Fara í efni

Húsreglur Keilisgarða

Keilisgarðar eru fjölbýli með íbúðum til leigu fyrir nemendur og skjólstæðinga Keilis. Að öllu öðru leyti eru leigusamningur og notkun húsnæðisins bundin Húsaleigulögum 1994 nr.36 sem felur í sér að réttindi og skyldur leigjenda, sem og þjónusta og skyldur leigusala, eru þær sömu og gildir á almennum leigumarkaði.

1. gr. Almenn umgengni
Íbúum Keilisgarða er skylt að ganga snyrtilega um íbúðir, sameign og lóð og gæta þess að raska ekki eðlilegum afnotum, starfsró eða svefnfriði annarra íbúa hússins eða valda þeim óþægindum eða ónæði. Eftir kl. 23:00 til kl. 07:00 má enga háreysti hafa sem raskað getur svefnfriði annarra íbúa; ekki er æskilegt að nota þvottavélar á þessum tíma. Séu veislur haldnar af einhverju tilefni er heimilt að færa upphaf þessa tímabils í samráði við aðra íbúa hússins. Reykingar og fíkniefnaneysla eru stranglega bönnuð í húsnæði Keilisgarða. Leigutaki skal bæta tjón á húsnæðinu eða fylgifé þess, sem verður af völdum hans sjálfs, meðleigjanda eða annarra manna sem hann hefur leyft afnot af húsnæðinu eða umgang um það.

2. gr. Umhirða sameignar og lóðar
Íbúum er skylt að ganga frá eftir sig á sameiginlegum svæðum hússins og sjá til þess að ekki sé dót í sameign sem truflar þrif. Þar er einnig átt við lóð þess. Séu þessar skyldur vanræktar hefur leigusali, samkv. leigusamningi, heimild til að láta framkvæma verkið á kostnað íbúa. Bílastæði við Keilisgarða eru fyrir íbúa hússins og gesti þeirra. Stranglega bannað er að leggja í ómerkt stæði fyrir framan inngang sem og sérmerkt stæði. Ekki er heimilt að aka eða leggja bílum á lóðum við húsin. Ganga skal snyrtilega um lóð og sameiginleg rými utandyra. Íbúum ber að ganga snyrtilega um stigaganga og ekki er heimilt að geyma þar hluti er tilheyra íbúum.

3. gr. Íbúar
Íbúðir á Keilisgörðum eru eingöngu til útleigu fyrir nemendur og skjólstæðinga Keilis og þá aðeins einstaklingum (A-íbúð) og pörum (B- og C-íbúðir). Ekki er mælt með að búið sé með börn á görðunum.

4. gr. Gestir
Gestir eru alfarið á ábyrgð viðkomandi íbúa og ber að fylgja að öllu leyti settum húsreglum. Íbúum er skylt að sjá til þess að heimilisfólk og gestir virði reglur um umgengni og ber ábyrgð á mögulegu tjóni sem gestir valda.

5. gr. Næði
Í öllu húsnæðinu skal vera næði frá kl. 23:00 – 07:00.

6. gr. Reykingar og fíkniefnaneysla
Reykingar og fíkniefnaneysla eru með öllu óheimil í húsnæði Keilisgarða, bæði í íbúðum og sameiginlegum rýmum.

7. gr. Dýrahald
Dýrahald er með öllu óheimilt í húsnæði Keilisgarða.

8. gr. Sameiginleg svæði
Öll sameiginleg svæði Keilisgarða, bæði innan- og utanhúss, eru á sameiginlega ábyrgð íbúa og ber þeim að sama skapi að ganga þar snyrtilega um. Til sameiginlegra svæða innanhúss teljast anddyri, stigagangar, gangar og þvottahús en utanhúss allar stéttir og grillaðstaða. Önnur rými í húsinu eru EKKI til afnota fyrir íbúa. Stanglega bannað er að skilja eftir húsgögn né aðra persónulega muni á framangreindum svæðum. Sé það gert og leigusali þarf að láta fjarlægja hluti, getur það haft í för með sér aukakostnað fyrir íbúa hússins. Ekki er heimilt að geyma vélhjól eða sambærileg tæki í sameign.

9. gr. Þvottahús
Þvottahús á Keilisgörðum eru sameiginleg svæði íbúa og ber leigutaka skylda til að ganga þar vel um og sjá til þess að aðrir heimilismenn geri slíkt hið sama. Fara skal í hvívetna með svæðin á þann hátt er samræmist góðum venjum um meðferð og fyrirhugaða notkun þeirra. Íbúum ber að koma sér saman um notkun þvottahúss og ganga vel frá eftir notkun. Í því felst að ganga frá öllum þvotti bæði úr þvottavél og þurrkara um leið og notkun lýkur og skilja á allan hátt vel við fyrir næsta notanda. Ath. Öll tæki í þvottahúsi eru alfarið á ábyrgð íbúa Keilisgarða og notkun háð samkomulagi þeirra á milli. Íbúum ber að virða óskir eigenda tækja um notkun og passa vel upp á umgengni og umhirðu tækja sem eru án hirðis, þ.e. hafa verið skilin eftir af fyrri íbúum. Ef tæki bilar er íbúum bent á hagkvæma þjónustu Maniolo heimilistækja að Njarðarbraut s. 762-7029.

10. gr. Sorp
Sorpgámar eru staðsettir við hvert hús og skal allt rusl vera flokkað samkvæmt viðmiðum sveitarfélagsins og sett í réttar tunnur (venjulegt sorp í gráa tunnu en pappír, plast og málmar í grænu tunnuna). Gámarnir eru ekki ætlaðir til losunar á öðru en heimilissorpi og bannað er að skilja húsgögn, raftæki eða slíka hluti eftir í sorpskýlum; íbúum er bent á Kölku við Berghólabraut fyrir slíkt.

11. gr. Viðhald og skemmdir
Í neyðartilvikum, þegar t.d. lekur vatn í íbúðum, rafmagn fer af byggingum eða hvað annað sem mögulega getur komið upp sem talið er að geti valdið skemmdum á mannvirki eða innbúi, skulu íbúar tafarlaust hafa samband við Neyðarþjónustu ÍAV í síma 617 8950. Neyðarþjónustan metur beiðnina og hvort bregðast þurfi strax við eða hvort verkið megi bíða. Um leið og leitað er til Neyðarþjónustunnar þarf íbúi jafnframt að senda tölvupóst á netfang Húsnæðissviðs, hus@keilir.net. Vegna viðhaldsverka sem þola bið og eru á ábyrgð leigusala skal senda tölvupóst á Húsnæðissvið. Ekki er tekið við slíkum beiðnum í gegnum síma. Önnur minni háttar viðvik sem eru ekki á ábyrgð leigusala skulu greidd af leigutaka, kjósi hann að leita til þjónustuaðila í stað þess að sjá um verkið sjálfur. Leigutaka er ekki heimilt að mála sjálfur.

Íbúum Keilisgarða er skylt að hlíta húsreglum og öðrum reglum sem settar eru af Húsnæðissviði Keilis. Slíkt er allra hagur og fyrirséð að ef reglur ert brotnar og umgengni ábótavant getur það haft í för með sér aukakostnað fyrir leigjendur. 

Uppfært 21. desember 2022