Fara í efni

Opnun skólahúsnæðis Keilis 4. maí

COVID-19 kórónuveiran hefur haft í för með sér gríðarlegar afleiðingar bæði hér heimafyrir og erlendis. Hér má finna upplysingar um opnun húsnæðis í kjölfar tilslökunar stjórnvalda 4. maí 2020.

Gert er ráð fyrir að eftirfarandi gildi á meðan fjöldasamkomur þar sem fleiri en 50 einstaklingar koma saman eru óheimilar. Í auglýsingu stjórnvalda um takmörkun á samkomum vegna farsóttar er gert ráð fyrir að fyrirkomulagið gildi til 1. júní 2020 kl. 23.59. Jafnframt er tekið fram að stjórnvöld munu endurmeta þörf fyrir takmörkun eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort að unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistímann. Geri stjórnvöld breytingar á reglum um fjöldatakmarkanir verður þetta fyrirkomulag einnig endurskoðað til samræmis.

Aðgangur nemenda og starfsfólks að skólanum

Aðalbygging Keilis opin nemendum og starfsfólki eins og fram kemur á vefsíðu skólans. Þó gilda eftirfarandi takmarkanir:

  • Nemendur sem vilja nýta sér vinnuaðstöðu er bent á að nota sínar heimastofur. Nemendur í Háskólabrú og Íþróttaakademíu nýta les- og vinnurými á B gangi, en nemendur í atvinnuflugnámi og fótaaðgerðafræði á A gangi.
  • Nemendur Menntaskólans á Ásbrú munu eftir sem áður sækja sitt nám í fjarnámi.
  • Fjölda sæta við borð takmarkaður samkvæmt tveggja metra reglunni.
  • Hámarksfjöldi í afmörkuðum rýmum er takmarkaður við 50 manns, sbr. auglýsingu stjórnvalda.
  • Munum að við erum öll Almannavarnir og berum ábyrgð sem einstaklingar á að reglum sé framfylgt.

Við munum öll leggjast á eitt til þess að tryggja góða þjónustu við nemendur okkar á meðan á þessari tímabundnu ráðstöfun stendur. 

Eftir sem áður minnum við starfsfólk og nemendur Keilis á eftirfarandi

  • Nemendur eru hvattir til að nýta rafrænar þjónustuleiðir Keilis svo sem heimasíðu, tölvupóst, Moodle og Teams.
  • Nemendur eru hvattir til að nýta sér þjónustu námsráðgjafa Keilis. 
  • Nýtið ykkur þær rafrænu þjónustuleiðir sem eru í boði til að hafa samband við annað starfsfólks skólans einnig og eftir því sem við á.
  • Kynnið ykkur nýjustu upplýsingar um útbreiðslu veirunnar, viðbrögð og varnir á heimasíðunni COVID-19
  • Nemendur og starfsfólk Keilis eru minntir á mikilvægi þess að fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis.
  • Fyrst og síðast er handþvottur mikilvægasta sýkingavörnin. 
  • Fylgið tveggja metra reglunni í hvívetna.
  • Settur hefur verið upp búnaður fyrir handhreinsun í byggingu Keilis og er starfsfólk hvatt til að nýta sér hann. 
  • Áríðandi er að þeir sem finna fyrir sjúkdómseinkennum eða lasleika haldi sig heimafyrir.
  • Fólk með áhættuþætti, s.s. eldri einstaklingar og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, lungnasjúkdóma eða eru ónæmisbældir, á að vinna heima, forðast mannamót að óþörfu og huga vel að hreinlæti.
  • Gáið hvert að öðru, hvetjið fólk til að fara heim ef það virðist veikt og hugið sérstaklega að fólki sem ekki hefur neitt tengslanet á Íslandi.

Kynnum okkur öll vel hvað við getum gert til að draga úr áhrifum og dreifingu veirunnar.