Fara í efni

Dómharður námsráðgjafi

Skúli Freyr Brynjólfsson, námsráðgjafi í Keili er elskaður og dáður af nemendur okkar. Það gegnir kannski öðru máli á fótboltavellinum. Skúli var í viðtali í Fréttablaðinu en hann dæmdi á dögunum þúsundasta fótboltaleikinn sinn. 

Hlaupið til Danmerkur og til baka sem dómari

Skúli Freyr Brynjólfsson, námsráðgjafi í Keili, dæmdi sinn þúsundasta fótboltaleik nýlega. Það gerðist á Selfossi þar sem Skúli hóf feril sinn bæði í lífi og leik. Hann kveðst aldrei hætta að læra, það sé lykilatriði í að halda starfinu áfram.

„Þetta var bara dásamlegt,“ segir Skúli Freyr Brynjólfsson um tilfinninguna sem hann upplifði við að ná 1.000 leikjum sem dómari í fótbolta. „Það var alls ekki borðleggjandi að ég gæti þetta því ég var svo hjartveikur og sem kornabarni var mér ekki hugað líf, þá átti ég einmitt heima á Selfossi og þar var haldin söfnun til að fjármagna ferð til London í aðgerð. Svo flutti ég aftur á Selfoss eftir að ég kláraði Kennó og þar byrjaði ég að dæma árið 2000. Það var því svolítið magnað að það skyldi hittast þannig á að ég dæmdi þúsundasta leikinn þar, sem var milli Selfoss og Tindastóls.“

Hann kveðst líka hafa farið aftur í stóra hjartaaðgerð árið 2012 og hún hafi heppnast alveg glimrandi vel. Hann sé búinn að dæma um 600 leiki síðan. Þegar blaðamaður dregur skemmtanagildi dómarastarfsins í efa og spyr hvort það sé ekki alltaf verið að skamma hann, svarar Skúli: „Jú, það kemur fyrir. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá kemur kannski eitthvert vesen upp í einum leik af hverjum tuttugu. Maður væri ekki í þessu ef um tóm leiðindi væri að ræða. Þá mundi heldur enginn endast í þessu starfi.“

Skúli tekur fram að það sé ekkert einsdæmi að dómarar komist yfir 1.000 leikja múrinn, hitt sé sjaldgæfara að þeir séu svo miklir nördar að halda sjálfir utan um leikjafjöldann í Excel. „Það er á kristaltæru að þetta var í þúsundasta skipti sem ég fer að heiman til að dæma fótboltaleik, en þetta er ekki hin opinbera tala, sú sem skráð er hjá KSÍ.“

Hann kveðst hafa lært heilmikið á þessum 1.000 leikjum, bæði á lífið og sjálfan sig. „Þetta starf er orðið partur af manni þannig að stress fyrir leiki er orðið sjaldgæft. Samt er ég enn að lenda í hlutum sem ég hef aldrei lent í áður. Bæði atriðum sem gerast úti á vellinum og svo gera dómarar og aðrir mistök sem maður vissi ekki að væri hægt að gera og ég er ekki saklaus af því. Jafnvel í þúsundasta leiknum mínum var eftirlitsdómarinn að benda mér á hluti sem betur mættu fara þannig að maður hættir aldrei að læra og það finnst mér mikilvægt.“

Spurður í hvaða deildum hann sé helst að dæma svarar Skúli: „Það er auðveldara að segja hvað ég má ekki dæma. Ég má ekki taka þátt í efstu deild karla en öllum öðrum á einn eða annan hátt, og það hef ég gert. Svo er misjafnt hvort ég má vera aðaldómari eða aðstoðardómari. Ég var aðstoðardómari í þúsundasta leiknum sem var í 2. deild karla, þar er ég ekki með réttindi til að vera aðaldómari.“

En finnst honum ekki leiðinlegt að mega ekki halda með einhverju liði? „Nei, það er ákveðinn léttir. Þá þarf maður ekki að hafa tilfinningar til þessa eða hins. Ég held með Manchester United í ensku deildinni ogfélagar mínir segja að það sé hundleiðinlegt að horfa á fótbolta með mér því ég sé svo hlutlaus!“

Mikil hlaup eru að baki hjá Skúla. Sem aðstoðardómari kveðst hann hlaupa aðmeðaltali frá 2,5 upp 5 kílómetra en sem aðaldómari 7,5 til 9,5 kílómetra. „Meðaltalið er, hugsa ég, fimm og hálfur til sex kílómetrar í leik. Margfaldaðu það með þúsund og þá ertu komin til Danmerkur og til baka! En þúsundasti leikurinn var bara áfangi á langri leið. Ég er ekkert hættur.“

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. júní 219