Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 29 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 16. janúar 2026. Athöfnin heppnaðist afar vel enda mikil gleði og stolt sem fylgir hverri útskrift. Eftir útskriftina hafði Keilir útskrifað yfir fimm þúsund nemendur af heildstæðri námsbraut eða 5065 einstaklingar frá árinu 2007. Til viðbótar við þá nemendur þá hafa um 8000 einstaklingar stundað nám eða tekið námskeið hjá Keili frá upphafi eða samtals tæplega 13.000 einstaklingar.
Hildur Bjarney Torfadóttir og Þorvarður Ólafsson hófu athöfnina með ljúfu tónlistaratriði.

Því næst flutti Berglind Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Keilis, ræðu og stýrði athöfn. Megináhersla í ræðu framkvæmdastjóra var um mikilvægi náms til að auka hæfni og færni einstaklingsins fyrir hann sjálfan sem og samfélagið. Að stunda nám krefst þrauseigju, góðrar skipulagningar sem og hæfni til að vinna sjálfstætt og með öðrum. Eins var dregin fram mikilvægi aðfarnáms líkt og Háskólabrúar í íslensku samfélagi fyrir fullorðna námsmenn sem hafa ekki lokið námi á framhaldsskólastigi og vilja hefja háskólanám. Þá vitnaði framkvæmdastjóri í umræðu Nönnu Rögnvaldsdóttur á samfélagsmiðlum í tenglsum við lífsgæði i dag borið saman við fyrir 60-70 árum og sett í samhengi við stöðu okkar í dag er varðar notkun net- og samfélagsmiðla. Í því samhengi fór framkvæmdastjóri yfir mikilvægi þess að temja sér að sýna virðingu og vinsemd í öllum samskiptum og taka ábyrgð á sínum gjörðum. 
Eftir ræðu framkvæmdastjóra flutti Ingunn Anna Rögnvaldsdóttir ávarp fyrir hönd starfsmanna Keilis þar sem hún fór yfir vegferð nemenda í náminu á Háskólabrú og það hugrekki að fara aftur af stað í nám eftir hlé. Þá hrósaði hún þeim fyrir staðfestu sem þeir sýndu í náminu og þakkaði þeim sérstaklega fyrir samfylgdina og hvatti áfram að láta draum sinn vaxa áfram.

Háskólabrú Keilis brautskráði samtals 29 bæði úr fjarnámi. Berglind Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri afhenti skírteini og viðurkenningarskjöl til útskriftarnema með aðstoð Dóru Hönnu verkefnastjóra. Nemandi með hæstu meðaleinkunn að þessu sinni var Hafdís Fannberg Kristóbertsdóttir með meðaleinkunnina 9,68. Hlaut hún gjöf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Málfríður Anna Gunnlaugsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar og fór yfir kjarkinn sem þarf til að fara aftur af stað í nám eftir námshlé og mikilvægi þess að gefast aldrei upp þótt það komi mótbárur á meðan náminu stendur. Þakkaði hún stuðninginn frá starfsfólki, samnemendum sem og aðstandendum á meðan náminu stóð.

Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla í 19 ár og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nemendur geta valið um að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu sem og viðbótarnám við stúdentspróf á verk- og raunvísindadeild. Frá síðustu áramótum færðist nám Háskólabrúar undir starfsemi Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.
Nú eru nemendur á Háskólabrú Keilis fleiri en á sama tíma í fyrra og sú námsleið heldur áfram sem fyrr, enda verið kjölfestan í starfseminni frá stofnun skólans árið 2007. Þá býður Keilir jafnframt upp á námskeið til undirbúnings fyrir inntökupróf í læknis-, tannlæknis- og sjúkraþjálfunarfræði við Háskóla Íslands en nú þegar hafa skráð sig rúmlega 300 nemendur og bætist í hópinn í hverri viku.
Myndasafn útskrift 16.janúar 2026