Fara í efni

Nám fyrir þau sem hafa áhuga á að vinna með börnum

Guðný Margrét Jónsdóttir hóf nám í leikskólafræðum eftir ábendingu frá leikskólastjóranum við leikskólann sem hún hefur starfað hjá síðastliðin þrjú ár. Námið heillaði hana og hentar vel með vinnu og börn á heimili.

„Ég kann vel að meta námsfyrirkomulagið. Það hentar mér einstaklega vel þar sem ég er í fullri vinnu og með tvö börn. Námsálagið er ekki of mikið en ekki of lítið heldur og mér finnst það mjög hentugt“ segir Guðný. Hún segist fá mikinn stuðning frá leikskólastjórunum og þau vilja fylgjast með því sem hún er að gera í náminu. Fagháskólanám í leikskólafræðum er skilgreint sem nám með vinnu og áætlað að það taki tvö ár. 

Námið hefur nýst vel í starfi að sögn Guðnýjar „Ég hef öðlast dýpri þekkingu á starfinu sjálfu þökk sé náminu. Ég fæ fleiri hugmyndir um hvað ég get gert með börnunum nú en áður“. Hún segir vel haldið utan um nemendur og svör fást fljótt frá kennurum og námsráðgjöfum. „Þetta nám er frábært fyrir alla þá sem hafa ekki verið í skóla lengi og þora ekki að byrja í námi eftir langa pásu“ segir hún og bætir við „Ég hvet alla þá sem hafa áhuga á að vinna með börnum að sækja um í Fagháskólanám í leikskólafræðum“

Fagháskólanám í leikskólafræðum

Fagháskólanám í leikskólafræðum er hagnýtt, atvinnutengt nám á háskólastigi sem lýkur með veitingu sérstaks prófskírteinis. Námið veitir haldgóða þekkingu á starfi með börnum í leikskólum og hentar einkum þeim sem hafa starfað sem leiðbeinendur í leikskólum og hyggjast bæta við hæfni sína og/eða hefja leikskólakennaranám. Nemendur munu fá námseiningar metnar sæki þeir um áframhaldandi nám í leikskólafræðum við Háskóla Íslands.

Námið er skipulagt sem brú yfir í háskólanám. Markhópur námsins eru leiðbeinendur sem starfa í leikskólum á Suðurnesjum. Stefnt er að því að fagháskólanám hefjist 1. september næstkomandi. 

Umsókn um námið fer fram af heimasíðu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Fólk velur umsóknargáttina, stofnar aðgang fyrst, passar að velja grunnnám - og námið sjálft heitir „Hagnýt leikskólafræði - grunndiplóma, 60e“Umsækjendur þurfa að sækja rafrænt um á þeirri síðu og hengja við tilheyrandi fylgigögn. Síðar verður kallað eftir staðfestum afritum af prófskírteinum/námsferilsyfirlitum frá þeim sem uppfylla inntökuskilyrðin.

Frekari upplýsingar um námið

Hafa samband