Fara í efni

Aðalfundur Keilis 2019

Aðalfundur Keilis verður haldinn kl. 15:45 þriðjudaginn 21. maí í aðalbyggingu skólans að Grænásbraut 910 á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hefðbundin aðalfundarstörf. Allir velkomnir. 
 
Ársskýrslu Keilis 2018 má nálgast hér
 

Ávarp framkvæmdastjóra Keilis

Síðasta starfsár einkenndist, að vanda, af sviptingum miklum. Um einstök atriði er vísað í skýrslur forstöðumanna. Hér skulu engu að síður tíunduð örfá atriði sem miklu hafa skipt í starfi Keilis. 

Fyrst ber þar að nefna þá erfiðu ákvörðun að hætta rekstri tæknifræðinnar. Hún hefur frá upphafi verið burðarásinn í nýsköpun og ákveðinn kjarni í starfi Keilis. Mörg áhugaverð verkefni og fyrirtæki hafa orðið til úr vinnu nemenda tæknifræðinnar. Þó um sé að ræða skemmtilegt nám sem atvinnulífið kallar eftir og góðar atvinnuhorfur þá hefur aðsókn frá upphafi verið undir væntingum. Í samráði við Háskóla Íslands varð niðurstaðan sú að flytja námið til Hafnarfjarðar (Menntasetrið við Lækinn). Vegalengdin úr borginni til Suðurnesja virðist of löng fyrir stúdenta. 

Í annan stað má nefna lausn á húsnæðisvanda Keilis. Skuld Keilis við Kadeco vegna byggingarinnar hefur legið sem myllusteinn um hálsinn á skólanum. Meðal annars hefur sú skuld raskað afgreiðslu mála innan kerfisins. Undirritaður hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að í upphafi hefði Kadeco (les: ríkisvaldið) átt að afhenda samfélaginu bygginguna uppgerða í von um að þar yrði byggð upp menntastofnun. Svo var ekki gert með óheppilegum afleiðingum fyrir alla aðila. Það er svo fyrir tilverknað Benedikts Jóhannessonar og fulltrúa hans (Georgs Brynjarssonar) í stjórn Kadeco sem „skuldamálið” vegna húsnæðis er leyst að miklu leyti. Fyrir það ber að þakka.

Þá er ánægjulegt að setja á blað þá staðreynd að loksins hefur fengist leyfi til að hefja kennslu á stúdentsbraut með leikjagerð sem sérsvið. Lilja Alfreðsdóttir er fjórði ráðherrann sem við leituðum til með þetta mál og sú fyrsta sem tekur af skarið. Fyrir það á hún hrós skilið. Aðsókn í þetta nám er sem búast mátti við. Við finnum fyrir sterkum stuðningi og ákalli fyrirtækja í þessum geira og aðsóknin er í raun mun meiri en búast mátti við. Þessi námsbraut er komin til að vera. 

Fleira mætti tína til, svo sem kaup Keilis á Flugskóla Íslands og verða þar með Flugskólinn á Íslandi.

Þetta er síðasta Ársskýrsla mín sem framkvæmdastjóra. Að eigin frumkvæði mun ég láta af störfum síðar á þessu ári. Þung verða þau skref að kveðja svo lifandi vinnustað með því einstaka fólki sem þar starfar. Þvílíkt lán sem það hefur verið. Þessa hóps mun ég sakna. Ég hef hins vegar reynt að vera ekki mikið lengur en tíu ár á hverjum stað og nú, þegar árin teljast 12, læt ég gott heita. Nýjar dyr opnast.

Eftir fyrsta ár Keilis námu tekjur um 40 milljónum króna. Í dag erum við komin yfir einn milljarð króna og vel yfir 100 manns koma að starfinu. Hæst rís samt sú gleði sem það hefur skapað að útskrifa yfir 3.000 nemendur á þessum tólf árum. Fólk sem hefur skapað sér ný tækifæri í lífinu með námi sínu hjá Keili.

En ekki hefur þetta alltaf verið dans á rósum. Mestur hluti orku minnar sem framkvæmdastjóra hefur verið varið í glímu við ótrúlega seinvirkt og lítt hvetjandi kerfi. Ferlið að hrinda í framkvæmd nýsköpun í menntun er seinlegra og meira kæfandi en marga grunar. Þetta er áhygguefni fyrir okkur sem þjóð. Menntamál þurfa að vera lifandi og fersk meðan kerfið vill halda óbreyttu ástandi sem lengst. Keilir er að mörgu leyti leiðandi í kennsluháttum og verður svo vonandi lengi enn.

Við tölum oft um Keilisandann. Hann lýsir sér í því andrúmslofti sem lengst hefur ríkt innan veggja okkar. Einkenni þess er faglegur metnaður, umhyggja fyrir öðrum, stöðug leit að nýjum tækifærum en umfram allt að hafa gaman af lífinu og taka sjálf okkur ekki of alvarlega. Meðan Keilsandinn dafnar mun Keilir verða til. 

Ég vil þakka öllu samstarfsfólki mínu á þessum tíma fyrir að skapa skemmtilegasta vinnustað sem ég hef unnið við. Ykkar verður sárt saknað. Þá vil ég þakka stjórnarfólki öllu fyrir frábært samstarf og hvatningu til góðra verka. Ekki tel ég á nokkurn hallað þó ég geti sérstaklega Árna Sigfússonar sem gegndi formennsku í rúm tíu ár. Samstarf okkar leiddi til góðrar vináttu. Og verður ekki annað séð en arftaki hans, Kjartan Már Kjartansson, feti sömu, góðu slóð.

Megi Keilir blómstra enn um langa hríð.

Hjálmar Árnason,
framkvæmdastjóri Keilis