Fara í efni

Ræða framkvæmdastjóra Keilis við brautskráningu 14. ágúst 2020

Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis
Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis

Ræða framkvæmdastjóra Keilis við brautskráningu 14. ágúst 2020.

Kæru útskriftarnemar og gestir sem heima sitjið, innilega til hamingju með daginn. 

Ég heiti Jóhann Friðrik og er framkvæmdastjóri Keilis og mun ég stjórna þessari athöfn hér í dag. Það voru þau Hjördís Rós Egilsdóttir og Alexander Grybos sem fluttu okkur tónlistaratriði hér í byrjun og færi ég þeim mínar bestu þakkir fyrir.

Í dag fer fram útskrift hjá Háskólabrú og Íþróttaakademíu Keilis. Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka sérstaklega kennurum, stjórnendum og öllu starfsfólki Keilis fyrir þrautseigju og dugnað í ljósi kórónuveirunnar það sem af er þessu ári. 

Lykillinn að árangri felst meðal annars í hæfni okkar til þess að bregðast við breyttum aðstæðum og laga okkur að umhverfinu. Það hefur starfsfólk Keilis sýnt, en ekki síður þið kæru útskriftarnemar sem lögðuð ykkur öll fram, þrátt fyrir mótlæti og erfiða stöðu í samfélaginu.  

Hjá Keili setjum við nemendur í öndvegi. Við viljum koma á móts við aðstæður og þarfir hvers og eins. Það er okkar markmið að nemendur upplifi sig aldrei eina á ferð. 

Mig langar að gera að umræðuefni mínu einmitt tilgang Keilis og þá framtíðarsýn sem við hjá Keili aðhyllumst. 

Við trúum á samfélagið okkar, við teljum að allir eigi að hafa jöfn tækifæri til náms, óháð því hver staða þeirra er í samfélaginu. Við trúum því að nám eigi að vera öllum opið, og við trúum því og sjáum það í okkar vinnu frá degi til dags að menntavegurinn sé öllum fær, svo lengi sem umhverfið, stuðningurinn og hvatningin er til staðar. Það er frábært að vinna hjá Keili. Ég tel það vera einhverja mestu gæfu sem mér hefur hlotnast á vinnumarkaði. Ég vinn mikið, en vinnan mín er ekki bara áhugamál mitt heldur hvatning fyrir lífið sjálft. Það að gera góðan skóla enn betri er mitt markmið á hverjum einasta degi. Oft er það erfitt en ekkert verkefni er verðugt nema því fylgi áskoranir. 

Það er mín bjargfasta trú að skemmtilegt starf sé stór þátturinn í okkar lífshamingju. Það að búa við gott starfsumhverfi, finna stuðning samstarfsfólks og vera þátttakandi í viðburði sem þessum er ómetanlegt. 

En hvers vegna erum við að læra? Hvað er það sem menntunin á að gefa okkur? Í mínu lífi hefur menntun spilað stóran sess. Ég kláraði aldrei framhaldsskóla, ég einfaldlega hafði hvorki áhugann, stuðninginn né rétta umhverfið á þeim tíma. Ég fór að vinna, stofnaði fyrirtæki, eignaðist dásamlega dóttur og lærði sjálfur af mörgum mistökum, gekk oft vel og stundum illa. Ég sótti um undanþágu til náms á þeim tíma í Háskóla Íslands og var hafnað. Þá var enginn Keilir til. Fátt var í boði annað en að taka einn og einn áfanga hér og þar og á endanum fór ég erlendis í nám og byrjaði minn námsferil upp á nýtt. Það var alls ekki auðvelt. Ég var orðinn mikill snillingur í að finna hagstæð tilboð, horfði í hverja krónu en naut þess að vera í námi á mínum forsendum. Ég fór að finna fyrir verulegum áhuga á námi enda bauðst mér að hafa mikið um það að segja hvernig ég vildi haga því og mér fór að ganga betur. Það er jú þannig að okkur gengur best þegar við höfum trú á verkefninu, trú á því að okkur séu allir vegir færir, rétt eins og öðrum sem við horfum upp til. Ég hef sagt það áður og segi það aftur hér, tilgangur Keilis er ekki bara að mennta fólk. Tilgangur Keilis er að efla trú nemenda á sjálfum sig. Að trúa að þú getir líka lært, þú getir menntað þig í áhugaverðum greinum, skarað fram úr, lært að hafa áhrif á samfélagið, einstaklinga sem þurfa á þinni hjálp að halda, og umfram allt gert þig gildandi á því sviði sem þú velur að starfa á. Já, okkar líf er stundum þyrnum stráð. En það lofaði okkur enginn því að lífið yrði alltaf auðvelt. Lífið er erfitt, heimurinn og náttúruöflin oft grimm og stundum finnst okkar eins og ekkert gangi upp. En örvæntið ekki. Hér á landi, í okkar samfélagi eru þið aldrei ein á ferð. Við hjá Keili eru ævinlega stolt af öllum okkar útskriftarnemendum.

Sumir segja að við sem samfélag setjum kannski of mikla áherslu á gráður og gleymum mikilvægasta þættinum sem er færni. Færni til þess að vinna verkin, lesa á milli línanna, greina kjarnann frá hisminu og finna hvað mestu máli skiptir hverju sinni. Menntun er ekki síður að kenna okkur að hugsa, forgangsraða og vinna skipulega. Menntun er drifkraftur framfara, opnar okkur dyr að atvinnumöguleikum og auknum lífsgæðum auk þess sem menntun skilgreinir okkur fyrir okkur sjálfum. Við skilgreinum okkur oft út frá því hvað við störfum við eða í hverju við erum menntuð. Við segjum, „ég er hagfræðingur“, „ég er smiður“, „ég er einkaþjálfari“, „ég er framkvæmdastjóri“. Við erum líka oft spurð af öðrum, hvað við gerum og í hverju við séum menntuð. Þannig er menntun stór hluti af okkar daglega lífi, okkar sjálfsmynd og okkar skilgreiningu á tilgangi okkar og annarra. Menntun er þannig órjúfanlegur hluti af lífinu og okkar lífshamingju. 

Við vitum það öll að undanfarnir mánuðir hafa verið okkur erfiðir. En í raun snúast viðhorf okkar oft um viðmið. Eru síðustu mánuðir búnir að vera erfiðir miðað við frostaveturinn mikla 1918? Nei, varla. Hafa síðustu mánuðir verið efnahagslega erfiðir miðað við óðaverðbólguna sem ríkti hér á landi á árum áður, þar sem laun misstu stóran hluta af verðgildi sínu? - varla. Er líf okkar erfitt miðað við þá sem þurfa að búa við aðstæður þar sem ekki er einu sinni rennandi vatn? - varla. En við erum orðin góðu vön. Á Íslandi eru lífsgæði mjög mikil. Við höfum flest tækifæri á að vera okkar eigin gæfu smiðir. Við erum frjáls til þess að velja, læra og vinna við nánast hvað sem okkur langar til og það frelsi verður aldrei metið til fjár. Ég minntist á það hér fyrr í ræðu minni að hugsjón okkar hjá Keili væri að allir hefðu tækifæri til þess að ganga menntaveginn og á þeirri vegferð væri það okkar markmið að efla trú okkar nemenda á sjálfan sig. Það er sú sýn sem við berjumst fyrir á hverjum degi og þið eruð nú hluti af henni.  

En eins og venja er á útskriftum vil ég ljúka ræðu minni á nokkrum heilræðum til ykkar sem hafa reynst mér dýrmætt veganesti í lífinu: 

  • Verið aldrei hrædd við að mistakast. Grunnur viskunnar er hlaðinn úr mistökum, sagði James Joyce. Mistök kenna mann margt. Þeir sem mistakast aldrei, læra heldur aldrei neitt. 
  • Munið, að ef aðrir geta það, þá getið þið það líka. 
  • Það eru allir að glíma við sína erfiðleika, sínum því samúð og nærgætni í öllum samskiptum okkar á milli. 
  • Leitið að hinu góða í hverjum og einum, það hafa allir sína kosti. 
  • Munið að við lifum bara einu sinni. Þess vegna skiptir meira máli að láta alltaf reyna á drauma sína, því við höfum bara eitt tækifæri til þess að finna lífshamingjuna.  
  • Leggið allar áhyggjur til hliðar. Áhyggjur hafa aldrei bjargað neinu, aðeins framkvæmdir og aðgerðir koma hlutunum í réttan farveg. 
  • Munið,  að allt sem þið sjáið í kringum ykkur: byggingar, samfélag, tækni, vísindi, bækur, ljóð, tónlist, flugvélar og geimflaugar var allt hannað og framkvæmt af fólki sem er ekkert klárara en þið. 
  • Bæjarfélaginu, landinu og heiminum er stjórnað af fólki sem hefur ekkert meira til brunns að bera en þið. 
  • Ef þið vitið ekki eitthvað, lærið! 
  • Ef ykkur vantar hjálp, spyrjið!  
  • Ef þið missið móðinn, finnið besta vin ykkar og biðjið hann að stappa í ykkur stálinu, því þið eruð aldrei ein á ferð. 
  • Og síðast en ekki síst, gefið af ykkur. Veitið öðrum hvatningu, stuðning og væntumþykju, það kostar ykkur ekkert og er besta fjárfesting sem þið getið gert í lífinu.  
  • Trúið að bestu stundir ykkar og mestu sigrar séu framundan, hugsið aldrei um fortíðina nema til þess að læra af henni, fortíð ykkar hefur gert ykkur að þeim manneskjum sem þig eruð í dag og þar til tímavélin verður fundinn upp, breytum við hvort sem er aldrei fortíðinni. Fortíðin er liðin en framtíðin er ykkar. 

Kæru útskriftarnemar. Fyrir hönd okkar hjá Keili vil ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn og þakka fyrir að velja Keili.

Jóhann Friðrik Friðriksson,
Framkvæmdastjóri Keilis