Fara í efni

Námskeið

Flugakademía Íslands býður fjölbreytt úrval námskeiða fyrir flugmenn og flugkennara til þess að endurnýja eða bæta við réttindi sín.

Áhafnasamstarf á þotu

Til að flugmaður geti starfað af öryggi í flugvél sem þarfnast tveggja flugmanna (fjölstjórnarflugvél), þarf nemandinn að læra nýjar venjur og nýjar samskiptareglur. Starfsreglur um borð í slíkum flugvélum, eru ólíkar því sem gerist í þeim flugvélum sem einungis krefjast eins flugmanns. Við upphaf verklegrar þjálfunar í flughermi skal umsækjandi vera handhafi atvinnuflugmannsskírteinis með fjölhreyfla- og blindflugs áritunum (CPLME/IR)

 • Áhafnasamstarfsnámskeið (MCC)
  Námskeiðið snýst um að læra undirstöðu samstarfsins: Sameiginlega ákvarðanatöku, samskipti, verkaskiptingu, notkun gátlista, gangvirkt eftirlit, og stuðning í gegnum alla þætti flugsins undir venjulegum og óvenjulegum aðstæðum sem og í neyðartilvikum. Þetta eru þættir sem eru yfirleitt ekki hluti af tegundaáritunum fjölstjórnarflugvéla og er námskeið í áhafnasamstarfi því skylda áður en menn fá að sækja slíka þjálfun.

  Á námskeiði í MCC skal vera minnst 25 tíma kennsla og æfingar í bóklegum greinum og 20 tíma þjálfun í áhafnasamstarfi. Nota skal til þess flugleiðsöguþjálfa II MCC (FNPT II) eða flughermi. Notast er við Alsim ALX flughermi fyrir verklega þjálfun þessa námskeiðs.

 • Jet Orientation Course (JOC)
  Í boði er að bæta við áhafnasamstarfsnámskeið, námi til þotuflugs (JOC), en slíkt nám er krafist af stærri flugrekendum sem starfrækja þotur í rekstri sínum.

  JOC námskeiðið tekur um 4-6 daga og samanstendur af 16 klst í flughermi ásamt samtals 10 klst bóklegu fyrir og eftir hvern tíma. Þar er lögð meiri áhersla á þjálfun flugmanna í handflugi og að undirbúa nemendur vel fyrir inntökupróf hjá flugfélögum.

Sækja um MCC & JOC

 • Airline Pilot Standard MCC (APS MCC)
  APS MCC er nýtt námsskeið sem hannað til að brúa bilið á milli hins hefðbundna námskeiðs í áhafnasamstarfi (MCC) og þjálfunar til tegundarréttinda á fjölstjórnarflugvélar. Þetta námsskeið sameinar raunverulega MCC og JOC í eitt, og við bætast svokölluð línuflug sem er flug áhafnar frá A til B í því umhverfi sem flugfélög starfa í. Á námsskeiðinu læra nemendur um ýmsa mikilvæga þætti flugmannsstarfsins í alþjóðlegu umhverfi s.s. færni í samskiptum, samvinnu, ákvarðanatöku og leiðtogahæfni. Nemendur læra að leysa hin ýmsu vandamál með því að nýta sér reynslu og þekkingu samstarfsfólksins sem teymis, þekkja lagaumhverfið, starfsaðferðir og að beita sinni þekkingu í þessu flókna vinnuumhverfi. Fá nemendur með þessu námsskeiði annars vegar mjög góðan undirbúning fyrir inntökupróf í flughermi hjá flugrekanda, og hins vegar góða innsýn og þjálfun til að takast á við sína fyrstu tegundaráritun á fjölstjórnarflugvél hjá hvaða flugrekanda sem er.

  Á námskeiði í APS MCC skal vera minnst 35 klst þjálfun í flughermi fyrir nemendur í samtvinnuðu atvinnuflugmannsnámi, eða 40 klst fyrir nemendur í áfangaskiptu atvinnuflugmannsnámi. Fyrir verklega þjálfun eru notaðir Alsim ALX, Boeing 757-200, Boeing 767-300 eða Boeing 737 MAX flughermar.

Sækja um APS MCC

Endurnýjun og framlenging réttinda

Til að viðhalda færni og áritunum þarf flugmaður reglulega að mæta vissum kröfum reglugerða um flugskírteini. Flugakademía Íslands bíður uppá upprifjunarþjálfun fyrir upprifjun, framlengingu eða endurnýjun áritanna. Öll þjálfun og útleiga miðast við gildandi verðskrá og einingarverð. Þjálfun gerir ráð fyrir viðeigandi kennslu og kennslugögnum ásamt útleigu viðeigandu flugvélar til hæfni- eða færniprófs með prófdómara en prófgjöld eru hins vegar ekki innifalin. Ef skírteini er útgefið af öðru aðildarríki EASA en Íslandi ber flugmanni að kynna sér allar viðeigandi kröfur og reglugerðir er lúta að þjálfuninni en alla jafna þarf prófdómari að hafa hlotið samþykki af viðeigandi aðildarríki áður en sótt er um hæfni- eða færnipróf.

Sækja um í tölvupósti

 • Framlenging á flokksáritun á einshreyflins einstjórnarvél (SEP)

  Flokksáritun á einshreyfils einstjórnarflugvél (SEP) gildir í tvö ár. Til að framlengja SEP áritun áður en hún fellur úr gildi þarf skírteinishafi að uppfylla annað eftirtalinna skilyrða:

  • Standast hæfnipróf með prófdómara innan þriggja mánaða áður en áritun rennur út;

  eða

  • Ljúka 12 klst. fartíma í viðeigandi flokki innan 12 mánaða áður en áritun rennur úr gildi, þ.m.t.:
   • 6 klst. fartímar sem flugstjóri eða 12 flugtök og 12 lendingar
   • Þjálfunarflug sem er a.m.k. ein klst. með flugkennara (FI) eða flokksáritunarkennara (CRI). Umsækjendur sem hafa staðist færnipróf eða hæfnipróf aðra fyrir flokks- eða tegundaráritun á ofangreindum tíma eru undanþegnir þjálfunarflugi með kennara.

  Umsækjendur sem bæði eru handhafar SEP- einshreyfilsáritunar og áritunar fyrir ferðavélsvifflugu (TMG) geta uppfyllt framangreindar kröfur í hvorum flokknum sem er að sambland af þessu og fengið framlengingu á báðar áritana.

 • Framlenging á fjölhreyfla flugvél (MEP)

  Til að framlengja flokks- og tegundaráritanir fyrir fjölhreyfla loftför skal umsækjandi:

  1. standast hæfnipróf í samræmi við prófastaðal við þennan hluta á flugvél í viðeigandi flokki eða tegund eða í flughermisþjálfa sem líkir eftir þeim flokki eða tegund, innan þriggja mánaða áður en gildistími áritunarinnarrennur út, og
  2. á meðan á gildistíma áritunarinnar stendur, ljúka a.m.k.:
   • 10 flugum sem flugmaður á viðeigandi flokki eða tegund flugvélar, eða
   • einu flugi sem flugmaður á viðeigandi flokki eða tegund flugvélar eða í flughermi með fullri hreyfingu semflogið er með prófdómara. Þetta flug má fara fram á meðan á hæfniprófinu stendur.
  3. Flugmaður, sem vinnur fyrir flugrekanda í flutningaflugi, sem samþykktur er í samræmi við gildandi kröfur um flugrekstur og sem hefur staðist hæfnipróf flugrekanda ásamt hæfniprófi fyrir framlengingu flokks- eða tegundaráritunarinnar skal undanþeginn kröfunni í 2. lið.

  Framlengingu vegna blindflugsáritunar fyrir flugvélar, ef hún er til staðar, má framkvæma samtímis hæfniprófi til framlengingar flokks- eða tegundaráritunar.

 • MEP/IR endurnýjun

  Flokksáritun á fjölhreyfla einstjórnarflugvél gildir í eitt ár. Til að framlengja þá áritun áður en hún fellur úr gildi þarf handhafi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Standast hæfnipróf allt að þremur mánuðum áður en áritun fellur úr gildi
  • Ljúka minnst 10 flugum á viðkomandi flokk flugvélar eða einu flugi með prófdómara (það má fara fram á meðan á hæfniprófinu stendur)

  Sé áritunin fallin úr gildi þarf flugmaður að fá upprifjun eða mat hjá flugskóla ásamt hæfniprófi hjá prófdómara. Upprifjun er metin útfrá tíma frá því áritun rann út en þörf hvers og eins er breytileg og getur að endingu verið meiri eða minni eftir reynslu og réttindum hvers og eins. Áætlað verð er greitt fyrirfram en gert er upp við lok náms þannig að einungis er greitt fyrir þá þjálfun og þjónustu sem nýtt er. Færnipróf í flugvél er áætlaðir 2 tímar og eru prófgjöld ekki innifalin. Komi til viðbótarþjálfunar skal hún greidd fyrirfram eftir gildandi verðskrá eða þannig að flugmaður eigi að lágmarki innistæðu fyrir færniprófi.

 • Útrunnar áritanir

  Sé áritunin fallin úr gildi þarf flugmaður að fá upprifjun eða mat hjá flugskóla. Hafa skal samband við yfirflugkennara skólans, sem safnar þá öllum upplýsingum og gögnum flugmannsins og setur saman persónumiðaða þjálfunaráætlun. Þegar nægilegri færni er náð, bæði í þekkingu sem og flugfærni að mati yfirflugkennara, er pantað hæfnipróf hjá prófdómara Samgöngustofu.

  Upprifjunarnámið er metið út frá þeim tíma sem flugmaður flaug síðast og þeim tíma sem er liðinn síðan áritun rann út. Þjálfuninaráætlun fer að meira eða minna leiti eftir reynslu og réttindum hvers og eins. Áætlað verð er miðað við þjálfunaráætlun sem er sett fram af yfirflugkennara og skal hún vera greidd fyrirfram. Ef farið er umfram þjálfunaráætlun, er gert er upp við lok náms, þannig að einungis er greitt fyrir þá þjálfun og þjónustu sem nýtt er.

  Færnipróf í flugvél er áætlaðir að lágmarki 1,5 klst. og eru prófgjöld prófdómara Samgöngustofu ekki innifalin. Komi til viðbótarþjálfunar skal hún greidd fyrirfram eftir gildandi verðskrá eða þannig að flugmaður eigi að lágmarki innistæðu fyrir kostnað færniprófsins.

Upprifjunarnámskeið flugkennara

Upprifjunarnámskeið flugkennara er 2 daga námskeið sem flugkennarar þurfa að sitja til þess að endurvekja eða halda í gildi flugkennararéttindum sínum. Á þessu námskeiði verður farið yfir kennslufræði, nýjar reglugerðir, reglur í okkar nærumhverfi og margt fleira. Námskeiðið er ætlað þeim flugkennurum sem eru þegar handhafar FI/IRI/CRI (A) flugkennaraáritunar og þurfa að uppfylla ákvæði Part FCL reglugerðar um viðhald eða endurnýjun áritunar. Að loknu námskeiði verður gefin út skjal af hálfu Flugakademíunnar til staðfestingar á setu námskeiðs og nota ber við endurnýjun flugkennaravottunar hjá Samgönguyfirvöldum.

Sækja um

Dagskráin er haldin í samræmi við ákvæði Part FCL skirteinareglugerðar og ítarefnis AMC1 FCL.940.FI(a)(2), þar sem farið yfir eftirfarandi efni:

 1. Nýjar eða núgildandi reglur eða reglugerðir, með áherslu á Part FCL og starfrækslu loftfara.
 2. Kennslufræði
 3. Kennslutækni
 4. Hlutverk kennara
 5. Breytingar á landsreglugerðum i flugi
 6. Mannleg geta
 7. Flugöryggi, forvarnir vegna flugatvika og flugóhappa
 8. Flugmennska
 9. Lagaleg úrræði í flugkennslu og framkvæmd þeirra
 10. Færni í flugleiðsögu, með áherslu á nýjan eða núverandi leiðsögubúnaði
 11. Að kenna blindflug
 12. Veðurfarsleg atriði ásamt öflun þeirra
 13. Hvert það atriði sem skólinn eða samgönguyfirvöld vilja koma á framfæri.

Enskumat

Flugakademía Keilis býður uppá enskumat í samræmi við reglugerðir ICAO Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, en gerð er ákveðin krafa um hæfileika og færni í enskri tungu, samkvæmt reglugerðum um störf flugmanna, flugumferðastjóra eða annara sem vinna í talstöðvarsamskiptum í flugheiminum. Enskumatið fer fram í verklegri aðstöðu Flugakademíunnar á Reykjavíkurflugvelli. Að lokinni skráningu verður haft samband um matsstað í samráði við matsmann. 

Sækja um

Flugbúðir fyrir ungt fólk

Flugakademía Íslands býður reglulega upp á Flugbúðir fyrir ungt fólk. Flugbúðirnar eru tilvalinn vettvangur fyrir þau sem hafa brennandi áhuga á flugi og fugtengdum málum sem og þau sem hyggja á flugnám í framtíðinni til þess að spreyta sig og fá betri innsýn inn í flugheiminn.

Advanced UPRT

Advanced UPRT er nýtt námskeið sem undirbýr flugmenn með markvissri þjáfun til að læra að koma flugvél úr mismunandi upset ástandi á öruggan hátt. Námskeiðið skiptist í bóklegt nám (5klst) sem kennt er sem CBT og endar á prófi. Í kjölfarið fer nemandi í verklega þjálfun með sérþjálfuðum flugkennara. Verklega þjálfunin samanstendur af að lágmarki 3klst flugi á DA20 flugvél skólans þar sem farið er yfir grundvallaratriði í því hvernig koma skal koma flugvél út úr óæskilegum flugham. Að námskeiði loknu hlítur nemandi útskriftarpappíra en til þess að geta tekið fyrstu týpuréttindi þá er krafa frá EASA að viðkomandi aðili hafi lokið advanced UPRT þjálfun skv reglugerð FCL.745.A. Námskeiðið er hægt að hefja hvenær sem er.

 Sækja um