Fara í efni

Verðandi flokkstjórar sækja nýtt námskeið Vinnuverndarskólans

Um sextíu verðandi flokkstjórar vinnuskóla Reykjanesbæjar, Voga og Grindarvíkur sóttu námskeið Vinnuverndarskóla Íslands síðastliðinn þriðjudag. 

Á námskeiðinu er fjallað um hvaða störf henta ungmennum í vinnuskólum eftir aldri. Reglugerð um vinnu barna og unglinga (1999) er kynnt fyrir nemendum ásamt hugtökum sem í henni eru notuð s.s. „hættuleg vinna“. Farið er yfir vinnuverndarstarf sem á að fara fram á öllum vinnustöðum, áhættumat starfa, mikilvægi öryggismenningar og ábyrgð og skyldur atvinnurekanda og flokkstjóra.

Námskeiðið er unnið í samstarfi við VÍS og Grundarfjarðarbæ. En til viðbótar við námskeið fyrir flokkstjóra hefur skólinn búið til námskeið fyrir þau ungmenni sem starfa munu í vinnuskólum sveitarfélaganna. Rétt eins og námskeið fyrir flokkstjóra eru þau rafræn og gagnvirk. Þar er farið yfir hvað ber að varast í vinnuumhverfinu, tekið er á líkamsbeytingu, vinnutíma og margt fleira. Námsefnið var leikjavætt í samstarfi við nemendur á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú. Nemendurnir gerðu leiki sem taka á mismunandi þáttum vinnuverndar í vinnuskólum á skemmtilegan og gagnvirkan máta. Hér má prófa leikinn Leikur vinnuverndar eftir Daniel, Leonard, Magnús Viðar og Nedas sem gerður var sem hluti af verkefninu.

"Þetta er í fyrsta sinn sem búin eru til námskeið sem sérhönnuð eru fyrir þennan hóp ungmenna en afar mikilvægt er að uppfræða unga fólkið áður en það fer út á vinnumarkaðinn." segir Eggert Björgvinsson verkefnastjóri við Vinnuverndarskóla Íslands.

Hér að neðan má sjá stutta kynningu á námskeiðinu.

 Frekari upplýsingar um námskeiðið og skráning