Fara í efni

Útskrift úr skólum Keilis í janúar 2023

Föstudaginn 13. janúar næstkomandi fer fram útskrift nemenda Keilis úr Háskólabrú, Heilsuakademíu og Menntaskólanum á Ásbrú.

Útskrifað verður úr fótaaðgerðafræði, stúdentsbraut í tölvuleikjagerð og Háskólabrú í fjarnámi og fer athöfnin fram í Hljómahöll í Reykjanesbæ kl. 15.00.

Athöfnin er opin bæði útskriftarnemendum og gestum þeirra og getur hver útskriftarnemi tekið með sér 3-4 gesti í athöfnina.

Þetta mun vera þriðja útskrift Menntaskólans á Ásbrú sem hóf starfsemi haustið 2019 þegar fyrstu nemendur skólans hófu nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Stúdentsbrautin er skipulögð sem þriggja ára nám þaðan sem nemendur útskrifast með staðgóða þekkingu í ýmsu sem tengist tölvuleikjagerð og fleiri skapandi greinum. Námið byggir á hagnýtum verkefnum með sterkri tengingu við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa.

Boðið hefur verið upp á nám í fótaaðgerðafræði hjá Keili síðan 2017 og verður þetta sjötti nemendahópur Keilis sem útskrifast úr fótaaðgerðafræði. Nám í fótaaðgerðafræði miðar að því að þjálfa færni og hæfni nemanda til þess að standast kröfur heilbrigðis- og félagsþjónustunnar um fagleg vinnubrögð og nákvæmni og áreiðanleika í starfi. Námið býr nemandann undir störf við meðferð fótameina skjólstæðinga innan og utan stofnana. Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta.

Fyrstu nemendur Háskólabrúar Keilis hófu nám haustið 2007 og hafa á þriðja þúsund nemenda útskrifast frá upphafi af Háskólabrú. Háskólabrú Keilis býður upp á nám fyrir einstaklinga sem hafa ekki lokið stúdentsprófi en vilja stefna á háskólanám eða styrkja sig á vinnumarkaði. Keilir er eini skólinn sem býður upp á aðfaranám í samstarfi við Háskóla íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir Háskóla Íslands. Á föstudaginn næstkomandi verða nemendur útskrifaðir af félagsvísinda- og lagadeild, viðskipta- og hagfræðideild og verk- og raunvísindadeild í fjarnámi.