Fara í efni

Nemendum heldur áfram að fjölga við Keilir

Mennta- og þjónustusvið Keilis tók nýverið saman tölulegar upplýsingar um aldur, kyn, búsetu og þjóðerni nemenda. Gögnin voru svo unnin áfram og efni þeirra birt á myndrænan hátt hér.

Frá síðustu skýrslu í október á síðasta ári hefur nemendafjöldi aukist um rúm 200 eða úr 1010 nemendum og í 1212. Stafar þessi aukning mest af auknum fjölda í Undirbúningsnámskeiðinu fyrir inntökupróf í læknisfræði en einnig hefur orðið fjölgun í fjarnámi Háskólabrúar. Verður þessi aukning til þess að nemendur eru flestir við Heilsuakademíu eða 422. Nemendafjöldi helst nokkuð stöðugur innan annara skóla Keilis.

Meðalaldur nemenda er 26 ár, karlar eru 44% nemenda og konur 56%. Meðalaldurinn er hæstur við Háskólasetur eða 32 ár en yngstu nemendurna eru að finna á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð þar sem meðalaldurinn er 17 ár.

Eins og áður eru flestir nemendur af Höfuðborgarsvæðinu eða 64% og næstflestir af Reykjanesi eða 19%. Þá eru 96% nemenda íslenskir en 4% af erlendum uppruna. Erlendir nemendur eru flestir við Flugakademíu Íslands en námsefni þar er allt aðgengilegt á ensku og hefur alþjóðlegum nemendum farið stöðugt fjölgandi við skólann undanfarin ár.