Fara í efni

Þétt setin útskriftarathöfn Keilis í Hljómahöll

Þétt setin útskriftarathöfn Keilis í Hljómahöll

Keilir - miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 165 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 9. júní. Athöfnin var vel heppnuð og húsið þétt setið, á fimmta hundrað manns sóttu útskriftina. Hafa nú 4762 einstaklingar útskrifast úr námi við skólann.

Í athöfninni voru útskrifaðir 76 nemendur af Háskólabrú, 11 úr fótaaðgerðafræði, 31 nemandi úr einkaþjálfun, 17 úr styrktarþjálfun, 14 úr atvinnuflugnámi og 16 af stúdentsbraut í tölvuleikjagerð.

Guðjón Steinn Skúlason og Alexander Grybos hófu athöfnina með tónlistaratriði fyrir viðstadda. Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, flutti í kjölfarið hátíðarávarp og stýrði útskriftinni sem fór fram í kjölfarið af öllum fjórum kennslusviðum Keilis.

Háskólabrú brautskráði samtals 76 nemendur úr staðnámi og fjarnámi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar hélt ávarp og afhenti skírteini og viðurkenningarskjöl ásamt Helgu Lind Sigurbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar. Dúx Háskólabrúar var Elfa Dögg Hrafnsdóttir Scheving með 9,82 í meðaleinkunn og fékk hún peningagjöf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan námsárangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þrautseigju hlaut Halldóra Ingibjörg Jensdóttir og fékk hún gjafabréf í bóksölu stúdenta og skráningargjald á skólagjöldum í HÍ sem viðurkenningu. Elmar Þór Þórisson hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar.

Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu sem og viðbótarnám við stúdentspróf á verk- og raunvísindadeild. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.

Menntaskólinn á Ásbrú brautskráði samtals 16 nemendur af stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður MÁ, hélt ávarp og afhenti skírteini ásamt Skúla Frey Bynjólfssyni, áfangastjóra MÁ. Dúx MÁ var Halldór Björnsson með meðaleinkunnina 9,19 og fékk hann peningagjöf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir félagsstörf, þrautseigju og framúrskarandi námsárangur hlaut Snævar Ingi Sveinsson og fékk hann gjafabréf í bóksölu stúdenta og skráningargjald á skólagjöldum í HÍ sem viðurkenningu. Darel Jens Edelsson flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema MÁ.

Þetta var fjórða útskrift Menntaskólans á Ásbrú frá upphafi, en MÁ hóf starfsemi haustið 2019 þegar fyrstu nemendur skólans hófu nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Stúdentsbrautin er skipulögð sem þriggja ára nám þaðan sem nemendur útskrifast með staðgóða þekkingu í ýmsu sem tengist tölvuleikjagerð og fleiri skapandi greinum. Námið byggir á hagnýtum verkefnum með sterkri tengingu við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. MÁ er í formlegu samstarfi við Icelandic Gaming Industry (IGI) vegna faglegra þátta í tölvuleikjagerð.

Heilsuakademían brautskráði 11 nemendur úr fótaaðgerðafræði, 31 nemanda úr einkaþjálfaranámi og 17 nemendur úr styrktarþjálfaranámi. Elvar Smári Sævarsson, forstöðumaður Heilsuakademíunar, flutti ávarp og afhenti skírteini og viðurkenningarskjöl ásamt Haddý Önnu Hafsteinsdóttur verkefnisstjóra. Dúx fótaaðgerðafræðinnar var Katrín Lilja Ólafsdóttir með 9,73 í meðaleinkunn og hlaut gjöf frá EM heildverslun sem viðurkenningu fyrir góðan árangur. Dúx í einkaþjálfarnáminu var Hildur Helga Logadóttir með 9,9 í meðaleinkunn og dúx í styrktarþjálfaranáminu var Hrafnhildur Guðnadóttir með 9,87 í meðaleinkunn, hlutu þær báðar gjöf frá Hreysti sem viðurkenningu fyrir góðan árangur. Valdís Hrönn Berg hélt ræðu fyrir hönd allra útskriftarnema í Heilsuakademíunni.

Nám í einkaþjálfun miðar að því að undirbúa nemendur fyrir störf við þjálfun almennings og mikil áhersla er lögð á heildræna nálgun sem næst með því að tengja bóklega og verklega hluta námsins vel saman. Námið er viðurkennt af Menntamálaráðuneytinu sem námsbraut á framhaldsskólastigi. ÍAK styrktarþjálfaranám er hagnýtt, hnitmiðað og sniðið til þess að mæta þörfum fólks sem hefur áhuga á að vinna með íþróttafólki. Nám í fótaaðgerðafræði miðar að því að þjálfa færni og hæfni nemanda til þess að standast kröfur heilbrigðis- og félagsþjónustunnar um fagleg vinnubrögð og nákvæmni og áreiðanleika í starfi. Námið býr nemandann undir störf við meðferð fótameina skjólstæðinga innan og utan stofnana. Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta.

Flugakademían brautskráði 14 nemendur í ATPL (atvinnuflugnámi). Óskar Pétur Sævarsson, forstöðumaður Flugakademíunnar, hélt ávarp og afhenti skírteini og viðurkenningarskjöl ásamt Kristjönu Henný Axelsdóttur verkefnisstjóra. Dúx atvinnuflugnámsins var Lára Mist Baldursdóttir með 9,25 í meðaleinkunn og hlaut hún fékk hún gjöf frá Icelandair í viðurkenningarskyni. Kristján Daði Ingþórsson hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema í Flugakademíunni.

Við Flugakademíu Íslands er boðið upp á metnaðarfullt flugnám sem tekur mið af samevrópskri námsskrá til útgáfu flugskírteina sem gefin er út af EASA - Flugöryggisstofnun Evrópu og er því kennt samkvæmt EASA Part-FCL stöðlum. Námið er samþykkt af Samgöngustofu og lítur eftirliti þeirra. Flugakademía Íslands býður upp á atvinnuflugnám, einkaflugnám, flugkennaranám ásamt fjölbreyttu úrvali námskeiða fyrir flugmenn.