Fara í efni

Mikill áhugi á aukinni menntun meðal Íslendinga af erlendum uppruna

Samkvæmt nýlegri könnun Nýsköpunarsviðs Keilis hafa átta af hverjum tíu Íslendingum af erlendu bergi brotnu yfir átján ára aldri áhuga á að sækja sér frekari menntun hérlendis. Könnunin var lögð fyrir á vefnum í mars síðastliðnum bæði á pólsku og ensku með áherslu á áhuga þátttakenda á að sækja sér aukna menntun á Íslandi.
 
Samtals svöruðu 170 einstaklingar könnuninni og höfðu 89% þeirra sem svöruðu á pólsku áhuga á að sækja sér aukna menntun á meðan hlutfallið var um 78% meðal þeirra sem völdu að svara könnuninni á ensku. Tungumálaörðuleikar eru algengasta ástæða þess að íbúar með annað móðurmál en íslensku hafa ekki sótt sér aukna menntun hérlendis samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Þátttakendur tilgreindu flestir áhuga á menntun í margmiðlun og upplýsingatækni, stjórnun, iðnnámi og ferðaþjónustu aðspurðir hverskonar menntun þau hefðu helst áhuga á.
 
Magdalena Maria Poslednik vann könnunina fyrir hönd Keilis, en hún var nýverið ráðin verkefnastjóri nýrra menntaúrræða fyrir útlendinga á Íslandi. Magdalena lauk BS gráðu í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands árið 2016 og MS gráðu í markaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2020.
 
Nánari upplýsingar veitir Magdalena Maria Poslednik. Könnunina má nálgast hér [Keilir Survey 2021 - PDF].