Fara í efni

Keilir og geoSilica í samstarf

Hjálmar Árnason og Fida Abu Libdeh
Hjálmar Árnason og Fida Abu Libdeh

Keilir og geoSilica Iceland hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf sem gengur meðal annars út á aðgengi geoSilica að fullkominni efnafræðirannsóknarstofu og sérhæfðum búnaði Keilis, en á móti mun geoSilica taka að sér að kynna skólann þegar tækifæri gefast, t.d. í viðtölum, í fyrirlestrum og á annars konar uppákomum. 

Stofnendur og eigendur geoSilica eru þau Burkni Pálsson og Fida Abu Libdeh, en bæði luku þau orku- og umhverfistæknifræðinámi Háskóla Íslands á vettvangi Keilis árið 2012 og var fyrirtækið stofnað út frá lokaverkefnum þeirra við skólann. Þar áður hafði Fida lokið Háskólabrú Keilis og var hún í fyrsta útskriftarhópi skólans árið 2008.

geoSilica er nýsköpunarfyrirtæki sem hefur það að markmiði að framleiða hágæða kísilríkar heilsuvörur úr jarðhitavatni Hellisheiðarvirkjunar. Fyrirtækið var stofnað árið 2012 og setti fyrstu vöru sína á markað árið 2015. Varan er hágæða 100% náttúrlegt kísilsteinefni á vökvaformi sem inniheldur jarðhitakísil unnin úr skiljuvatni Hellisheiðarvirkjunar og er ætlað til inntöku. Kísilsteinefnið hefur margvíslega heilsusamlega virkni og er geoSilica sífellt að vinna að vöruþróun og þarf til þess aðgang að rannsóknaraðstöðu. 

Keilir er alhliða menntafyrirtæki, sem var stofnað árið 2007. Frá upphafi hefur skólinn einsett sér að byggja upp námsmannasamfélag þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu, þar á meðal vel útibúna rannsóknarstofu.