í gegnum eldhús í austurátt), útgangur við hlið matsals í austurátt, útgangur úr heimastofu MÁ (Alfa) í norðurátt, útgangur til norðurs úr setustofu í miðrými Keilis og útgangur til norðurs við sjálfsala við aðalinngang. Einnig er hægt að nota glugga í öllum kennslustofum sem neyðarútgang. Einnig er hægt að nota glugga í öllum kennslustofum sem neyðarútgang.

   Leiðbeiningar um flóttaleiðir hanga uppi í öllum rýmum skólans. Ef nauðsynlegt er að yfirgefa skólann vegna hættuástands hafið þá eftirfarandií huga:

   1. Kennarar/starfsmenn meta aðstæður í þeim rýmum sem þeir eru og taka ákvörðun um flóttaleið og ákveða hver fer fyrstur og hver síðastur til að hafa yfirsýn yfir hópinn þannig að enginn gleymist, hver kennari sér um að telja sinn hóp áður en farið er af stað og aftur eftir að komið er á söfnunarstað.
   2. Húsvörður og þeir starfsmenn sem ekki eru við kennslu þá stundina sjá um rýmingu í matsal, Betri stofunni, nemendaaðstöðu og snyrtingum.
   3. Notið helst aðalútganga ef mögulegt er.
   4. Skiljið allt skóladót eftir inni í kennslustofum eða þar sem það er ekki í gangvegi eða fyrir flóttaleiðum.
   5. Söfnunarstaður er á körfuboltavellinum við hlið skólans, þar fer kennari yfir hvort ekki hafi allir skilað sér sem lögðu af stað, ef einhvern vantar þarf að fá upplýsingar um hvar viðkomandi sást síðast og koma þeim upplýsingum til skólastjórnenda sem hafa yfirumsjón með aðgerðum.
   6. Hafi einhver slasast, orðið fyrir meiðslum eða andlegu áfalli skal þegar hlúð að viðkomandi. Komið upplýsingum þegar á framfæri við skólastjórnendur svo hægt sé að beita viðeigandi ráðstöfunum.
   7. Enginn hefur heimild til að fara aftur inn í skólann fyrr en ákvörðun hefur verið tekin af viðbragðsaðilum.
   8. Ef rýming fer fram vegna elds þá skal sá síðasti sem yfirgefur hvert rými loka hurð á eftir sér til að hindra flæði reyks og elds. Takið aldrei óþarfa áhættu.


   112 stillingar fyrir iPhone

   Hér má finna myndband með leiðbeiningum um hvernig hægt er að setja Neyðarlínuna sem tengilið á iPhone símum og stillingarnar séu þannig að viðkomandi fái alltaf SMS frá því númeri hvort sem síminn sé stilltur á hljóðstillingu eða flugstillingu.

  • Viðbrögð við jarðskjálfta

   • Mikilvægt er að halda ró sinni og skapa ekki óþarfa spennu.
   • Við jarðskjálfta getur verið hættulegt að hlaupa út úr skólanum í óðagoti.
   • Reyndu að leita skjóls og vera kyrr á öruggum stað innandyra t.d. úti í horni við burðarveggi fjarri gluggum, undir borði eða í dyragætt. Leitastu alltaf við að skýla höfðinu.
   • Bíddu eftir aðstoð eða boðum um að rýma skólann. Ef engin aðstoð berst verður kennari/starfsmaður að meta aðstæður. Ef kennari/starfsmaður metur að rýma þurfi húsnæðið skal það gert samkvæmt rýmingaráætlun (ekki hlaupa út í óðagoti).
   • Þegar skólinn er yfirgefinn skal safnast saman á körfuboltavellinum austan við skólann.
   • Leitist við að forða nemendum og starfsfólki á fumlausan og skipulegan hátt, ákveðið hver fer fyrstur og hver verður síðastur til að minnka líkurnar á að einhver slasist eða gleymist.
   • Takið ekki óþarfa áhættu, hugsið fyrst og fremst um ykkar eigið öryggi.
   • Hugsa skal að fyrstu hjálp fyrir þá sem þess þurfa.

   Varist:

   • Húsgögn sem geta hreyfst úr stað eða fallið.
   • Hluti sem geta fallið úr hillum eða skápum.
   • Ofna sem geta henst úr festingunum.
   • Rúður sem geta brotnað og glerbrot sem gætu verið á gólfum. 

   Nánari upplýsingar á heimasíðu Almannavarna

 • Skólareglur

  Keilir skiptist í fjóra mismunandi skóla með ólíkum reglum um skólasókn, fjarvistir og veikindi. Hægt er að nálgast skólasóknarreglu hvers skóla fyrir sig í nemendahandbókum á heimasíðu Keilis.

  ÍAK einkaþjálfun

  Háskólabrú Keilis

  Menntaskólinn á Ásbrú

 • Umsóknarferli og skólagjöld

  Upplýsingar um umsóknir og umsóknarferli á hverjum tíma fyrir sig má nálgast á heimasíðu Keilis undir umsóknir. Þar er jafnframt hægt að sjá hvaða námsbrautir eru í boði þá stundina. Inntökuskilyrði er misjafnt eftir námi og upplýsingar um inntökuskilyrði er hægt að sjá á heimasíðu Keilis undir upplýsingum um hvert námi fyrir sig.

 • Námsferill

  • Skráning og meðferð upplýsinga

   Skólinn skráir námsferla nemenda, námsárangur, viðveru og fleiri upplýsingar sem varða skólagöngu þeirra með rafrænum hætti í gagnagrunn (Innu) sem þjónustufulltrúar, kennarar, námsráðgjafar og skólastjórnendur hafa aðgang að.

   Starfsfólk skólans sem hefur aðgang að gögnum um nemendur er bundið trúnaði og er þeim óheimilt að veita persónuupplýsingar um nemanda án samþykkis þess sem í hluta á eða forráðamanna ef um er að ræða nemanda yngri en 18 ára.

   Keilir hefur sett sér persónuverndarstefnu sem unnið er eftir við skráningu og afhendingu allra gagna.

  • Aðgangur nemenda og forráðamanna þeirra að upplýsingum

   Allir nemendur skólans fá lykilorð að Innu sem veitir honum aðgang að öllum rafrænum upplýsingum sem skráðar eru um hann sjálfan. Sé nemandi yngri en 18 ára geta forráðamenn hans einnig fengið lykilorð sem veitir aðgang að sömu upplýsingum. Forráðamenn geta einnig fengið upplýsingar um námsframvindu nemandans með því að hafa samband við skólastjórnendur þangað til nemandinn verður 18 ára. Eftir það er einungis heimilt að veita honum sjálfum, eða þeim sem nemandinn veitir skriflegt umboð, upplýsingar um mál er varða hann persónulega.

 • Foreldraráð

  Í lögum um framhaldsskóla frá árinu 2008, 50. grein, segir að í framhaldsskólum skuli starfa foreldraráð. Er það í samræmi við að sjálfræðisaldur ungmenna er 18 ár og þangað til bera forráðamenn ábyrgð á börnum sínum.

  Foreldraráð er virkt hjá MÁ, en það er eina deildin innan Keilis sem er með nemendur undir lögaldri. Fjórir forráðamenn nemenda við skólann sitja í ráðinu ásamt tveimur varamönnum, og einum tengilið við stjórnendur skólans. Meginverkefni foreldraráðs eru að styðja við skólastarf, efla tengsl forráðamanna ólögráða nemenda við skólann og huga að hagsmunamálum nemenda. 

 • Þjónusta

  Upplýsingar um ýmiskonar þjónustu á vegum Keilis, svo sem skrifstofu, afgreiðslu, nemendaskírteini, tölvuþjónustu, húsnæðissvið, sem og náms- og starsfráðgjöf má nálgast hér.

 • Samstarf við aðra skóla, aðila á vinnumarkaði og nærsamfélag

  Keilir eru í góðu samstarfi við aðra skóla, vinnumarkaðinn og nærsamfélagið.

  ÍAK

  • ÍAK er í samstarfi við tvær líkamsræktarstöðvar; World Class og Sporthúsið. Nemendur í einka- og styrktarþjálfaranámi fá aðgang að öllum stöðvum fyrirtækjanna á námstíma (september til lok maí). Á móti fá tveir starfsmenn hvorra líkamsræktarstöðva að sækja nám hjá Heilsuskólanum án endurgjalds.
  • ÍAK hefur sótt fjölmarga fræðimenn fyrir námskeið, fyrirlestra og í kennslu hjá Bandarísku einka- og styrktarþjálfarasamtökunum National Strength and Conditioning Association (NSCA).  Fyrir liggur munnlegur samningur sem væntanlega verður fylgt eftir með árlegum ráðstefnum í nafni Keilis og NSCA.
  • Stefnt er á samstarf við eitt íþróttafélag eða fleiri til að gefa nemendum í ÍAK styrktarþjálfaranáminu tækifæri á að æfa tækni í lyftingum sem þörf er á að iðka yfir a.m.k. eina önn til að nemendur nái lágmarks hæfni.

   

  Fótaaðgerðafræði

  • Íþróttaakademían og Félag fótaaðgerðafræðinga hafa samþykkt að vinna saman að endurmenntunarnámskeiðum fyrir standandi fótaaðgerðafræðinga í gegn um námsbraut í fótaaðgerðafræði.

   

  Háskólabrú

  • Háskólabrú hefur verið í  nánu samstarfi við Háskóla Íslands með undirritun samstarfssamnings milli skólanna. Fagráð Háskólabrúar er skipað tveimur fulltrúum Háskólabrúar og þremur fulltrúum Háskóla Íslands.
  • Útskrifaðir nemendur af Háskólabrú hafa verið samþykktir hjá öllum háskólum hérlendis og er orðspor okkar nemenda mjög gott. Höfum heyrt af því að nemendur af Háskólabrú séu sérlega vel undirbúnir þegar þeir koma í háskóla.
  • Gott samstarf er á milli Háskólabrúar og símenntunarstöðva sem eru víðs vegar um landið. Sérstaklega er náið samstarf er við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS), Mími símenntun í Reykjavík, Háskólasamfélag Suðurlands (Selfoss) og Símey (símenntunarstöð Eyjafjarðar). Árið 2009 undirbjó Keilir námsleið í samstarfi við MSS er heitir Menntastoðir og er undirbúningur fyrir nám á Háskólabrú. Fleiri símenntunarstöðvar hafa tekið upp þessa námsleið og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur sett þessa námsleið inn í kennsluskrá sína. Frá árinu 2010 hefur HBR verið með nemendur í staðnámi í samstarfi við Símey. Því miður var ekki hægt að bjóða upp á það þetta árið líkt og árið áður. Alþjóðleg Háskólabrú fer vonandi af stað í haust en höfum við unnið með MSS að hugmyndum að menntastoðaleið sem væri undanfari þessarar námsleiðar.

  Fjarnemar á Háskólabrú hafa nýtt aðstöðu fræðslumiðstöðvanna víðs vegar um landið til að taka próf. Starfsfólk Háskólabrúar heimsækir reglulega aðila fræðslumiðstöðva og tekur sömuleiðis á móti þeirra starfsfólki. Einnig hafa nemendur Menntastoða símenntunarstöðvanna komið reglulega á kynningar hjá Háskólabrú.

  • Háskólabrú er í góðu samstarfi við endurhæfingarstöðvar eins og Hringsjá og Virk þar sem  skjólstæðingar þeirra hafa komið reglulega til okkar í námskynningar.
  • Háskólabrú tók þátt í alþjóðlegu Erasmus-verkefni um vendinám. Keilir stýrir því verkefni og taka margir kennarar á Háskólabrú þátt ásamt skólum og stofnunum frá 5 þjóðríkjum. Verkefnið kláraðist 2017 þar sem vendinám sem kennsluaðferð er skoðuð frá ýmsum sjónarhornum og afurð verkefnisins verður m.a. handbók um vendinám.
  • Starfsfólk Háskólabrúar hefur verið eftirsótt sem fyrirlesarar og til að halda námskeið um vendinám. Tveir kennarar á Háskólabrú eru nú þátttakendur í Erasmus verkefni þar sem þeir eru að miðla kennsluháttum okkar á Spáni og framundan er ferð til Grikklands í maí 2018.
  • Háskólabrú sendir öllum útskrifuðum nemendum eftirfylgnikönnun á annarri önn eftir útskrift. Þar er haldið til haga mikilvægum upplýsingum um hvert nemendur halda í háskólanám, hvað þeir eru að nema og hvernig þeim finnist þeir vera undirbúnir. Þessar kannanir hafa verið mikilvægur þáttur í gæðastarfi Háskólabrúar.

  • Við Menntaskólann á Ásbrú verður öflugt samstarf við aðra skóla og atvinnulífið í tengslum við áfanga í tölvuleikjagerð. Alþjóðlegt Erasmus+ samstarf við skóla í Hollandi, Svíþjóð og Danmörku hófst haustið 2018 og er starfrækt til ársins 2020. Stefnt er að áframhaldandi alþjóðlegum framhaldsverkefnum í kjölfarið.
  • SI, IGI og fyrirtæki í tölvuleikjagerð hafa verið í nánum samskiptum við MÁ frá upphafi og nú þegar er stefnt að samstarfsverkefnum sérfræðinga í tölvuleikjagerð í tengslum við sérhæfingu nemenda á stúdentsbrautinni í tölvuleikjagerð.

   

 • Starfsáætlun Menntaskólans á Ásbrú og Íþróttaakademíu 2020 - 2021

  Í lögum um framhaldsskóla nr. 80 frá 1996 gr. 3 er kveðið á um að árlegur starfstími nemenda í framhaldsskólum skuli eigi vera skemmri en níu mánuðir. Í reglugerð um starfstíma nemenda í framhaldsskólum frá janúar 2001 kemur fram að kennslu- og prófadagar séu eigi færri en 175, þar af eigi færri en 145 kennsludagar. Starfstíminn skiptist í tvær sem næst jafnlangar annir, haustönn og vorönn.

  Skólameistari ákveður að höfðu samráði við skólaráð og almennan kennarafund upphaf og lok skólastarfs ár hvert á bilinu 22. ágúst til 31. maí. Hann leggur fram skóladagatal næsta skólaárs í lok hvers skólaárs. Skóladagatalið er birt á heimasíðu skólans www.keilir.net

  Leyfisdagar nemenda eru: Jólaleyfi frá og með 21. desember til og með 3. janúar, páskaleyfi frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Aðrir leyfisdagar eru eingöngu þeir sem lögboðnir eru.

  • Um námið

  • Inntökuskilyrði

   Stúdentsbraut

   Almenn skilyrði til innritunar á stúdentsbrautir eru að nemandi hafi náð einkunninni A, B+ eða B í íslensku, ensku og stærðfræði við lok grunnskóla. Hafi nemandi fengið einkunn undir því viðmiði (C+) getur hann innritast á stúdentsbraut en tekur áfanga á fyrsta þrepi í viðkomandi greinum. Reikna má með að námstími til lokaprófs verði þá lengri en þrjú ár. 

   ÍAK einkaþjálfun

   Nemendur þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla.

   Að auki þurfa nemendur sem sækja um ÍAK einkaþjálfaranám að hafa lokið kjarna og  heilbrigðisgreinum áður en nám hefst í sérgreinum einkaþjálfunar. Hægt er að taka einstaka forkröfuáfanga í fjarnámi á Hlaðborði Keilis.

   Nemendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri áður en nám í sérgreinum hefst. Gerð er krafa um að umsækjendur hafi haldgóða reynslu af íþróttum og líkamsrækt og séu í nægilega góðu líkamlegu formi til að vera virkir í verklegri kennslu námsins.

   Fótaaðgerðafræði

   Nemendur þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla.

   Að auki þurfa nemendur sem sækja um nám í Fótaaðgerðaskóla Keilis að hafa lokið að mestu námi í almennum kjarna og almennum heilbrigðisgreinum áður en nám hefst í sérgreinum fótaaðgerðafræði.

   Nemendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri áður en nám í sérgreinum hefst í Fótaaðgerðaskóla Keilis.

  • Starfsfólk

   Yfirlit yfir starfsfólk Keilis má finna hér: www.keilir.net/is/starfsfolk

  • Námsbrautir

  • Nemendafélag

   Í Aðalnámskrá framhaldsskóla er kveðið á um að í hverjum framhaldsskóla skuli starfa nemendafélag sem vinnur meðal annars að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það setur sér lög um starfssvið og starfshætti og starfar á ábyrgð skóla sem sér því fyrir starfsaðstöðu. Skólum er heimilt að styrkja félögin fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu reglum og bókhald skólanna. Nemendur kjósa fulltrúa í skólaráð og tilnefna fulltrúa á skólafund og áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.

    

  • Foreldrafélag 2020-2021

   Hér má sjá  hverjir sitja í foreldrafélagi MÁ veturinn 2020 - 2021

    

  • Skóladagatal 2020 - 2021

  • Skólaráð Keilis 2019 - 2020

   • Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri
   • Anna María Sigurðardóttir, forstöðukona Menntasviðs
   • Sigrún Svafa Ólafsdóttir, fulltrúi kennara
   • Linda Pálmadóttir, fulltrúi kennara
   • Dagný Ásgeirsdóttir, fulltrúi nemenda
   • Karen Ásta Guðmundsdóttir, fulltrúi nemenda  
   • Charlotte Vest Pedersen, fulltrúi nemenda

   Við skólann skal starfa skólaráð, hlutverk þess er samkvæmt lögum um framhaldsskóla, nr. 92 12. júní 2008:

   7. gr. Skólaráð.
   Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað staðgengli hans og fulltrúum kennara og nemenda. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess og starfshætti.

   Í reglugerð um skólaráð við framhaldsskóla, 140/1997, um skipan og hlutverk skólaráðs segir:

   1. gr.
   Skólaráð starfa við framhaldsskóla. Kosið skal til skólaráðs við upphaf hvers skólaárs. Í ráðinu sitja tveir fulltrúar kennara, kjörnir á fyrsta almenna kennarafundi skólaársins. Nemendaráð kýs tvo fulltrúa í skólaráð. Aðstoðarskólameistari og áfangastjóri sitja í skólaráði. Starfi öldungadeild við framhaldsskóla skulu fulltrúar nemenda við þær sitja fundi skólaráðs þegar málefni þeirra eru á dagskrá. Skólameistari er oddviti skólaráðs og stýrir fundum þess.
   Beri engir starfsmenn framhaldsskóla starfsheitið aðstoðarskólameistari eða áfangastjóri taka þeir sem gegna sambærilegum störfum sæti í skólaráði.

   2. gr.
   Skólaráð er skólameistara til aðstoðar og ráðgjafar um stjórn skólans, fjallar um starfsáætlun skólans og framkvæmd hennar, fjallar um skólareglur, umgengnishætti í skólanum, vinnu- og félagsaðstöðu nemenda, veitir umsögn um erindi frá skólanefnd, almennum kennarafundi, nemendaráði, einstaklingum, skólameistara og menntamálaráðuneytinu sé þess óskað, fjallar um mál sem varða einstaka nemendur. Með slík mál skal farið sem trúnaðarmál.

  • Skólanefnd

   Ekki hefur verið skipuð skólanefnd í Keili hingað til. Gert er ráð fyrir að slíkt verði gert nú þegar Menntamálaráðuneyti hefur samþykkt námsbraut af stúdentsbraut.