Hér að neðan finnur þú samantekt af spurningum um flugnám við Flugakademíu Íslands, námið, kostnað og aðstöðuna. Smelltu á þá spurningu sem þú vilt fá svar við.
Hvenær er best að hefja flugnám?
Einfalda svarið er "þegar þú hefur viljann, þekkinguna og getuna til" - enda alltaf rétti tíminn til að láta drauminn rætast. Flugiðnaðurinn hefur það einkenni að hann gengur í bylgjum - vexti sem svo hægist á, staðnar og hnignar mögulega tímabundið áður en vöxtur hefst að nýju. Smekkurinn er mismunandi eftir einstaklingum og því kjósa sumir að hamra járnið meðan það er heitt og iðnaðurinn í vexti meðan aðrir kjósa að nýta færið meðan lítið er að gera - mennta sig og vera þannig til taks þegar allt fer á flug að nýju.
Er dýrt að læra flug?
Það er áætlað að kostnaður sé um 15 milljónir íslenskra króna að læra flug í dag til atvinnuflugmannsréttinda. Innifalið í því er bókleg og verkleg kennsla til einka- og atvinnuflugmannsréttinda, flugtímar og gögn. Taka verður í reikninginn að námið sjálft tekur einungis 2 ár og er að mestu leyti byggt á sérkennslu. Þannig eftir þessi tvö ár í námi er strax hægt að byrja að afla sér tekna.
Að sjálfsögðu verður hver og einn að meta hvaða leið hentar í átt að draumastarfinu en horfa verður til áhugasviðs, fjármögnunar, tíma í námi og frá vinnumarkaði og tekjumöguleika. Nám er dýrt en til lengri tíma litið mun, í flestum tilfellum, borga sig að stunda nám. Þennan kostnað munum við fá margfalt til baka í formi bættra launa og lífskjara að námi loknu.
Er vöntun á flugmönnum?
Samkvæmt skýrslu um horfur innan flugbransans næsta áratuginn, sem kanadíska flugþjálfunarfyrirtækið CAE gaf út í nóvember 2020, verður eftirspurn eftir 264 þúsund nýjum flugmönnum næsta áratuginn. Er það til þess að koma til móts við vaxandi eftirspurn eftir flugferðalögum og starfslokum þeirra sem fyrir eru innan stéttarinnar. CAE telur að fjöldi flugmanna starfi muni hækka í 374 þúsund fyrir lok árs 2021. Þá verði þörf á nýliðun um 27 þúsund flugmenn á sama tímabili þar sem margir hafi náð starfslokaaldri eða breytt um starfsvettvang.
Hvað er innifalið í atvinnuflugnámi?
Hin hefðbundna námsleið flugmannsins er hið svokallaða áfangaskipta nám (modular training). Náminu er því skipt upp í smærri áfanga og getur nemandi hagað námi sínu að sínum þörfum. Þess vegna er námstíminn yfirleitt frá 2-3 árum og fer eftir nemandanum að raða saman áföngum þannig að þeir falli sem best að hans þörfum og aðstæðum hverju sinni. Áfangarnir eru þá helst einkaflugnám, bóklegt atvinnuflugnám og verklegt atvinnuflugnám með viðeigandi áritunum. Að því loknu sækir nemandi sér áhafnasamstarfsáfanga.
Flugakademía Íslands býður upp á svokallað atvinnuflugnám (Integrated CPL ME/IR) og felast í náminu töluverðir kostir fram yfir áfangaskiptu námsleiðina. Nemendur í þessu námi geta hafið nám án nokkurs grunns í flugi og útskrifast með atvinnuflugmannsréttindi (CPL/ME/IR). Námstími er um 24 mánuðir.
Á meðan réttindi nemandans eru sambærileg við útskrift eru kostir atvinnuflugnáms þær að námið er heilsteypt og skipulagt frá grunni til enda. Vissir viðbótarþættir eru í náminu sem tryggja að stöðugt er haldið við og bætt við þekkingu og færni. Má til dæmis um þessa viðbótarþjálfun eru verkefnaflug undir bæði sjónflugs- og blindflugsreglum þar sem nemendum er gert að áætla flug eftir vissum skilyrðum og eru verkefnin hönnuð til þess að styrkja aga, ákvarðanatöku, þekkingu og aðra mikilvæga þætti. Nemendur í atvinnuflugmannsnámi stunda námið með það að markmiði að verða atvinnuflugmenn og er þeirri stefnu haldið í gegnum allt námið.
Skólinn heldur vel utan um nemandann út námstímann og eru allir áfangar og flug (bókleg og verkleg þjálfun) skipulögð fram í tímann. Áfangaskipta námsleiðin bíður uppá meiri sveigjanleika sem hentar vissum nemendum betur en þá ber nemandinn meiri ábyrgð á sinni námsframvindu.
Hvaða heilbrigðiskröfur eru gerðar til flugnema?
Öllum handhöfum flugliðaskírteina er skylt að vera handhafar sérstaks Part-MED heilbrigðisvottorðs. Að lokinni fullnægjandi heilbrigðisskoðun hjá fluglækni, sem fer fram í samræmi við kröfur Part-MED, gefur fluglæknir út 1. eða 2. flokks heilbrigðisvottorð. Gildistími 1. og 2. flokks heilbrigðisvottorða er mismunandi. Heilbrigðisskoðanir eru annað hvort 2. flokks sem dugir fyrir alla einkaflugmenn eða 1. flokks þar sem kröfurnar eru eilítið hærri og atvinnuflugmenn þurfa að standast.Fyrsta flokks Part-MED heilbrigðisvottorð:
- Á við um atvinnuflugmannsskírteini og flugvélstjórnarskírteini
- Gildir í 12 mánuði fyrir atvinnuflugmenn í einstjórnarloftförum þar til þeir ná 40 ára aldri
- Gildir í 12 mánuði fyrir atvinnuflugmenn í fjölstjórnarloftförum þar til þeir ná 60 ára aldri, en eftir það gildir vottorð í 6 mánuði
- Gildir í 12 mánuði fyrir flugvélstjóra
Annars flokks Part-MED heilbrigðisvottorð:
- Á við um flugnema, einkaflugmenn, svifflugmenn og fisflugmenn
- Gildir í 60 mánuði til fertugs, í 24 mánuði til fimmtugs og í 12 mánuði eftir það
Þarf ég einhverja menntun til að geta byrjað að læra flug?
Nemendur þurfa að geta sýnt fram á færni og kunnáttu í stærðfræði, ensku og eðlisfræði. Menntakröfur eru mismunandi eftir því hvaða nám er sótt um en Flugakademía Íslands metur hæfni hvers umsækjanda fyrir sig við umsókn.
Hvaða kröfur eru gerðar til nemenda sem sækja um Atvinnuflugnám?
Umsækjendur um bóklegt atvinnuflugmannsnám námskeið þurfa að vera handhafar einkaflugmannsskírteinis en jafnframt mælum við með því að nemendur hafi staðist 1. flokks læknisskoðun áður en námið hefst. Umsækendur þurfa að hafa lokið stúdentsprófi /sambærilegu námi (a.m.k 200 einingar) með að minnsta kosti 5e í eðlisfræði á öðru þrepi, 10e í stærðfræði á öðru þrepi og 15 e í ensku (þar af 10e á öðru þrepi og 5e á þriðja þrepi). Þeir sem þurfa á að halda geta leitað í áfanga sem eru í boði s.s. í Opnum framhaldsskólaáföngum Menntaskólans á Ásbrú eða sambærilega áfanga á netinu.
Hvert er aldurstakmarkið í einkaflugnám?
Nemendur þurfa að hafa náð 17 ára aldri til að ljúka einkaflugnámi. Því er æskilegt að nemandi sé orðin allavega 16 ára við upphaf náms. Við upphaf atvinnuflugnáms, hvort sem um er að ræða samtvinnað eða áfangaskipt nám þarf umsækjandi að vera að lágmarki 18 ára við upphaf náms.
Hvað tekur langan tíma að verða einkaflugmaður?
Námið tekur að jafnaði um 6 mánuði en lengd náms er breytileg eftir högum nemandans. Nemandi þarf að ljúka bóklegu námi sem tekur um 3 mánuði og er námsskeiðið kennt þrisvar á ári.
Hvað tekur langan tíma að verða atvinnuflugmaður?
Allt frá byrjun til enda tekur samtvinnað atvinnuflugmannsnám um 24 mánuði. Einkaflugnám og áfangaskipt atvinnuflugnám tekur að jafnaði 24-30 mánuði með tímasöfnun.
Hvaða próf þarf maður að taka fyrir einkaflugmannsréttindi?
Nemendur sem útskrifast af einkaflugmannsnámskeiði fá réttindi til að þreyta próf hjá Samgöngustofu.
Hvaða próf þarf maður að taka fyrir atvinnuflugmannsréttindi?
Nemendur sem útskrifast úr atvinnuflugmannsnámi hjá Flugakademíu Íslands fá rétt til að þreyta próf hjá Samgöngustofu.
Hvar eruð þið staðsett?
Skrifstofa Flugakademíu Íslands er staðsett í aðalbyggingu Keilis að Grænásbraut 910 á Ásbrú (við Keflavíkurflugvöll). Bóklegt nám fer fram á Ásbrú og verkleg kennsla fer fram bæði á Reykjavíkurflugvelli og alþjóðaflugvellinum í Keflavík.