Fara í efni

Þrautseigja, eftirtektarverður árangur og mikilvæg framlög verðlaunuð

Tuttugu og fjórir nemendur úr jafnmörgum framhaldsskólum víða um land tóku við Menntaverðlaunum Háskóla Íslands við brautskráningar úr skólunum í vor. Meðal verðlaunahafa var Hildur María Jónsdóttir sem útskrifaðist af Háskólabrúnni 11. júní síðastliðinn.

Menntaverðlaun Háskóla Íslands

Þetta var í fjórða sinn sem Menntaverðlaunin eru veitt en markmið þeirra er að vekja athygli á nemendum sem hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs auk þess að hafa náð eftirtektarverðum árangri á sviði lista eða íþrótta, átt mikilvægt framlag til skólafélaga eða skólans eða sy?nt þrautseigju við erfiðar aðstæður.

Hver framhaldsskóli gat tilnefnt einn nemanda til Menntaverðlaunanna og að þessu sinni bárust Háskóla Íslands 24 tilnefningar. Verðlaunin voru gjafabréf fyrir bókakaupum, viðurkenningarskjal frá Háskóla Íslands og styrkur sem nemur upphæð skrásetningargjalds fyrsta skólaárið í Háskóla Íslands, kjósi verðlaunahafinn að hefja nám þar. 

Nemendur sem hlutu Menntaverðlaun Háskóla Íslands við útskrift úr framhaldsskóla gátu jafnframt sótt um styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands  en styrkjum verður úthlutað úr honum síðar í sumar.

Allan listann af verðlaunahöfum er að finna hér

Eini skólinn sem býður aðfaranám í samstarfi við Háskóla Íslands

Háskólabrúin býður upp á nám fyrir einstaklinga sem hafa ekki lokið stúdentsprófi og geta nemendur að námi loknu sótt um háskólanám hérlendis og erlendis. Keilir er eini skólinn sem býður upp á aðfaranám í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir HÍ.