Fara í efni

Einkaflugnám (PPL)

Fyrsta skrefið í Áfangaskiptu Atvinnuflugmannsnámi - Einkaflugmaður

Einkaflugnám Flugakademíu Íslands er sett upp sem fyrsta skrefið í áttina að því að verða atvinnuflugmaður fyrir þá sem ætla sér að fara áfangaskiptu námsleiðina.

Námið er unnið í samræmi við samevrópskar reglur um flugnám, sem innleiddar eru á Íslandi frá Öryggisstofnun Evrópu (EASA) í gegnum EES-samninginn. Að loknu einkaflugnámi, öðlast þú samevrópsk einkaflugmannsréttindi (Part-FCL flugskírteini), sem veitir þér réttindi til að fljúga á einshreyfils flugvél í sjónflugi með farþega án endurgjalds víða um heim. Einkaflugmannsnám er bæði skemmtilegt og krefjandi nám sem skiptist í bóklegt nám og verklegt nám.

Eitt af inntökuskilyrðum í þetta nám er að vera handhafi 2.flokks heilbrigðisvottorðs flugmanna. Til þess þarf að fara í skoðun hjá sérstökum fluglækni. Þegar farið er í fyrsta skiptið þarf að fara í ýmsar ítarlegar skoðanir á heyrn, sjón ofl. Hægt er að panta tíma í skoðun hjá tveim stofnunum hér að neðan.

Vinnuvernd

Fluglæknar

Inntökuskilyrði

Umsækendur þurfa að:

 • Vera 15 ára að aldri við upphaf náms. Hafa ber í huga að til þess að öðlast leyfi til einliðaflugs (solo) þurfa einstaklingar að vera 16 ára eða eldri og 17 ára til þess að fá einkaflugmannsskírteini (PPL).
 • Geta gert fjármálaskuldbindingar. Einstaklingar undir 18 ára aldri þurfa skriflegt leyfi foreldris/forráðamanns til þess að hefja nám og gera fjármálaskuldbindingar við skólann.
 • Hafa að bera góða færni í ensku bæði í riti og máli. Námsefni er á ensku og mögulegt að kennsla fari að hluta til fram á enskri tungu.
 • Vera handhafi a.m.k. annars flokks flugheilbrigðisskírteinis (2nd class medical certificate) fluglæknis.
 • Vera með hreint sakavottorð og geta gengist við bakgrunnskoðun lögregluyfirvalda, vegna óhefts aðgangsheimildar inn á flugvallarasvæði Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvallar. Nemanda ber að verða sér út um sakavottorð hjá viðkomandi lögregluembætti fyrir námið. Einnig má benda á að við lok náms getur Samöngustofa einnig krafist sakarvottorðs eða bakgrunnsskoðunar, vegna útgáfu á flugskírteini.
 • Erlendir þegnar frá landi utan EES (ESB) og/eða EFTA sem ætla að búa á Íslandi lengur en þrjá (3) mánuði verða að hafa gild dvalarleyfi. Fáðu nánari upplýsingar um dvalarleyfi og námsleyfi.

Bóklegt nám

Bók­legt nám tekur um þrjá mánuði og í því felst 100 klukkustunda (150 kennslustunda) nám­skeið sem kennt er í kvöld­skóla eða fjarnámi. Bóklegt einkaflugnám er samansett af 9 námsgreinum, sem raðað er upp á stundaskrá hverju sinni. Hverri námsgrein er lokið með skólaprófi. Til þess að öðlast próftökurétt til þess að þreyta einkaflugmannspróf Samgöngustofu þurfa nemendur að hafa staðist skólapróf með lágmarkseinkunn upp á 7,5. Að einkaflugmannsprófi loknu hafa nemendur 24 mánuði til þess að þreyta verklegt einkaflugmannspróf og öðlast einkaflugmannskírteini. Kjörið er að fljúga samhliða bóklegu námi en nægur tími gefst til upplestrar og heimalærdóms milli innilota.

Námsgreinar:

 • Lög og reglur um loftferðir
 • Almenn þekking á loftförum
 • Afkastageta og áætlanagerð
 • Mannleg geta og takmörk hennar
 • Flugfjarskipti
 • Flugveðurfræði
 • Flugleiðsaga
 • Verklagsreglur í flugi
 • Flugfræði

Verklegt nám

Verklegt flugnám byggir á að lágmarki 45 klst. flugtímum á flugi, með og án flugkennara eftir tilvikum og þar af skulu a.m.k. 25 klst. vera flognar með flugkennara og 10 klst. í einliðaflugi undir leiðsögn flugkennara. Námið byggir á staðarflugi (local) þar sem æfðar eru t.d. lendingar og flugtaksæfingar á flugvelli með mismunandi tækni, flugæfingar í æfingasvæði, svo og yfirlandsflugi.

Auk nokkurra yfirlandsfluga í náminu, skal eitt einliðaflug í yfirlandsflugi vera framkvæmt sem hljóðar upp á a.m.k. 150 NM (280 km) vegalengd, með stöðvunarlendingum á tveimur mismunandi flugvöllum. Að loknu verklegu námi þarf nemandinn að standast 1,5 klst. verklegt flugpróf með prófdómara. Skilyrði fyrir útskrift úr verknámi, er að hafa lokið öllum bóklegum prófum hjá Samgöngustofu og framvísa skólanum sönnun þess, áður en verklegt flugpróf er framkvæmt.

Námsgreinar

 • Undirbúningur flugs, þar með talin ákvörðun massa og jafnvægis og skoðun og þjónusta flugvélar.
 • Flugvellir og umferðahringir, varúðarreglur og ráðstafanir til að forðast árekstur.
 • Stjórn flugvélar eftir kennileitum.
 • Flug á hættulega lágum flughraða, hvernig þekkja má og komast úr yfirvofandi eða fullu ofrisi.
 • Flug við hættulega háan flughraða, hvernig þekkja má og komast úr gormdýfu.
 • Flugtök og lendingar við eðlileg skilyrði og í hliðarvindi.
 • Flugtök við hámarksafkastagetu (stuttar flugbrautir og lítil hindranabil); stuttbrautarlendingar.
 • Flug eftir mælitækjum eingöngu, þar á meðal lokið við 180 gráðu lárétta beygju.
 • Landflug eftir kennileitum, leiðarreikningi og leiðsöguvirkjum.
 • Flug í neyðarástandi, meðal annars líkt eftir bilunum í búnaði flugvélar.
 • Flug til og frá flugvöllum með flugumferðarstjórn og í gegnum flugstjórnarsvið þeirra, fylgt reglum að því er varðar flugumferðaþjónustu, verklag í samskiptum og orðfæri.

Námsgögn
Kennsluefni fyrir flugnemaskírteini, handbækur flugvéla. Kennsluáætlun fyrir einkaflugpróf og flugæfingar samkvæmt þjálfunarbók.

Sólóprófið - Flugnemaréttindi
Flugnemar taka mikilvægt skref í átt að einkaflugmannsréttindum sínum þegar þeir fljúga fyrsta skipti einir síns liðs. Sá áfangi er kallaður sólóprófið(einliðaflug) og er einna eftirminnilegasti hluti flugnámsins. Eftir að hafa náð að taka á loft og lenda einsamall, hefur flugneminn sannað hæfni sína og fær útgefið flugnemaskírteini. Þá heldur kennslan áfram og nemandinn flýgur bæði með kennara og æfir sig einn, samkvæmt námskránni. Sólóprófið (einliðaflug) taka menn oftast eftir 15-20 klst flugkennslu.

Kennslumat/kröfur
Nemendur eru metnir af flugkennara fyrir fyrsta einflug. Stöðugt endurmat á sér stað á meðan náminu stendur en þegar líður að lokum eru nemendur metnir og farið yfir öll helstu atriði færniprófs fyrir útgáfu einkaflugmannsskírteinis.

Áframhald í atvinnuflugnám

Handhafi einkaflugmannsskírteins gefst kostur á að sækja um áframhaldandi nám í áfangaskiptu eða samtvinnuðu atvinnuflugnámi. Nemandi sem stundað hefur einkaflugnám hjá Flugakademíu Íslands fær metinn að fullu þann hluta bóknáms sem telst til grunnnáms (Basic) og að hluta verknámið, samkvæmt sérstökum reglum þar af lútandi. Í því tilefni, má viðurkenna allt að 50% af þeim tíma sem nemandinn hefur flogið fyrir námskeiðið, að hámarki 40 klst. fartíma eða 45 klst. fartíma ef næturflugsréttinda hefur einnig verið aflað. Af þessum tíma má að hámarki meta 20 klst. fartíma upp í kröfurnar um blindflugstíma með kennara, ef nemandi er einnig handhafi að blindflugsáritun.

Sækja um