Flugakademía Íslands býður upp á fyrsta flokks einka- og atvinnuflugmannsnám í einum öflugasta flugskóla á Norðurlöndunum.
Lögð er áhersla á nútímalega kennsluhætti og kennsluumhverfi en staðsetning skólans felur í sér einstakt tækifæri til þess að skapa frábæra aðstöðu til kennslu flugtengdra greina.
Keilir býður upp á námsleið til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð frá haustinu 2019. Námið, sem fer fram í Menntaskólanum á Ásbrú, byggir á hagnýtum verkefnum með sterkum tengslum við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Markmiðið er að bjóða upp á nám í tölvuleikjagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum.
Vinnuverndarskóli Íslands er nýr skóli á vegum Keilis. Skólinn býður upp á sveigjanlega og skilvirka vinnuverndarfræðslu sem lagar sig að þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig. Leiðbeinendur búa yfir áralangri af vinnuverndarfræðslu og munu námskeiðin byggja á nýstárlegum kennsluháttum Keilis.
Forstöðumaður Vinnuverndarskóla Íslands er Guðmundur Kjerúlf.
Viskubrunnur er nafnið á námskeiðabanka Keilis sem samanstendur af netnámskeiðum og netfyrirlestrum sem og hefðbundnum styttri og lengri námskeiðum.
Keilir býður einnig upp á framhaldsskólanámskeið þar sem hægt er að sækja hnitmiðaða áfanga á netinu sem miðast við Aðalnámskrá framhaldsskólanna og byggja á fyrirlestrum, æfingum og verkefnum. Áfangarnir eru einungis kenndir í fjarnámi og geta nemendur skráð sig hvenær sem þeim hentar. Hver nemandi hefur fjóra mánuði til að ljúka hverjum áfanga fyrir sig. Heildarfjöldi vinnustunda eru 18 - 24 klst á einingu og eru áfangarnir allir fimm einingar. Áfangarnir henta vel þeim sem vilja rifja upp námsefni eða þurfa að uppfylla ákveðnar forkröfur til náms.
Keilir leggur áherslu á vendinám (flipped learning). Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við þar sem fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu. Nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Þá geta nemendur sent spurningar um efnið til kennara (eða annarra nemenda í hópnum) og fá svör á netinu sem öllum eru opin. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt kennsluefni.
Kennslustundir í skólanum verða fyrir vikið öðruvísi. Þar vinna nemendur verkefnin, oftast saman í hóp, og kennarar aðstoða eftir þörfum við úrlausnir. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Nám er alltaf á ábyrgð nemenda og undirbúningur fyrir verkefnatímana í skólanum er nauðsynlegur til þess að vinnan í skólanum nýtist á virkan hátt.
Nánar um vendinám
Keilir hefur lagt þunga áherslu á að tileinka sér nýjustu og bestu tækni í fjarnámi. Margar af námsbrautum okkar má stunda í fjarnámi. Í megindráttum er það byggt upp á því að kennarar setja kynningar sínar og glærur á netið, tala skýringar sínar með, jafnvel bæta inn teikningum og skýringarmyndum eftir þörfum, slóðir að lifandi myndum o.s.frv. Nemendur geta borið fram spurningar sem kennari svarar reglulega. Þá geta nemendur spjallað saman um efnið á netinu. Aðgang að þessum þáttum hefur nemandinn hvenær sem honum hentar og jafn oft og hinum sýnist. Þannig má segja að með fullkominni tækni standi Keilir að mjög einstaklingsmiðuðu námi sem auðveldar mörgum að stunda nám.