Fara í efni

Mikill áhugi á sumarnámskeiðum Keilis

Hátt í eitt hundrað umsóknir hafa borist um þátttöku í sumarnámskeiðum Keilis sem boðið er uppá í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Fullbókað er í öll námskeiðin nema eitt - Útivist og umhverfi fyrir ungt fólk - sem hefst 6. ágúst næstkomandi.

Námskeiðin eru liður í aðgerðum stjórnvalda sem miða að uppbyggingu á Suðurnesjunum í kjölfar falls WOW Air í vor. Þau eru án endurgjalds og henta bæði ungu fólki sem og fullorðnum einstaklingum.

Útivist og umhverfi - Námskeið fyrir ungt fólk

Skemmtilegt og hagnýtt námskeið sem fer fram 6. - 21. ágúst (12 dagar) ætlað ungu fólki á aldrinum 13 - 16 ára sem hafa áhuga á útivist og ferðalögum. Boðið er upp á námskeiðið án endurgjalds.

Á námskeiðinu verður farið yfir grunntækni í jaðaríþróttum og útivist, svo sem kajakróðri, klettaklifri og jöklagöngum. Einnig verða kennd grunnatriði í útivist, svo sem klæðnaður og næring í gönguferðum, rötun með korti og áttavita, ásamt grunni í skyndihjálp. 

Um er að ræða skemmtilegt og nýstárlegt námskeið, þar sem þátttakendur yfirgefa þægindaramma heimilisins og eyða tímanum þess í stað umlukin náttúrunni þar sem þau læra nýja færni og þekkingu í útivist, ásamt því að skemmta sér og upplifa ný ævintýri með jafnöldrum sínum.

Nánari upplýsingar og skráning