Leikjavædd námskeið fyrir vinnuskóla

Sigurvegararnir ásamt fulltrúum Vinnuverndarskólans og VÍS
Sigurvegararnir ásamt fulltrúum Vinnuverndarskólans og VÍS

Vinnuverndarskóli Íslands hefur búið til þrjú vinnuverndarnámskeið fyrir vinnuskóla í samstarfi við tryggingafélagið VÍS og Grundarfjarðarbæ. Námskeiðin eru fyrir flokkstjóra, 13 til 14 ára börn og 15 til 17 ára unglinga í vinnuskólum. 

Farið er yfir vinnuverndar- og öryggismál í vinnuskólum, s.s. slysavarnir, notkun persónuhlífa, líkmasbeitingu og vellíðan í vinnu. Námskeiðin eru fjarnámskeið sem hægt er að taka stafrænt þátt í eða horfa á saman í sal. Nemendur horfa og hlusta á stutta fyrirlestra og svara svo spurningum úr efninu. Til að komast áfram á námskeiðinu þarf að svara öllum spurningum rétt. Í námsefninu er mjög mikið af myndum en einnig eru sýndar teiknimyndir um NAPO en hann er búinn til af vinnuverndarstofnun Evrópu.

Nemendur geta byrjað á námskeiðinu þegar vinnuskólar vilja, þeir geta lært þegar þeir vilja og horft á efnið eins oft og þeir vilja. Það má reikna með að það taki u.þ.b. klukkutíma að klára barna- og unglinganámskeiðin en tvo klukkutíma að klára flokkstjóranámskeiðið. Upplýsingar um verð og fleira tengt námskeiðunum veitir Guðmundur Kjerúlf, forstöðumaður Vinnuverndarskóla Íslands.

Efnt til leikjasamkeppni

Námsefnið inniheldur þrenna stutta tölvuleiki sem unnir voru sem hluti af lokaverkefni fyrsta árs nema á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú. Efnt var til samkeppni til þess að skera úr um hvaða leikir væru best til þess fallnir að verða hluti af námsefninu.

Allir þátttakendur fengu símahaldara frá VÍS og pizzuveislu að verðlaunum. Spenningurinn fyrir verðlaunaafhendingunni var þó slíkur að pizzahlaðborðið nær gleymdist.

Það var leikurinn Safety Works, gerður af Aðalbirni, Mantvilas, Darel og Halldóri sem bar sigur úr býtum og fengu þeir gjafabréf frá Yay að upphæð 20.000 kr. hver og blómvönd. 


Tengdar fréttir