Um miðbik næstu viku mun Keilir tímabundið veita unglingadeild grunnskólans Holtaskóla í Reykjanesbæ aðstöðu til náms. Holtaskóli stendur frammi fyrir þeirri erfiðu stöðu að skólahúsnæði þeirra er ekki nothæft og viðgerðir þegar hafnar. Um er að ræða tímabundið úrræði nú þegar vorönn er hálfnuð og nokkra mánuði fram.
Holtaskóli verður með kennslustofur sínar á A gangi og fylgja kennarar Holtaskóla nemendum sínum í hvívetna. Næðisrými Keilisnemenda á A gangi færist í stofu B3 og er eftir sem áður opið öllum Keilisnemendum. Forstöðumenn sviða upplýsa nemendur um möguleg áhrif innan hvers sviðs fyrir sig og ef þið eruð í vafa þá hvetjum við ykkur til þess að hafa samband við forstöðumann ykkar sviðs. Það er áfall fyrir hlutaðeigandi hvaða menntastofnunar sem er að upplifa aðstæður sem þessar og við biðlum því til bæði nemenda og starfsfólks Keilis að sýna Holtaskóla hlýju í erfiðri stöðu.